04.12.1973
Sameinað þing: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

110. mál, húsnæðismál

Flm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Það hefur nú svo æxlast, að till. mín til þál. á þskj. 132 hefur verið tekin fyrir á þessum kvöldfundi, sem örfáir hv. þm. hafa séð ástæðu til þess að sækja. Ég vil ekki bregðast þeirri þingskyldu minni að flytja framsögu með till. minni, enda þótt áhugi sé lítill hjá hv. þm. að hlýða hér á umr. að kvöldi dags. Ég verð að segja eins og er, að það hlýtur að vera freistandi fyrir mig og aðra þá, sem hafa flutt framsögu fyrir málum sínum í kvöld, að biðja um frest á málum okkar og fylgja fordæmi ýmissa annarra hv. þm., sem hafa fengið máli sínu frestað til hentugri tíma. Sér í lagi segi ég þetta, þegar svo virðist sem fjarvera þessara hv. þm. og virðingarleysi fyrir þingfundum sé verðlaunað með því að taka mál þeirra fyrir á reglulegri og heppilegri tíma. (Forseti: Má ég biðja hv. þm. að afsaka, hann getur fengið málinu frestað nú á stundinni, ef hann óskar þess, það stendur til boða.) Já, ég þakka hæstv. forseta, en ég hef áður rekið á eftir því, að þetta mál yrði tekið fyrir, enda nær 4 vikur síðan ég lagði málið fram, og ég vildi einmitt koma að því, að flest þau mál. sem á dagskránni eru og hafa verið á undan þessu máli, hafa verið lögð fram fyrr, þ. e. a. s. fyrir allt að mánuði, og mér finnst það engin vorkunn mönnum að mæta, þá loks þegar mál þeirra komast að, til þess að flytja framsögu með þeim, ekki síst þegar hæstv. forseti var búinn að boða til þessa fundar með nokkrum fyrirvara. En ég mun sem sagt ekki bregðast þessari þingskyldu minni og flytja hér framsögu með till., en mun að sjálfsögðu stytta mál mitt mjög verulega.

Þessi till., sem hér er á þskj. 132 og fjallar um húsnæðismál, er allítarleg og gefur tilefni til nokkuð langs máls og nokkurra útskýringa, en ég mun með hliðsjón af aðstæðum öllum stytta þær útskýringar.

Ég hefði í fyrstu viljað vekja athygli á því ákvæði í málefnasamningi ríkisstj., þar sem segir, að hún muni gera það að höfuðmarkmiði í félagsmálum að hafa forgöngu um, að byggt verði leiguhúsnæði, er lúti félagslegri stjórn og sé einkum í þágu frumbýlinga og aldraðs fólks. Ég minni í upphafi á þetta ákvæði málefnasamningsins, ekki vegna þess að ég sé svo samþykkur efni þess né heldur til að rek,ja sérstaklega vanefndir hæstv, ríkisstj., en ég minni á það til að vekja athygli á, að í þessu ákvæði er talið eðlilegt, að sérstakt átak sé framkvæmt í þágu frumbýlinga, unga fólksins, sem er að reisa sér heimili í fyrsta sinn.

Hér í Sþ. hafa nú í dag verið á dagskrá ein 5 mál sem snerta húsnæðismál. Þau hafa að vísu ekki öll verið tekin fyrir, en ljóst er þó af þessum till., að þar greinir menn nokkuð á um ástand og horfur, um leiðir og vinnubrögð, um framkvæmd og frammistöðu einstakra stjórnvalda í þessum málaflokki. En þó bera þessi mál öll með sér, að flestum er ljóst mikilvægi þessa málaflokks, að hér sé brýnasta úrlausnarefni samfélagsins á ferðinni. Menn gera sér almennt ljóst, að húsnæði er engin þægindi, heldur nauðþurft eins og fæði og klæði. Það er skylda stjórnvalda á hverjum tíma að gera öllu fólki kleift að koma sér upp íbúðum. Á sama tíma sem stjórn og stjórnarandstaða karpa um frammistöðu þeirra stjórnvalda, sem þau fylgja hverju sinni, er augljóst, að það er sameiginlegt áhugamál og sameiginlegur vilji op skoðun bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, að gera þurfi átak í húsnæðismálum.

