05.12.1973
Efri deild: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

137. mál, námslán og námsstyrkir

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera að umræðuefni frv., sem hér er til umr. Ég er í þeirri n., sem væntanlega mun fá það til meðferðar, og hef þar tækifæri til að fjalla um það. En ég vil nota þetta tækifæri til að beina fsp. til hæstv. menntmrh. Heyrst hefur, að frv. til nýrra l. um námslán og námsstyrki hafi verið í smíðum eða sé jafnvel þegar fullsamið, og einnig hafa borist af því einhverjar fregnir, að námsmenn, sem telja sig hafa haft aðstöðu til að vita eitthvað um efni þess frv., muni hafa gagnrýnt einhver atriði, sem ég skal nú ekki fara að tiltaka nánar. En því vildi ég spyrja hæstv. ráðh., hvort ætlunin sé að leggja fram frv. um þetta efni, námslán og námsstyrki, og hvort það muni verða nú á næstunni eða jafnvel fyrir jólahlé.