30.08.1974
Efri deild: 7. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

3. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er nú nokkuð um liðið síðan frestað var skyndilega umr. um það mál, sem nú er á dagskrá. Ég hafði þá kvatt mér hljóðs í tilefni af því, sem fram hafði komið í þeim umr.

Þetta mál er ekki stórmál í því formi, sem það liggur hér fyrir. Nánast er um að ræða leiðréttingu á lögum, sem síðasta Alþ. afgreiddi, leiðréttingu á tveim atriðum, þar sem mistök urðu. Annars vegar er leiðrétting vegna þess, að gert var ráð fyrir, að happdrættisskuldabréf yrðu gefin út, áður en lögin hlutu fullt gildi, og hins vegar leiðrétting á ákvæðum um upphæð vinninga í þessu happdrættisláni ríkissjóðs.

Ég átti ekki von á því, að það kæmu fram aths. við svo sjálfsagt mál sem þessar leiðréttingar virðast vera. En tveir hv. þm., hv. 2. þm. Norðurl. e. og hv. 12. þm. Reykv., tóku þátt í þessum umr, og það, sem þeir sögðu, gaf mér tilefni til þess að biðja um orðið, þegar mál þetta var síðast á dagskrá.

Ég vil byrja á að fagna því sérstaklega, að þessir tveir hv. þm. hafa nú verið kjörnir í fyrsta sinn á Alþ. Það er áreiðanlega öllum mikið fagnaðarefni, sem þá þekkja, og ekki síst er mér það mikið fagnaðarefni. Annar þessara manna, hv. 12. þm. Reykv., hélt sína jómfrúrræðu, og ég vil leyfa mér, vegna þess að það er alltaf nokkur atburður, að óska honum til hamingju með jómfrúrræðu hans. En ég sagði, að mér hefði fundist nokkurt tilefni til þess að gera aths. við ræður beggja þessara hv. þm.

Hv. 2. þm. Norðurl. e, gerir fyrirvara í þessu máli á þeim grundvelli, að hann sé ekki samþykkur því, að ríkisskuldabréfin í happdrættinu til að fullgera Djúpveginn séu verðtryggð. Það er augljóst, hvers vegna þessi bréf eru verðtryggð. Það er til þess að tryggja, að það fjármagn sem fram er lagt í þessu skyni, rýrni ekki og sé borgað því verði, sem það raunverulega stendur í. Ég held, að við hv. 2. þm. Norðurl. e. hljótum að vera sammála um, að það er ákaflega mikið atriði, að fyrir fjármagnið fáist það verð, sem það raunverulega stendur í. Það er hægt að gera þetta á mismunandi vegu. Það er hægt að gera það í formi vaxta eða verðtryggingar. En við vitum, að um langt skeið hefur ekki verið hægt að gera það að fullu í formi vaxta. Ég leyfi mér að halda fram, að það sé algerlega óraunhæft í þessu máli að ætla að tryggja fjárframlagið á annan hátt en með verðtryggingu. Ég er ekki að gerast neinn sérstakur formælandi þess, að það eigi að setja almenna verðtryggingu eða fara þá leið. En það er engin goðgá, eins og ástandið er, að fara þá leið í vissum tilfellum, og svo hefur reynst á undanförnum árum, að það hefur verið eina leiðin, sem hefur verið fær til þess að tryggja fjármagnið. Meðan við tryggjum vinnuaflið með verðtryggingu, held ég að það hljóti að geta komið til greina að tryggja fjármagníð einnig. Ég minni á í þessu sambandi, að ríkisstj., sem nú er nýtekin við völdum, hefur það í stefnuyfirlýsingu sinni að athuga m.a. verðtrygginga til þess að tryggja fjármagnið.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, en ég legg áherslu á, að það er óraunhæft að hleypa þessu ríkishappdrætti af stokkunum, nema þessi verðtrygging sé.

