06.12.1973
Neðri deild: 37. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

129. mál, kaupstaðarréttindi til handa Bolungarvíkurkauptúni

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hér hafa verið lögð fram 3 frv. til l. um kaupstaðarréttindi fyrir vissa staði, og það tíðkast nokkuð, að ýmsir staðir leiti eftir að fá kaupstaðarréttindi. Þetta er kannske eðlilegt, þegar staðirnir eru komnir í vissa stærð. Það má vel vera, að hér sé sérstaklega um nokkurs konar sjálfstæðismál að ræða hjá þeim stöðum, sem sækja um réttindin. Það gæti líka verið til þess að létta af sér gjöldunum, sem á þeim hvíla nú, að óbreyttum lögum. Eins og hér hefur verið talað um, greiða þéttbýlisstaðirnir til sýsluvegasjóða, á meðan þeir hafa ekki kaupstaðarréttindi. Sýsluvegasjóðirnir gætu orðið mjög aðþrengdir, ef þeir misstu þessa tekjustofna.

Á undanförnum árum hafa margir sýsluvegir verið teknir í landsbrautatölu. Enn er það svo í flestum eða öllum sýslum, að eðlilegt væri að taka ýmsa vegi, sem eru taldir sýsluvegir, í tölu landsbrauta. Mér finnst það þurfi að gera hvort tveggja: að halda þeirri stefnu áfram, sem ríkt hefur, að létta á sýsluvegasjóðunum að því leyti, og einnig að tryggja, að þeir staðir, sem fá kaupstaðarréttindi, haldi áfram að greiða í sýsluvegasjóðina, til þess að sýsluvegirnir svelti ekki. Ég held, að það gæti einnig orðið til þess að takmarka áhuga ýmissa staða fyrir því að fá kaupstaðarréttindi, ef fyrir lagi, að þeir léttu ekki af sér gjöldum til sýslnanna með því að fá kaupstaðarréttindi. Ég tel því alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að þetta beri að athuga rækilega, annað hvort um leið og kaupstaðarréttindi eru veitt, eða að ákveðið verði, að það skuli gert í framhaldi af því.