Ég efast þó um, að þeir, sem fjalla um þessi mál, geri sér grein fyrir því, að löggjöfin um húsnæðismálin og lánveitingar til húsbyggjenda er fyrst og fremst haldreipi frumbýlinga, hins unga fólks. Það eru frumbýlingarnir með tómar pyngjur, en fullir af bjartsýni og lífskrafti, sem líta vonaraugum til Byggingarsjóðs ríkisins.

Ef menn gera tilraun til að ná einhverri yfirsýn yfir vettvang húsnæðismálanna, þá ætti að vera unnt fyrir okkur alla í sameiningu að komast að þeirri niðurstöðu, að lánakerfið, húsnæðislöggjöfin, eigi að einbeita sér að því að koma til móts við hið unga fólk, þá, sem byggja í fyrsta skipti, a. m. k. meðan ekki er unnt að tryggja fé í Byggingarsjóð ríkisins, þannig að hægt sé að veita öllum úrlausn, sem þangað sækja. Nauðsynlegt er að veita vissum aðilum forgang, meðan takmarka verður lán og lánþiggjendur, og það er eindregið mín skoðun, að sérstaklega skuli reynt að bæta úr hjá því fólki og þeim umsækjendum, sem eru að hefja byggingu eða festa kaup á íbúð í fyrsta skipti. Ég tel því, að húsnæðislöggjöfin eigi í auknum mæli að taka mið af þessu meginsjónarmiði. Það getur komið fram í því að veita aukin lán til þessa unga fólks eða frumbýlinganna og gera því, jafnframt kleift að tjalda til meira en einnar nætur með rýmkun á reglum um lánshæfni og skapa möguleika til. að ungt fólk geti keypt húsnæði og hafið búskap í eldra húsnæði, þurfi ekki alltaf að byrja á því að byggja sér nýtt húsnæði.

Ef allir hv. þm. geta í sjálfu sér, svo sem ég efast ekki um, fallist á þetta sjónarmið, þá er aftur ágreiningur um það, hvernig skuli nálgast þetta markmið. M. a. virðist vera nokkur ágreiningur um, hvort slíka aðstöðu eigi að skapa með stórfelldri byggingu leiguhúsnæðis eða með því að aðstoða fólk við að koma sér upp eigin íbúðarhúsnæði.

Eins og fram kom í ákvæðum málefnasamnings hæstv. ríkisstj., hefur hún markað sér þá stefnu að reyna að bæta úr með því að stórauka byggingu leiguhúsnæðis undir félagslegri stjórn, en enda þótt hún hafi ekki komið því markmiði sínu og ákvæði í framkvæmd, er þó ljóst, að þannig stendur hennar hugur, og m. a. má sjá það af fyrirhuguðum áætlunum ríkisstj. um að hyggja 1000 leiguíbúðir víðs vegar um landið. Ég er þeirrar skoðunar, að hér sé ekki rétt að farið og hér sé um ranga leið að ræða.

Í fyrsta lagi verður bygging leiguhúsnæðis engu ódýrari fyrir ríkissjóð, ég tala nú ekki um, ef það húsnæði á að vera áfram í eigu ríkisins, eftir að það er tekið í notkun. Ef ríkissjóður telur óhjákvæmilegt og nauðsynlegt að leggja mikið fé í húsnæðismál. er það skoðun mín, að því sé betur varið með rúmum lánveitingum með þeim aðferðum, sem ég benti á m. a. í minni till, og felur aðallega í sér, að fólk geti sjálft komið sér upp sínu eigin húsnæði. Það verður ekki ódýrt fyrir ríkissjóð að reisa slík leiguíbúðarhús, það verður dýrt að halda þeim við, sjá um rekstur þeirra, innheimta leigu, endurleigja, hafa eftirlit með umgengni o. s. frv., o. s. frv. Veigamesta röksemdin gegn stórfelldum leiguhúsabyggingum er þó sá rótgróni metnaður hverrar íslenskrar fjölskyldu að eiga sitt eigið húsnæði. Þeim hugsunarhætti verður ekki breytt um langa framtíð og á að mínu viti ekki að breyta. Meginkjarni till., sem hér er á dagskrá, gengur út frá þessum forsendum, þ. e. a. s. að gera eigi ungu fólki kleift að byggja, festa kaup á sínu eigin húsnæði og að það sé sjálft eigendur að þessu húsnæði.

