29.08.1974
Sameinað þing: 5. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Íslendingar eru þjóð samsteypustjórna og hafa kynnst mörgu á því sviði. m.a. hafa þeir reynt ríkisstjórnir Sjálfstfl. og Framsfl. — og sú reynsla er ekki góð.

Báðir eru þessir flokkar stórir, og innan þeirra kennir margra grasa. Reynslan hefur sýnt, að samstjórn þeirra kallar fram hjá báðum öfl íhaldssemi og sérhagsmuna, og þessi öfl hafa verið ráðandi, en frjálslyndari menn innan flokkanna hafa horfið í skuggann. Innan þessara tveggja flokka er mestallt afturhald, mestallt auðmagn og mestallir peningahagsmunir þessa lands. Þegar þessi öfl ná saman og taka völdin í landinu, mega launþegar og neytendur, hinir óbreyttu og séraðstöðulausu Íslendingar, vissulega halda vöku sinni. Þetta verður án efa stjórn forstjóranna, en ekki fólksins.

Af þessari meginástæðu er Alþfl, andvígur ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar og mun berjast gegn henni og veita henni allt það aðhald fyrir hönd launþega og neytenda, sem flokkurinn getur. Alþfl. mun þó jafnan taka málefnalega afstöðu og eins og ávallt áður leitast við að reka ábyrga stjórnarandstöðu.

Hæstv. forsrh. hefur nú lesið þingheimi stefnuskrá hinnar nýju ríkisstj. Megineinkenni hennar er það, að hún segir sáralítið og er varla hægt að kalla hana stefnumarkandi, nema helst í utanríkismálum. Það væri sönnu nær að kalla plaggið rannsóknaskrá en stefnuskrá, því að það er að mestu leyti listi yfir alla þá málaflokka, sem ríkisstj. ætlar að „skoða“ eða „athuga“ eða „taka til gagngerðrar endurskoðunar“. Um hitt er minna sagt, hvert á að stefna eða hvaða leiðir eigi að fara í hinum ýmsu málaflokkum. Hið eina, sem almenningur getur nokkurn veginn treyst, er, að það verða lituð gleraugu á nefi stjórnarinnar, þegar hún byrjar alla þessa endurskoðun.

Efnahagsmálin hvíla eins og mara á atvinnuvegum og stjórnvöldum, enda þótt margir neiti að horfast í augu við staðreyndir og skiptar skoðanir séu um, hve mikill vandinn er. Ríkisstj. segist ætla að beita sér fyrir tímabundnum ráðstöfunum „til að koma í veg fyrir rekstrarstöðvun atvinnuvega, tryggja atvinnuöryggi, bæta gjaldeyrisstöðu, treysta hag fjárfestingarsjóða og ríkissjóðs, sporna við hinni öru verðbólguþróun og tryggja sem best lífskjör almennings.“

Með þessum orðum eru talin upp markmið í efnahagsmálum, sem allir hljóta að vera sammála. En hvernig ætlar ríkisstj. að ná þessum markmiðum? Það eru auðvitað kjarni málsins, en um það er ekkert sagt. Engin úrræði eru nefnd.

Tveir gamalreyndir stjórnmálaflokkar semja ekki á þennan hátt, þegar þeir þurfa að leysa alvarlegustu vandamál þjóðarinnar. Þeir semja auðvitað um það, sem máli skiptir, úrræðin sjálf. Þess vegna er óhætt að fullyrða, að það hafi verið gerður leynisamningur milli Sjálfstfl. og Framsfl. um öll einstök atriði þeirra ráðstafana í efnahagsmálum, sem þeir ætla að gera, um lækkun krónunnar, um hækkun söluskatts, um bindingu kaupgjalds og allt það, sem gera þarf til þess að leggja nokkurra milljarða álögur á þjóðina bótalaust og flytja til fyrirtækja og ríkisins. Þetta leyniplagg fáum við ekki að sjá og ekkert um að vita, fyrr en reikningarnir koma, og þeir verða bæði margir og háir.

