04.12.1973
Sameinað þing: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

116. mál, gjöf Jóns Sigurðssonar

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Það verður ekki sagt, að það sé þéttsetinn þingbekkurinn þessar mínúturnar, en áheyrendahópurinn, þótt hann sé lítill, er þó þeim mun betri, því að það eru vafalaust þeir áhugasömu, sem hér eru viðstaddir. Ég vil láta nokkur orð fylgja þeirri þáltill., sem hér er nú til umr., þáltill. á þskj. 140.

Svo sem hv. alþm. er kunnugt, kýs Alþ. menn í ýmsar veigamiklar nefndir og ráð, og er þá í flestum tilvikum kosið til nokkurra ára í senn. Ein er sú n., sem svo mikið er viðhaft, að Sþ. kýs hana árlega. Þessi virðulega n. heitir Verðlaunanefnd Gjafar Jóns Sigurðssonar. Sá, sem vitni er að þessari árlegu hátíðlegu nefndarkosningu á fundi Sþ., en ókunnugur málavöxtum að öðru leyti, hlýtur að gera sér í hugarlund, að hér sé um einkar mikilvæga nefndarskipun að ræða og ósmátt það verkefni, sem svo göfugri nefnd er falið. Ekki dregur það úr virðuleikanum, að hin þingkjörna n. á að stýra sjóði, sem tengdur er nafni Jóns Sigurðssonar. Vakna þá eðlilega nokkrar spurningar: Hver er gjöf Jóns Sigurðssonar? Hvert er starf verðlaunanefndarinnar? Á hvern hátt er Alþ. aðili þessa máls?

Gjöf Jóns Sigurðssonar forseta er sjóður, sem ekkja hans, Ingibjörg Einarsdóttir, stofnaði með erfðaskrá á banabeði, og skyldu mestallar eigur þeirra hjóna renna í þennan sjóð. Jafnframt var fram á það farið í erfðaskránni, að Alþ. veitti gjöfinni viðtöku og kvæði á um það, hvaða verkefni í þágu þjóðarinnar sjóðurinn skyldi styðja. Árið 1881 samþykkti Alþ. með þál. að veita viðtöku fyrir hönd þjóðarinnar gjöf þeirri, sem í erfðaskránni greinir. Þá voru og sjóðnum settar starfsreglur og ákveðið, að vöxtunum skyldi varið til verðlauna fyrir vel samin vísindaleg rit viðvíkjandi sögu landsins og bókmenntum, lögum þess, stjórn og framförum. Þá var jafnframt ákveðið, að Alþ. skyldi í hvert skipti sem það kæmi saman, velja þrjá menn til að kveða á um verðlaunaveitingar úr sjóðnum. Að þessari samþykkt stóðu ýmsir þingskörungar þeirra tíma, menn, sem vildu með því móti heiðra minningu Jóns Sigurðssonar, og var þáltill. samþykkt í einu hljóði. Starfsreglur sjóðsins voru svo staðfestar af konungi 27. apríl 1882 og birtar í Stjórnartíðindum sama ár. Þá nam sjóðurinn 5300 kr. Árið 1885 voru í fyrsta skipti kosnir af Sþ þrír menn í n. til þess að dæma um rit þau, sem bærust eða kæmu til álita til verðlauna. Jafnframt setti Alþ. verðlaunanefndinni erindisbréf, þar sem kveðið var á um ýmis framkvæmdaatriði við verðlaunaveitingu úr sjóðnum. Þar með mátti segja, að sjóðurinn væri kominn á legg og undir það búinn að taka til starfa.

Ekki fer það á milli mála, að með því að taka við sjóði þessum á þann hátt, sem greint hefur verið, með því að setja honum starfsreglur og velja honum stjórn, tók Alþ., á sig verulega ábyrgð á því, að sjóðurinn næði þeim tilgangi, sem gefendur hefðu ætlast til. Enginn annar gjafa- eða minningarsjóður hefur fyrr eða síðar verið tekinn með þessum hætti í beina vörslu Alþingis. Kom það og ljóslega fram við umr. á Alþ., bæði árið 1881 og 1882, að þetta var fyrst og fremst gert í því skyni að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar og framkvæma síðasta vilja konu hans, Ingibjargar Einarsdóttur. Með því vildi Alþ. með sérstökum og næsta óvenjulegum hætti þakka stórbrotið ævistarf hins látna stjórnmálaskörungs og leiðtoga í þjóðfrelsisbaráttunni.

Fyrsta úthlutun úr sjóðnum fór fram árið 1889, og hlaut þá verðlaunin viðkunnasti þálifandi vísindamaður Íslendinga, Þorvaldur Thoroddsen. Síðan starfaði sjóðurinn nokkurn veginn óslitið til ársins 1945 eða um nær 60 ára skeið. Á því tímabili hlutu verðlaun úr sjóðnum ýmsir kunnustu vísinda- og fræðimenn þjóðarinnar á þeim sviðum, sem sjóði þessum var ætlað að styðja. Allt er þetta rakið í grg. þáltill. og skal ekki endurtekið. Þess skal þó getið, að í verðlaunanefndinni hafa á hinum ýmsu tímum átt sæti margir þjóðkunnir vísindamenn og nokkrir stjórnmálamenn.

