25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

21. mál, rannsókn á brúarstæðum yfir Dýrafjörð og Önundarfjörð

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni yfir svari hæstv. samgrh. Það ber þess vott, að unnið hefur verið að þessum málum, eins og ráð var fyrir gert, þegar Alþ. veitti sérstaka fjárveitingu til verksins árið 1972. Ég lýsi sérstakri ánægju minni með, að því skuli vera heitið, að kostnaðaráætlanir bæði vegna brúar yfir Önundarfjörð og Dýrafjörð liggi fyrir, áður en gengið verður frá endurskoðun vegáætlunarinnar á þessu þingi. Ég tel einmitt, að það sé mjög þýðingarmikið, að svo reynist í framkvæmd.

Þá skildist mér á hæstv. ráðh., að þó að það lægju fyrir kostnaðaráætlanir, þyrfti að fara fram vistfræðileg athugun í sambandi við báðar framkvæmdirnar. Það er skiljanlegt. Mér skilst á svari hæstv. ráðh., að gert sé ráð fyrir, að það taki eitt ár. Ég geri ráð fyrir, að ekki sé hægt að ætlast til, að þessu verki ljúki á skemmri tíma. Hins vegar legg ég ákaflega mikla áherslu á, að þetta atriði dragist ekki lengur. Ég legg mikla áherslu á þetta vegna þess, að það er mjög ljóst, að hér er um hinar þörfustu framkvæmdir að ræða. Það er ekki einungis, að hér sé um stórkostlega endurbót að ræða á Vestfjarðavegi og samgöngunum milli Ísafjarðar og Reykjavíkur, heldur er hér ekki síður um það að ræða, að þessar framkvæmdir hafa stórkostlega þýðingu fyrir innansveitarsamgöngur, bæði í Dýrafirði og Önundarfirði.

Hæstv. ráðh. minntist á í sambandi við Dýrafjörð, að það mundi þurfa að gera samanburð á kostnaðaráætlun um brúargerð þar og svo uppbyggingu vegarins fyrir botn Dýrafjarðar. Þetta er alveg rétt. Það er einmitt þetta, sem líka ýtir á eftir því, að málinu sé hraðað, vegna þess að ástandið í vegamálunum fyrir botni Dýrafjarðar er algerlega óviðunandi. Ekkert fjármagn var veitt til þessa vegar á núgildandi vegáætlun, vegna þess að það þarf mjög stórar fjárfúlgur til þessa vegar. En vegurinn verður aldrei viðunandi að því leyti, að það háttar svo til, að þarna við rætur Glámuhálendisins er svo snjóþungt, að vegur teppist þar, hvernig sem hann er, jafnvel áður en heiðavegir teppast. Þannig mundi teppast þarna vegur og hindra samgöngur milli tveggja hreppa í Dýrafirði, þó að heiðin milli Dýrafjarðar og Önundarfjarðar sé fær að vetrarlagi.

Í Önundarfirði er hliðstæð þýðing fyrir þessa samgöngubót og í Dýrafirði. Bendi ég þar sérstaklega á, hvaða þýðingu slík brú yfir Önundarfjörð hefði vegna sambandsins milli Flateyrar og flugvallarins í Holti. Ég nefni þetta til þess að leggja áherslu á það, hve hér er um þýðingarmikið mál að ræða.

Hér er um stórmál að ræða, sem ég vænti, að hægt verði í næstu framtíð að framkvæma og koma í höfn eins og menn hafa hugsað sér það.

Ég vil endurtaka þakkir mínar til hæstv. ráðh. fyrir það, að málinu skuli vera haldið vel fram og þess skuli vera að vænta, að það sjái fyrir endann á þessum undirbúningsráðstöfunum.