Yfirlýsing ríkisstj. um landhelgismál er að einu leyti athyglisverð. Sjálfstfl. gerði það að stórmáli í síðustu kosningum, að fiskveiðilandhelgin skyldi færð í 200 mílur á þessu ári, 1974. Ef nokkuð er kosningaloforð, þá var þetta slíkt loforð af þeirra hálfu. Nú er þegjandi og hljóðalaust búið að breyta 1974 í 1976. Þetta segir ef til vill sína sögu. En Alþfl. lætur í ljós von um, þrátt fyrir allt, að þjóðareining haldist í þessu mikla máli, og flokkurinn mun af heilum hug vinna með ríkisstj. og öðrum aðilum að því.

Kafli stefnuskrárinnar um utanríkis- og varnarmál er að því leyti sérstæður, að þar er mörkuð skýr stefna, sem er í samræmi við vilja meiri hluta kjósenda í síðustu kosningum. Alþfl. er þessari stefnu í meginatriðum sammála, eins og fram kom í viðhorfum hans í kosningunum. Hæstv. forsrh. hefur skýrt svo frá í blaðaviðtali, að stjórnarflokkarnir séu ekki sammála um þessi mál. Það væri fróðlegt, þótt síðar yrði, að fá að vita, hver ágreiningurinn er. Einnig sagði ráðherrann, að ekkert yrði gert í varnarmálunum, sem báðir flokkarnir hefðu ekki samþykkt, svo að Sjálfstfl. virðist ætla að hafa náið eftirlit með stjórn framsóknarmanna á utanríkismálum, rétt eins og Alþb. gerði í síðustu ríkisstj., og þótti sjálfstæðismönnum það ekki vera stjórnarhættir til fyrirmyndar. Það verður fróðlegt að sjá, hver framkvæmdin verður í þessu máli.

Herra forseti. Ríkisstjórn einnar þjóðar á að vinna meira en björgunarstarf. Hún má ekki drukkna í efnahagsmálum líðandi stundar, heldur ber henni að veita þjóðinni viðtækari forustu, sameina hana og gefa þjóðlífinu stefnu og tilgang.

Ríkisstjórn einnar þjóðar ber að sýna mannúð með því að hugsa vel um alla þá, sem standa höllum fæti í lífsbaráttunni: aldraða, öryrkja, sjúka, vangefna og aðra. Einmanaleiki þess, sem er gamall eða sjúkur, er meira vandamál en bókhald framkvæmdastjórans, sem er alltaf að tapa, en þó alltaf að verða ríkari.

Í stefnuskrá hinnar nýju ríkisstj. er hvergi minnst á jafnrétti„ hvergi á menningu eða menntamál, hvergi á sjúka eða aldraða, öryrkja eða vangefna, hvergi einu orði á heilbrigðismál, varla hægt að segja, að minnst sé á tryggingamál. Allt þetta og fjöldamargt fleira vantar með öllu í stefnuskrána. Það hefur gleymst í valdatafli síðustu tveggja vikna.

Hins vegar gleymdist ekki að nefna í stefnuskránni hugsjón eins og stofnun verðbréfamarkaðar, en slíkar stofnanir eru í öllum löndum vettvangur hins æðsta peningabrasks. Það gleymdist heldur ekki, að stjórnarflokkana hefur lengi dreymt um að leggja verðlagseftirlit niður, enda þótt það sé orðað á ísmeygilegan hátt í yfirlýsingunni.

Bæði það, sem gleymdist, og hitt, sem ekki gleymdist, er skýr vitnisburður um þau íhalds- og sérhagsmunaöfl, sem nú hafa yfirhöndina og virðast ráða mestu um hina nýju ríkisstj.

Fróðlegt er til samanburðar að rifja það upp, er Sjálfstfl. og Alþfl. mynduðu ríkisstjórn. Þá voru eins og nú gerðar viðtækar efnahagsráðstafanir. En þá voru líka gerðar mestu umbætur á almannatryggingum, sem hér hafa orðið, og mörg fleiri félagsleg atriði voru veigamiklir þættir stjórnarsáttmálans í þá tíð. Þeim málum var ekki gleymt, þegar Alþfl. átti í hlut.

Launþegar og neytendur hafa fyllstu ástæðu til að vera tortryggnir í garð hinnar nýju ríkisstjórnar. Allir þeir, sem vilja stöðuga breytingu íslensks þjóðfélags í átt til aukins jafnréttis, sjá fram á kyrrstöðu, ef ekki afturför. Þess vegna eru jafnaðarmenn andvígir þessari ríkisstjórn og munu veita henni alla þá andstöðu og allt það aðhald, sem þeir geta.