05.12.1973
Efri deild: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

60. mál, hjúkrunarlög

Frsm. (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um frv. til hjúkrunarlaga og orðið sammála um jákvæða afgreiðslu þess. Brtt. hefur n. flutt á þskj. 170. Þessar brtt. eru lítið meira en orðalagsbreytingar.

Við 2. gr. eru orðin „í hjúkrunarfræðum“ færð framar í setningunni að ósk Hjúkrunarfélags Íslands, þannig að nú stendur:

„Leyfi samkv. 1. gr. skal veita þeim, sem lokið hefur prófi í hjúkrunarfræðum frá hjúkrunarskóla hér á landi eða frá Háskóla Íslands.“

Áður stóð þetta á undan Háskóla Íslands og er því aðeins tilfærsla.

Þar sem áður var talað um, að n., sem ráðh. skipaði, skyldi fjalla um hjúkrunarleyfi, stendur nú „hjúkrunarráð“. Þetta var einnig gert að ósk sama aðila, Hjúkrunarfélags Íslands.

3. gr. breytist svo í samræmi við það, þ. e. að í stað „nefndar“ í gr. kemur „hjúkrunarráð“. Einnig var breytt um kyn eins orðs, sem á sér eðlilegar skýringar.

Í aths. við 1. gr. frv. var rætt um nýtt samheiti fyrir þá, sem lokið hafa hjúkrunarnámi, og þar var vonast eftir nýjum till. um það frá Hjúkrunarfélagi Íslands. Félagið treystir sér ekki til að mæla með neinu nýyrði, svo að gr., stendur óbreytt.

Ég tel óþarft að rekja aðalefni frv. N. er algerlega sammála um frv. og leggur einróma til, að það verði samþ. með fyrrgreindum breytingum, en fjarverandi afgreiðslu málsins voru hv. þm. Bjarni Guðbjörnsson og Geir Gunnarsson.