30.08.1974
Efri deild: 7. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

3. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að byrja á því að þakka hv. 3. þm. Vestf. fyrir hans góðu hamingjuóskir varðandi mína fyrstu ræðu, sem hann kallaði jómfrúrræðu. Mér er samt ekki vel við, að hún sé kölluð það, eins stutt og ómerkileg og hún var. Það var einungis af þörf fyrir að taka þátt í umr. um það mál, sem til umr. er, að ég stóð þá upp. En ég vil líka létta af honum áhyggjum í sambandi við umrædda vegalagningu á Vestfjörðum. Ég mun samþykkja málið eins og það liggur fyrir. Það er ekki það, sem ég vildi gagnrýna, heldur er það fjáröflunarleiðin, sem ég álit ranga, ekki bara í þessu tilfelli, heldur yfirleitt, hvort sem hún er notuð til vegalagningar eða á annan hátt.

Ég álít, að ríkisvaldið eigi ekki að keppa um veltufé þjóðarinnar, sem er sparifé landsmanna, taka það og nota til fjárfestingar. Ástandið á fjármálamarkaði landsmanna er geigvænlegt, og það fer ekki fram hjá neinum, að það er í síauknum mæli, sem bæði einstaklingar og fyrirtæki líða skort, eru beinlínis svelt af veltufé eða framkvæmdafé, vegna þess að ríkið notar miskunnarlaust þá einokunaraðstöðu, sem það hefur. Það ákveður vaxtafótinn fyrir bankakerfið og leyfir sér síðan að bæta við verðtryggingu og vexti í happdrættisvinningum, þegar það er að draga að sér þetta rekstrarfé þjóðarinnar, sem hlýtur að verða það fé, sem bankarnir hafa til umráða, m.ö.o. sparifé fólksins. Þetta er óeðlileg samkeppni af ríkisins hálfu við ríkisbanka og einstaklinga.

Vegna þess að hv. 3. þm. Vestf. minntist á grundvallarstefnu sjálfstæðismanna, vil ég túlka hana öðruvísi en hann gerði Í mínum augum er grundvallarstefna sjálfstæðismanna athafnafrelsi einstaklingsins í frjálsri samkeppni bæði á peningamarkaði landsmanna, sem hér er til umr., og á öðrum sviðum, gegn einokunaraðstöðu í hvaða mynd sem er. Ég vil undirstrika það alveg sér í lagi, þegar ríkið sjálft gengur á undan með slíku fordæmi. Framkvæmdaprógramm ríkisins á að takmarkast hverju sinni, eins og ég gat um í síðustu ræðu minni um þetta mál, við það magn framkvæmdafjár, sem til umráða er hverju sinni, eða með lántöku erlendis til langs tíma og þar með dreifa nauðsynlegum framkvæmdum á fleiri kynslóðir en gert er, þegar tekið er fé úr ríkissjóði og síðan bætt við sparifé landsmanna og notað til fjárfestingar.

Ég vil ítreka það og taka undir þau orð hv. 3. þm. Vestf., að að sjálfsögðu, þó að við komum nýir inn í þingflokkinn, sem ég vona eftir hans eigin ummælum að sé til bóta fyrir þingflokkinn, þá mun ég a.m.k. standa við þau loforð, sem þingflokkurinn hefur áður gefið. En orð mín í þessu máli eru eingöngu til varnaðar. Ég vil ítreka, að við megum ekki fjárfesta fram yfir getu hverju sinni. Við verðum að varast að gera of kostnaðarsamar áætlanir, gera of mikið á skömmum tíma fyrir of lítið eigið fé. Trú mín er, að það sé kominn tími til, að sett séu einhvers konar takmörk, svokallað þak, á útgjöld og framkvæmdaprógramm ríkisins hverju sinni.