05.12.1973
Neðri deild: 36. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

2. mál, húsbyggingar á vegum Viðlagasjóðs

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Það frv., sem hér er til 1. umr., er komið frá hv. Ed., þar sem það hefur hlotið einróma samþykki, en er flutt til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út hinn 4. maí s. l. Það á sér þá forsögu, að þegar ljóst var, að yfir 400 hús í Vestmannaeyjum höfðu farið forgörðum undir hraun og ösku, var m. a. gripið til þess úrræðis að flytja inn verksmiðjuframleidd timburhús frá Norðurlöndum til að leysa að nokkru hina brýnu húsnæðisþörf Vestmanneyinga. Þar að augljóst var, að þessi hús uppfylltu ekki að öllu leyti ákvæði byggingarsamþykktar og brunavarnasamþykktar, er gilda í Reykjavík og öðrum skyldum stöðum á landinu, þótti nauðsynlegt að gefa út brbl., sem heimiluðu rn. að gefa út reglugerð, er leyfði ákveðin og nánar tilgreind frávik frá gildandi ákvæðum og samþykktum, að því er snertir þau hús, sem reist yrðu á vegum Viðlagasjóðs og Vestmannaeyjakaupstaðar.

Í samræmi við þessa niðurstöðu voru því gefin út brbl. um þetta efni, þ. e. a. s. lög nr. 70 frá 1973, ásamt reglugerð nr. 103 4. maí 1973, um hús reist á vegum Viðlagasjóðs og Vestmannakaupstaðar. Helsta innihald þessarar reglugerðar er það, að lóðir megi vera allt að 20% minni en reglugerð gerði áður ráð fyrir sem lágmarksstærð, þ. e. allt að 560 fermetrar í stað 700 fermetra. Byggist þetta á því, að þessi innfluttu hús eru 20–30% minni en meðalstór einbýlishús gerast nú orðið og þurfa þess vegna ekki eins stóra lóð. Þá eru í reglugerðinni ýmis ákvæði brunavarnalegs eðlis, svo sem varðandi fjarlægðir milli húsa, fjarlægðir húsa frá lóðamörkum og ákvæði um stærð glugga, er snúa að lóðamörkum. Ákvæði þessi eru allmiklu rýmri en núgildandi ákvæði, en hins vegar eru þau samt mun strangari en t. d. hliðstæð ákvæði á Norðurlöndum. Rýmkun þessi er gerð með hliðsjón af þeim stórauknu umbótum, sem orðið hafa í brunavörnum flestra staða hér á landi á seinni árum, og einnig með hliðsjón af þeim öryggiskröfum, sem er að finna í 6. gr. reglugerðarinnar, en þar er þess krafist, að þannig skuli gengið frá burðarhlutum húss, útveggjum, skilrúmsveggjum, súlum, bitum, lofti og gólfi o. s. frv., að um 30 mínútna eldþol sé að ræða hið skemmsta. Jafnframt er þess krafist, að sé um tveggja hæða hús að ræða eða innréttað ris, skuli klæðning efri hæðar gerð úr óeldnæmu efni. Út frá þessum forsendum eru ákvæðin um hámarksstærðir timburhúsa rýmkaðar mjög verulega eða úr 200 fermetrum í 460 ferm. og jafnframt leyfð tveggja hæða timburhús allt að 340 fermetra, en tveggja hæða timburhús eru alls ekki leyfð í núgildandi byggingarsamþykktum. Með þessum ákvæðum opnast m. a. sá möguleiki að byggja raðhús úr timbri, sem algengt er á Norðurlöndum. Í 8. gr. reglugerðarinnar eru enn frekari ákvarðanir varðandi brunavarnir, þannig að ekki megi nota nema óeldfim efni til hitaeinangrunar. Þá er í 10. gr. ákvæði, er leyfa 2 m og 30 cm lofthæð í stað 2.45, sem er lágmarkslofthæð samkv. núgildandi byggingarsamþykktum. Í 11. og 12. gr. reglugerðarinnar eru loks ákvæði, sem leggja þá ábyrgð á Viðlagasjóð og Vestmannaeyjakaupstað, að þessir aðilar sjái hvarvetna um útvegun nauðsynlegra leyfa, áritun hvers konar uppdrátta og beri yfir höfuð ábyrgð á öllum framkvæmdum í þessu sambandi. Sömu aðilar skulu halda skrá yfir þau hús, sem reist verða samkv. reglugerðinni, og sjá um, að þinglýst verði á hverri húseign yfirlýsingu um, að hún sé reist samkv. l. nr. 70/1973. Skulu þeir láta félmrn. í té afrit af skrá yfir hús þessi ársfjórðungslega.

Í sambandi við þetta mál þykir rétt að benda á, að núgildandi lög um byggingarsamþykktir eru næstum orðin 70 ára, þ. e. a. s. lög nr. 19/1905, og eru þau að sjálfsögðu fyrir löngu orðin úrelt. Árið 1924 var flutt mjög ítarlegt frv. til byggingarlaga á Alþ., en það náði ekki fram að ganga. Sérstök lög voru sett árið 1944 varðandi byggingarmálefni Reykjavíkur, og árið 1945 voru sérstök lög sett um byggingarsamþykktir í sveitum. Árið 1967 var nýtt frv. til byggingarlaga lagt fyrir Alþ., en það náði ekki að verða að lögum.

Fyrir forgöngu Norðurlandaráðs hefur á undanförnum árum verið unnið markvisst að samræmingu tæknilegra byggingarákvæða og staðla á Norðurlöndum, og samræmingu á að verða l.okið árið 1975.

Svo sem ég gat um í upphafi, veita lögin frá 1905 rn. ekki heimild til útgáfu reglugerðar, sem þó hlýtur að vera óhjákvæmilegt, svo að unnt verði að innleiða hin fyrirhuguðu samnorrænu byggingarákvæði. Með hliðsjón af þessu og samkv. þál. þeirri, sem samþ. var á Alþ. 16. maí 1972, þar sem Alþ. fól ríkisstj. að skipa n. til að endurskoða lög um byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp, sem ekki eru löggildir verslunarstaðir, skipaði félmrh. 21. maí 1973 n. manna til að endurskoða öll núgildandi lög varðandi byggingarmál og byggingarsamþykktir, og skal endurskoðunin við það miðuð, að ein lög um byggingarmál og byggingarsamþykktir gildi fyrir allt landið allt á sama hátt og á Norðurlöndum. Mun verða stefnt að því að leggja frv. til byggingarlaga fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Herra forseti. Ég hef ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., en leyfi mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.