06.12.1973
Efri deild: 31. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

107. mál, lántökuheimild vegna framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar 1973

Frsm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft til athugunar frv. til l. um lántökuheimild vegna framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar 1973.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. hafi heimild til að taka erlent lán að fjárhæð allt að 1400 millj. kr. eða jafnvirði þess í erlendri mynt. Eins og fram kemur í grg., eru heimildir til slíkrar lántöku í ýmsum lögum, þannig að hér er ekki um nýja heimild að ræða, en vegna lánsútboðs var talið nauðsynlegt að sameina þær heimildir í eina löggjöf og samræma fyrirhuguðu lánsútboði.

Samkvæmt 2. gr. skal endurlána Framkvæmdasjóði Íslands 800 millj. kr. af þessum 1400 millj. Ég tel það nokkurn galla á frv. þessu, að ekki skuli koma skýrt fram í frv. sjálfu, að hér sé ekki um að ræða nýjar heimildir, því að það er ekkert í frv., sem raunverulega bendir á það, og ég tel, að grg. sé í raun og veru alls óviðunandi hvað þetta atriði snertir. En það er þá rétt, að það komi skýrt fram hér í framsögu, að þarna er ekki um neinar nýjar heimildir að ræða, heldur verið að safna áður samþ. heimildum á einn stað.

Við meðferð málsins í Nd. var borin fram brtt. við frv. af Vilhjálmi Hjálmarssyni þess efnis, að ríkisstj. skyldi heimilt að taka 7 millj. dollara lán hjá Alþjóðabankanum til hafnarframkvæmda í Grindavík, Þorlákshöfn og Höfn í Hornafirði eftir nánari ákvörðun ríkisstj., og var þessi till. flutt að áeggjan hæstv. fjmrh. Þessi breyting er nokkuð seint fram komin og mun stafa af því, að þetta mál hefur verið að velkjast um nokkurt skeið í rn., en kemur svo hingað á síðustu stundu, og þá er alþm. ætlað á örfáum dögum með sérstökum hraða að afgreiða málið. Þetta er að sjálfsögðu ekki nógu gott, en verður þó að una við, og það er niðurstaða n. að athuguðu máli að mæla með því, að frv., verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Nd.