Hv. 12. þm. Reykv. er andvígur frv., sem hér liggur fyrir, á þeirri forsendu, að hann er á móti slíkri fjáröflunarleið sem hér er gert ráð fyrir. Ég verð að segja það, að mér kemur nokkuð á óvart, að þessi hv. þm. skuli taka svo til orða og eins að hann lagði áherslu á, að þessi fjáröflun ætti að fara fram gegnum ríkiskerfið eða bankana, þ.e.a.s. ekki fara út úr kerfinu. Mér virðist, að hér sé um nokkurt grundvallarmál að ræða. Ég hef skilið grundvallarstefnu okkar sjálfstæðismanna á þann veg, að við vildum fá borgarana til þess að leggja af mörkum fjármagn, án þess að það sé eingöngu bundið við skattheimtu ríkisins. Ég veit, að það er nokkur ágreiningur um þessi mál. Vinstri flokkarnir og kannske þeir, sem lengst eru til vinstri og við getum kallað kommúnista, eru á móti þessu. Þeir telja jafnvel, að það sé ekki ástæða fyrir borgarana að leggja af mörkum fjármagn til ýmissa nauðsynlegra hluta, eins og t.d. mannúðarstarfsemi eða til eflingar líknarfélögum, vegna þess að það eigi að vera hlutverk ríkisins að gera þetta og ríkið eigi að gera það gegnum skattheimtuna. Ég held, að hvar sem við getum komið við, þá eigum við að ýta undir það, að borgararnir leggi fram fjármagn af frjálsum vilja til þýðingarmikilla mála umfram það, sem þeir gera og verða að gera gegnum skattheimtu hins opinbera, og þess vegna sé eðlilegt að ýta undir alla viðleitni í þá átt. Það getur m.a. þýtt það, að skattheimta geti verið minni en ella.

Nú er það svo í þessu tilfelli, vegna þess að hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir fólkið í þeim byggðum, sem njóta þeirrar framkvæmdar að ljúka lagningu Djúpvegarins, að það er gert ráð fyrir, að þetta fólk og raunar allir Vestfirðingar mundu vilja leggja sig fram um þessa fjármagnsútvegun. Og ég spyr: Hvers vegna ekki að gefa fólkinu sjálfu tækifæri til þess? Mér er ljóst, að það eru takmörk fyrir því, hve langt er hægt að fara í slíkri fjáröflun sem þessari til framkvæmda í vegamálum. En hér er um að ræða mál sérstaks eðlis, sem er hliðstætt framkvæmdinni við opnun hringvegarins um landið. Ég ræddi þetta nokkuð og lagði áherslu á þetta sjónarmið við 1. umr. málsins og skal því ekki fjölyrða frekar um það nú.

Ég vildi láta þessi sjónarmið koma hér fram. Mér fannst, að það væri ekki hægt að gera annað í tilefni af ummælum þessara tveggja hv. þm. Ég þekki þessa þm. persónulega, og allir, sem af þeim hafa kynni, vita, að þeir eru ákaflega heilsteyptir menn og hafa þá reglu í heiðri að halda gefin loforð. Nú hafa þeir ekki gefið nein sérstök, ákveðin loforð í sambandi við Djúpveginn. Það eru fleiri en við sjálfstæðismenn, sem vilja halda gefin loforð. Það fer yfirleitt ekki eftir því, hvar í flokki menn standa. Annað mál er, að það getur farið nokkuð eftir flokkum, þegar mál verða flokksmál, hvað þessi regla er á þeim vettvangi höfð vel í heiðri. Það eru sumir flokkar, við skulum nefna þar t.d. kommúnista, sem við sjálfstæðismenn teljum, að fylgi oft og tíðum þeirri reglu að láta tilganginn helga meðalið. Þeir segja, að tilgangurinn sé svo góður, að þeir þurfi ekki að vera vandir að meðulunum. Það er aðalsmerki okkar sjálfstæðismanna að viðurkenna ekki þetta. Við getum ekki látið tilganginn helga meðalíð. Við teljum, að það sé nauðsynlegt að hafa í heiðri þá reglu, að leiðin að markinu verði alltaf að vera réttlætanleg. Við sjálfstæðismenn eigum því að mínu viti að standa að því, að það loforð, sem Alþingi Íslendinga hefur gefið í þessu máli, standi. Það hefur vakið vonir og trú fólks, sem hefur lengi beðið eftir því, að þessu mikla hagsmunamáli þess væri sinnt, að fullgera Djúpveginn. Ég vil því leyfa mér að vona, að þessir ágætu menn, sem ég veit, að eru mér alveg sammála í hinni almennu lífsskoðun, sem ég hef hér í nokkrum orðum sett fram, verði með okkur í því að greiða fyrir þessu frv., þannig að fólkið, sem hefur treyst á loforð Alþ., geti notið þeirra framkvæmda í þessu máli, sem lög frá síðasta Alþ. gerðu ráð fyrir. Ég veit, að þessum mönnum ætti að vera það þeim mun léttara, þar sem þeir eru sammála mér um, að hér sé um mál að ræða, sem þurfi að framkvæma, opnun Djúpvegarins. Það kom fram í tali þeirra beggja.