06.12.1973
Neðri deild: 37. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

129. mál, kaupstaðarréttindi til handa Bolungarvíkurkauptúni

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þegar hér var til umr. frv. um kaupstaðarréttindi fyrir Seltjarnarneshrepp, sagði ég hér nokkur orð og skoraði á þá n., sem fengi þessi mál, og raunar þm. í heild að skoða þessi mál öll í heild.

Eins og hv. 1. flm. þess frv. sagði, skapast ýmis vandamál í sambandi við það, að þessir staðir fá kaupstaðarréttindi, og ég sé ekki betur, ef þeir 3 staðir, sem hafa nú sótt um kaupstaðarréttindi og frv. liggja fyrir um hér í þinginu, fá kaupstaðarréttindi, en að þá geti það kallað á, að ýmsir aðrir staðir, sem hafa svipaðan fólksfjölda og sumir langtum meiri, sæki einnig um kaupstaðarréttindi, og það væru svipuð rök fyrir því.

En þá er annað, sem er vandamál, sem við skulum ekki horfa alveg fram hjá í þessu sambandi, og það er í sambandi við sýsluvegasjóðina. Eins og hv. þm. vita, borga þessir staðir með sveitahreppunum í sýsluvegasjóð, og er einkennilegt fyrirkomulag eins og er, að t. d. Sauðárkrókur borgar ekki í sýsluvegasjóð, en Egilsstaðir gera það, Dalvík borgar í sýsluvegasjóð, en Ólafsfjörður gerir það ekki, af því að hann er kaupstaður, Selfoss gerir það ekki, en aftur á móti ýmsir aðrir staðir, þó að þeir séu með færra fólk. Ég sé ekki betur en það gæti kallað á, ef að við gengjum svona frá þessu, þetta væri allt samþ., bæði um Seltjarnarnes, Dalvík, Bolungarvík, að Grindvíkingar, sem eru 1245, gætu með alveg sama rétti óskað eftir þessu, Njarðvíkingar, sem eru 1546, Garðahreppur með á 4. þús. íbúa, Borgarnes með 1210 íbúa, Stykkishólmur með rúml. 1000 íbúa, Patreksfjörður með 975, Sandgerði með 940, Eskifjörður með um 930 og Höfn í Hornafirði með um 960–970 íbúa, fyrir utan Selfoss, sem er með um 2500 íbúa. Ef þessir staðir fengju allir kaupstaðarréttindi, þá mundi það þýða það að óbreyttum l., að sýsluvegasjóðir mundu tapa um 9 millj. Og ástandið í þeim málum er nú þannig, að það þyrfti að hyggja að því, hvernig á að afla sýsluvegasjóðinum aukinna tekna, en ekki hið gagnstæða.

Annars finn ég ekkert samhengi í þessu í sjálfu sér, hvernig stendur á því t. d., að Seltjarnarnes hefur borgað þetta, og Garðahreppur, en Kópavogur ekki o. s. frv. Ég held, að það eigi ekki að binda þetta við það, hvort þessir staðir hafi kaupstaðarréttindi eða ekki. Ég sé ekki nein rök fyrir því. Ég vil nú nota tækifærið, af því að þetta er enn á dagskrá og ég sé, að þingheimur hefur ekki í raun og veru myndað sér ákveðnar skoðanir, hvernig á að taka á þessum málum yfirleitt, þá vil ég skora á menn að skoða þetta og skapa hér heildarstefnu. Ef þessir 3 staðir fá t. d. kaupstaðarréttindi, þá hlýtur hver hinna staðanna, sem ég taldi hér upp áðan, að fá þau líka, ef þeir sækja um það á annað borð.