06.12.1973
Neðri deild: 37. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

129. mál, kaupstaðarréttindi til handa Bolungarvíkurkauptúni

Flm. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Hreppsnefnd Hólshrepps óskaði eftir því við þm. Vestf., að þeir flyttu á þessu þingi frv. til l. kaupstaðarréttindi fyrir Bolungarvíkurkauptún, og töldu þm. Vestf. eðlilegt að verða við þessari beiðni hreppsnefndarinnar, og standa allir þm. Vestf. að flutningi þessa frv. Við þm. Vestf. í Nd. erum flm., en þrír þm. Vestf, í Ed. eru jafnframt stuðningsmenn og hvatamenn þess, að þetta frv. er flutt. Ég tel mjög eðlilegt, að þessi beiðni komi fram frá hreppsnefnd Hólshrepps um það, að Bolungarvíkurkauptún fái kaupstaðarréttindi. Þarna er um kauptún að ræða, sem er með liðlega 1000 íbúa, og það er tiltölulega lítil breyting fyrir ríkisvaldið, þó að þetta frv. verði samþykkt, því að það þarf ekki að stofna þar nýtt bæjarfógetaembætti, eins og víða annars staðar, þar sem fram hafa komið óskir um frá hreppsfélögum að fá kaupstaðarréttindi, því að embætti er fyrir í Bolungarvíkurkauptúni, eða í Hólshreppi, lögreglustjóraembætti, og er því nánast um nafnbreytingu að ræða og annað ekki, því að svo að segja öll sömu mál heyra undir embætti lögreglustjórans í Bolungarvík.

Hins vegar er ekki því að neita, að með samþykkt frv. sem þessa fækkar mjög í sýslufélagi Norður-Ísafjarðarsýslu. Áður hefur það gerst, að Eyrarhreppur í Norður-Ísafjarðarkaupstað, og hann var annar fjölmennasti hreppur sýslunnar, en nú óskar Hólshreppur eftir kaupstaðarréttindum fyrir Bolungarvík, og þá eru ekki eftir nema 5 hreppar í Norður-Ísafjarðarsýslu og þar af 4 mjög fámennir sveitahreppar og eitt lítið kauptún, Súðavík, sem er í Súðavíkurhreppi. Það er svo vandamál út af fyrir sig, þegar þessi breyting verður, sem ég vona, á hvern hátt vandamál þessa litla og fámenna sýslufélags verða leyst. Ef fram kemur ósk um það frá þeim hreppum eða sýslunefndarmönnum þeirra hreppa, sem eftir eru, að sameinast t. d., svo sem eðlilegt væri, V.-Ísafjarðarsýslu, þannig að Ísafjarðarsýslur verði sameinaðar í eitt sýslufélag, þá tel ég eðlilegt, að úr því verði. En til þess þarf auðvitað samþykki beggja sýslunefndanna, sem nú eru.

Það er staðreynd, eins og hreppsnefndin í Hólshreppi segir, að landfræðilega séð eru lítil eða engin samskipti, sem eiga sér stað við önnur sveitarfélög í N.-Ísafjarðarsýslu eða í Inndjúpinu, og þess vegna hefur það oft áður komið til umr. að óska kaupstaðarréttinda fyrir Bolungarvík. Fyrsta fundarsamþykkt þar um var gerð 4. mars 1915, svo að það má því segja, að þetta mál hafi verið lengi á döfinni. Ég vænti þess því, og við flm. þessa frv., að hv. þd. taki því vel og sú n., sem fær það til athugunar, skili sem fyrst nál. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni umr. verði þessu frv. vísað til félmn.