Ef ég kem að einstökum tölul. þessarar þáltill., þá geri ég í fyrsta lagi ráð fyrir því, að það sé vilji fjárveitingavaldsins og stjórnvalda hverju sinni, að lánin dragist ekki óhóflega aftur úr hækkandi byggingarkostnaði, og að því leyti tek ég undir röksemdir hv. 5. þm. Vestf. varðandi þá till. sem hér var á dagskrá áðan og fram kemur á þskj. 83. Ég tel sjálfsagt, að í löggjöfinni um Húsnæðismálastofnun ríkisins, þar sem fjallað er um lánveitingar, sé hlutfallið bundið sem lágmark og lánin hækki í samræmi við hækkun byggingarkostnaðar og byggingarvísitölu. Með því verður og komið í veg fyrir árvisst karp og meting milli stjórnar og stjórnarandstöðu, hvort lánin séu hagstæðari eða lakari en áður.

Í öðru lagi legg ég til að löggjöfin komi áþreifanlega til móts við það unga fólk, sem ég hef gert hér að umtalsefni, og staðfesti það lagaákvæði, sem nú er í lögum, þannig að það verði meira en bókstafurinn einn. Þá á ég við, að í l. nú er Byggingarsjóði ríkisins heimilað að lána fólki á spariskyldualdri umframlán eftir þar til greindum reglum. En staðreyndin er sú, að sjóðurinn hefur enn ekki séð sér fært að framfylgja þessu ákvæði. Þetta er stórum miður. Spariskylda hefur því ekki haft raunhæft gildi hvað þetta snertir, hvorki fyrir þann, sem sparar, né heldur Byggingarsjóðinn sem tekjustofn. Því er lagt til, að þeir, sem spari samkv. 11. gr. núgildandi l., skuli eiga kost á viðbótarláni, allt að tvöfaldri þeirri upphæð, sem spöruð hefur verið. Það er sannfæring mín, að þetta muni hvetja ungt fólk til raunverulegs sparnaðar og það muni ekki taka fé út úr sjóðnum, eins og nú er, nema í neyð og ungt fólk muni sjá hagkvæmni þess að leggja fé til hliðar. Áfram eiga síðan samkv. minni till. að gilda reglur um skattaundanþágur hvað þetta sparifé snertir.

Í þriðja lagi legg ég til að rýmka skuli möguleika sjóðsins til útlána á eldri íbúðir. Enginn vafi er á því, að lánareglur Byggingarsjóðsins muni, eins og nú er háttað, mjög stuðla að því, að fólk ráðist í nýbyggingar frekar en kaup á eldra íbúðarbúsnæði. Af síðari kostinum ætti þó að vera augljós þjóðhagsleg hagkvæmni á margvíslegan hátt. Ég tel m. a., að sveitarfélögum ætti að vera að því mikil hagkvæmni að sveigja þróunina nokkuð inn á þessar brautir, að eldra húsnæði nýtist betur. Það kynni að draga úr geysilegri útþenslu þéttbýliskjarna með tilheyrandi kostnaði, skipulagi, götulagningu, skolpræsum o. s. frv., og því mætti vel hugsa sér, að sveitarfélagið væri fúst til að taka þátt í fjármögnun til lána út á eldri íbúðir, og er gert ráð fyrir því í þessari till. Þá er gert ráð fyrir í þessari till., að reglum um lánshæfni verði breytt frá því, sem nú er. Þar er um reglugerðarákvæði að ræða, en l. gætu þó sett ákveðinn ramma, sem hefði það í för með sér, að lítilli fjölskyldu, barnlausum hjónum eða hjónum með eitt barn yrði gert kleift að fá lán út á stærri íbúð en nú er, gert er ráð fyrir einhverri fjölgun í fjölskyldunni. Eins og alkunna er, miðast lánshæfni umsækjenda m. a. við fjölskyldustærð, og hefur þetta valdið því, að lítil fjölskylda, nýgift hjón t. d., eru ekki fyrr búin að koma sér upp íbúð og koma sér fyrir en íbúðin er orðin of lítil, og sama sagan, kaup, innréttingar, flutningar, afborganir o. s. frv. hefst á nýjan leik með nýjum íbúðakaupum. Fólk þarf að fá tækifæri gegnum lánakerfið til að festa kaup á íbúð, sem getur orðið varanlegur íverustaður, og því er gert ráð fyrir því í þessari till., að einstaklingar geti byggt eða keypt allt að 100 ferm. íbúð og tveggja manna fjölskylda og stærri geti byggt og keypt allt að 150 fermetra íbúð. Síðan er það mitt mat, að hversu stór sem fjölskyldan er, þá sé viðkomandi byggjendum eða íbúðarkaupendum í sjálfsvald sett, hvort þeir ráðist í stærri íbúðir eða ekki, og verða þá að standa sjálfir undir þeim kostnaði, sem umfram er.

