05.12.1973
Efri deild: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

39. mál, veðdeild Landsbanka Íslands

Frsm. (Bjarni Guðbjörnsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um heimild til handa veðdeild Landsbanka Íslands til að gefa út nýja flokka af bankavaxtabréfum, sem nemur 100 millj. kr.

Frv. þetta var sent húsnæðismálastjórn og Seðlabanka Íslands til umsagnar. Húsnæðismálastjórn samþykkti einróma að mæla með samþykkt frv. óbreytts, og Seðlabankinn samþykkti einnig að mæla með því. Það kemur fram í umsögn Seðlabankans, að Landsbankinn hefur haft samráð við Seðlabankann um útgáfu þessara lánaflokka og þessi þáttur í starfsemi veðdeildarinnar hafi verið rekinn með gætni og hagsýni, eins og segir í umsögninni, — þá vita hv. þdm. það, — en þessi lán hafa verið veitt af Landsbankanum, en ekki af húsnæðismálastjórn.

Árið 1965 fékk veðdeildin með l. frá 22. maí heimild til þess að gefa út bankavaxtabréf að upphæð 100 millj. kr. Síðar, árið 1971, 7. apríl, fékk veðdeildin heimildina hækkaða upp í 200 millj., en þessar 200 millj. eru nú fullnotaðar og voru það í árslok 1972. Á þessu ári hafa engir nýir lánaflokkar verið út gefnir og því engin lán verið veitt. Þótti því brýna nauðsyn bera til að hækka þessa heimild núna um 100 millj., og fyrir því er þetta frv. fram borið. Hafa þessi lán nær eingöngu verið veitt út á eldri húseignir til lagfæringar og viðhalds á þeim, og hafa þau verið veitt eins og önnur þessi lán út á 1. veðrétt.

Fjh.- og viðskn. þessarar d. hefur einróma orðið ásátt um að mæla með samþykkt frv. óbreytts.