Af sjóði þessum eftir 1945 er það svo skemmst að segja, að hann hefur verið gersamlega lamaður og á engan hátt fær um að gegna hlutverki sínu. Veldur því að sjálfsögðu hið mikla verðfall peninga síðustu áratugi, það verðfall peninga, sem gert hefur nær alla íslenska gjafasjóði lítils eða einskis megnuga. Eftir að kom fram um 1950 gat það að sjálfsögðu ekki komið til mála að bjóða höfundi 1000, 1500 eða í hæsta lagi 2000 kr. í verðlaun fyrir vel samin vísindarit, en ársvextirnir voru eitthvað um það bil á þessum árum. Vegna þess hefur engu fé verið úthlutað úr sjóðnum síðustu 28 árin og er það því fyrir löngu orðið næsta hlálegt, þegar Alþ. er ár hvert að uppfylla þá skyldukvöð sína að kjósa verðlaunanefnd sjóðsins.

Sjóðurinn Gjöf Jóns Sigurðssonar nam nú við árslok 1972 rúmum 75 þús. kr.

Það er ljóst og hefur raunar lengi verið, að veiting verðlauna úr sjóði þessum verður ekki tekin upp aftur, nema sjóðurinn verði með einhverjum hætti gerður fær um að gegna því hlutverki á ný, sem honum var ætlað í öndverðu. Málefni sjóðs þessa voru fyrir nokkru að tilhlutan verðlaunanefndar þeirrar, sem kosin var á síðasta Alþ., rædd á fundi forseta og varaforseta Alþingis. Voru menn á einu máli um, að á þann hátt væri til sjóðs þessa stofnað og honum búinn starfsvettvangur, að Alþ. hefði þar sérstökum skyldum að gegna og mætti ekki láta gjöf Jóns Sigurðssonar að engu verða og tilganginn með sjóðsstofnuninni gleymast að fullu og öllu. Varð að ráði að flytja þáltill. þá, sem hér liggur fyrir á þskj. 140.Að því er varðar fyllri rök fyrir þessum tillöguflutningi, vil ég vísa til grg. þeirrar, sem till. fylgir, og benda þar sérstaklega á niðurlag grg. þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sá háttur hefur haldist, sem reglur sjóðsins gera ráð fyrir, að Sþ. kýs á hverju ári þrjá menn í verðlaunanefnd sjóðs, sem reistur er á dánargjöf Jóns Sigurðssonar og ber nafn hans, en síðan líða ár og áratugir, án þess að fært þyki að veita verðlaun úr sjóðnum. Skylda Alþ. og þjóðarinnar til að halda í heiðri minningu Jóns Sigurðssonar og konu hans er að dómi flm. næg röksemd fyrir því, að sjóðurinn verði reistur við með einhverjum hætti. En auk þess er ekki minni þörf nú en áður að hvetja menn og styrkja til vísindalegra afreka á þeim sviðum, sem sjóðnum er ætlað að sinna. Flm. líta svo á, að skjótvirkasta aðferðin til að tryggja sjóðnum starfsgrundvöll á ný sé að ætla honum nokkurt fé á fjárl. hverju sinni og komi það til úthlutunar eftir þeim reglum, sem um meðferð á vöxtum sjóðsins gilda. Þó þykir rétt að veita verðlaunanefnd heimild til að styrkja vísinda- og fræðimenn, sem eru með rit í smíðum, en ekki eingöngu fullsamin rit, enda væri þá slík fjárveiting jöfnum höndum viðurkenning á viðfangsefninu og hæfni höfundar til að vinna verkið. Sjái sjóðsstjórn eitthvert ár ekki ástæðu til að úthluta fjárlagafénu á viðkomandi ári, er eðlilegt, að það eða eftirstöðvar þess bætist um áramót við höfuðstólinn á sama hátt og ónotaðir vextir. Flm. telja við hæfi, að árleg upphæð sjóðnum til handa á fjárl. hafi þá viðmiðun, að tryggt megi telja, að hún haldi nokkurn veginn gildi sínu, hvað sem verðgildi krónunnar líður. Því segir í tillgr., að miða skuli við upphæð, sem eigi sé lægri en árslaun prófessors við Háskóla Íslands.“

Herra forseti. Við flm. væntum þess, að allir hv. alþm. geti orðið okkur sammála um till, þessa og að hún fái því bæði skjótan og góðan framgang. Að fyrri umr. lokinni óska ég þess, að till. verði vísað til fjvn.