Tekjuöflun Byggingarsjóðs ríkisins er vissulega stærsti höfuðverkurinn, og því er nokkuð fjallað um þann þátt málsins í þessari till. Þar er ekki um tæmandi upptalningu að ræða, og eflaust má sitthvað finna að þeim hugmyndum. Ég tel þó, að það sé aðeins tímaspursmál, hvenær og hvernig lífeyrissjóðirnir tengjast beint eða óbeint lánakerfi húsnæðismálanna. Þetta þurfa báðir aðilar, bæði ríkissjóður og lífeyrissjóðirnir, og reyndar allir aðrir aðilar að gera sér ljóst. Hér á ekki að þvinga neinu upp á lífeyrissjóðina eða ríkið, en það er eðlilegast og raunhæfast að ná samkomulagi. Og það er enginn vafi á því, að samkomulag er unnt að gera, sem kemur öllum til góða: lífeyrissjóðunum, Byggingarsjóði og byggjendum. Ég vek því athygli á þeirri hugmynd, að tengja megi lífeyrissjóðina lánakerfinu með því að breyta verkamannabústaðakerfinu og gera verkalýðsfélögin eignaraðila að þeim byggingarsjóði, sem þannig yrði stofnaður. Og ég geng lengra og set fram þá skoðun og till., að í nafni slíks byggingarsjóðs eigi að efla húsnæðisbyggingar í dreifbýlinu með þeim hætti eins og segir í 6. tölul. till. Þar er gert ráð fyrir því, að hugsanlegum byggingarsjóði verði sköpuð skilyrði til að byggja eða kaupa ákveðinn fjölda íbúða á hverju ári, sem seldar verða með hagkvæmum kjörum, og gangist sjóðurinn jafnframt undir þá skuldbindingu að endurkaupa viðkomandi íbúðir innan ákveðins árafjölda með byggingarvísitöluálagi á framlag eigenda. Slíka aðstöðu skal þó fyrst og fremst skapa í dreifbýli við framkvæmd byggðastefnu, segir í till. Það er mitt mat, að þessi vinnubrögð mundu gefast miklu betur og verða raunhæfari lausn á íbúðavandanum víðs vegar um landið en þær ráðagerðir, sem nú eru uppi um það að byggja stórfellt leiguhúsnæði, og mun ég ekki fjölyrða frekar um það undir þessum kringumstæðum.

Þá er gert ráð fyrir ýmsum öðrum tekjuöflunarleiðum í þessari till., og er sú veigamest, sem kveður á um, að launaskatturinn skuli óskiptur renna til húsnæðismálanna. Auk þess er gert ráð fyrir því í þessari till., að Húsnæðismálastofnunin geri nokkuð nákvæma áætlun um byggingarþörf hvers árs, að fengnum upplýsingum um lóðaumsóknir, mannfjölgun, skipulag, framkvæmdaáætlanir sveitarfélaga o. s. frv., þannig að það geti legið nokkuð ljóst fyrir, hver lánsfjárþörfin verður fyrir komandi ár, og á grundvelli slíkra áætlana skuli gerð aftur áætlun um lánsfjárþörfina, sem hægt verði óyggjandi að ganga út frá fyrir stjórn Byggingarsjóðs ríkisins. Ef tekjustofnar Byggingarsjóðsins hrökkva ekki til að mæta þessari lánsfjárþörf samkv. nefndum áætlunum, er lagt til í þessari till., að ríkissjóður bæti þann mismun upp með fjárveitingu á fjárl. næsta árs. Hér er að mínu viti ekki um óábyrga till. að ræða, og hér þarf ekki að vera um mjög háar upphæðir að tefla. Framlag ríkissjóðs beint og óbeint til húsnæðismálanna er nú rúmar 600 millj. eða rétt rúmlega 2% af heildarupphæð fjárlagafrv., eins og það liggur nú fyrir, og tek ég þá að sjálfsögðu aðeins til greina og hef í huga þær upphæðir, sem nefndar eru í fjárlagafrv. sjálfu. Ég tel þetta ekki óeðlilegt, enda þótt gert sé ráð fyrir, að þessi upphæð hækki nokkuð með hliðsjón af þeim almenna vilja hv. þm. um það, að ríkissjóður og stjórnvöld komi til móts við þann vanda, sem við er að etja í húsnæðismálum. Ef hv. þm. og stjórnmálamenn meina eitthvað með því að vilja bæta hér úr, þá er ekki of í lagt að koma til móts við þessa till., sem að mínu viti fellur fullkomlega saman við þær hugmyndir, sem m, a. hafa komið fram í umr. hér á þingi.

Lokaatriðið í þessum till. mínum er, að það sé síðar kannað, hvort ekki sé hagræði að því að fela öðrum stofnunum eða þjónustufyrirtækjum flest þau verkefni, sem gert er ráð fyrir að falli í verkahring Húsnæðismálastofnunar ríkisins. Það er alkunn staðreynd, að þessari stofnun hefur ekki reynst mögulegt að framkvæma ýmis þau lagaákvæði, sem falla undir hana og gert er ráð fyrir, að hún inni af hendi. Sjálfsagt kemur þar margt til: fjármagnsskortur, aðstöðuleysi og skilningsleysi yfirvalda á þeim verkefnum, sem Húsnæðismálastofnunin á að taka til meðferðar. Hvað sem veldur, þá er sem sagt staðreyndin sú, að þessum verkefnum hefur ekki verið sinnt. Ég held því, að það sé kominn tími til, að þessi verkefni séu tekin til athugunar og kannað rækilega, hvort ekki sé hægt að fela öðrum stofnunum þau til meðferðar. Þar er gert ráð fyrir alls konar rannsóknum, byggingarrannsóknum og áætlunargerð, og ljóst er, að það eru nú þegar starfandi í þjóðfélaginu margs konar stofnanir, sem einmitt eiga að hafa slík verkefni með böndum, svo sem rannsóknastofnanir og áætlanadeildir.

Herra forseti. Ég hef þá ekki þetta lengra. Till. þessi er borin fram í þeim tilgangi að draga fram þá staðreynd, að obbinn af byggjendum er frumbýlingar, og það er vegna þess, að mín skoðun er sú, þess vegna flyt ég till., að aðstoð hins opinbera eigi að beinast að þessum hópi. Löggjöfin á að einbeita sér að því að koma til móts við unga fólkið. Og meðan takmarkað fé rennur til húsnæðismála og lánakerfisins á þeim vettvangi, þá er það mín skoðun, að þeir, sem hefja byggingar eða festa kaup á íbúðum í fyrsta skipti, eigi að hafa algeran forgang. Ég vænti þess, að Alþ. sé mér sammála um þessa meginskoðun og taki því þessari till. vel og alla vega, að hún sé þess virði, að hæstv. ráðh. fái hana til athugunar við þá endurskoðun löggjafarinnar um húsnæðismálin, sem hann hefur boðað.

Ég legg svo til, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.