30.08.1974
Neðri deild: 9. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

9. mál, ráðstafanir vegna gengis íslenskrar krónu

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. sendir nú þjóðinni kaldar kveðjur, hverja köldu kveðjuna á fætur annarri. Nú í dag hefur Seðlabankinn, að sjálfsögðu með samþykki eða að fyrirmælum ríkisstj., lækkað gengi íslenskrar krónu um 17%, þ.e.a.s. hækkað útsöluverð erlends gjaldeyris um því sem næst 20%. Þetta ásamt þeirri verðbólgu, sem hér er, er gleggsta sönnunin fyrir því öngþveiti, sem ríkir í íslenskum efnahagsmálum og ríkt hefur eftir óstjórn undanfarinna ára.

Sú breyting á krónunni, sem verður í dag, er ekki fyrsta breytingin, sem orðið hefur síðan ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar tók við völdum. Meðalhækkun erlendra gjaldmiðla gagnvart íslenskri krónu nam 25.9% eða tæpum 26% frá 1. júlí 1971 og þar til gengisskráningu var hætt 21. ágúst 1974, og er þá breytingin vegin með hlutdeild landa í inn- og útflutningi. M.ö.o.: frá valdatöku þeirrar ríkisstj., sem kallað hefur sig „vinstri stjórn“, og til þessa dags, hefur erlendur gjaldeyrir hækkað að meðaltali um 52%, sem mun svara til 34% lækkunar á krónunni. Mér er ekki kunnugt um, hverjar gengisbreytingar hafa orðið í nálægum löndum. Þó þykir mér ekki ósennilegt, að hér sé um Vestur-Evrópumet í gengislækkun á þessu tímabili að ræða. Hitt liggur þegar ljóst fyrir af opinberum skýrslum, að Ísland á Evrópumet í verðbólguvexti. Ef það kynni líka að reynast rétt, að Ísland frá deginum í dag eigi einnig met í gengislækkun á gjaldmiðli sínum, a.m.k. Vestur-Evrópumet, þá er hér um að ræða þungan dóm um þá stefnu, sem fylgt hefur verið.

Því miður er ekki við því að búast, að hæstv. núv. ríkisstj. muni takast að leysa þann mikla vanda, sem við er að etja, með sanngirni og réttsýni. a.m.k. ekki að því er hag launþega varðar. Það sést þegar af því, sem hún er búin að gera. Ríkisstj. er farin að senda þjóðinni og þá fyrst og fremst launþegum bréf um efnahagsöngþveitið, þar sem því er lýst og hvernig hún vill á því taka. Hún byrjaði raunar á slíkum bréfasendingum, áður en hún tók við, þegar flokkar núv. ríkisstj. samþykktu í fyrrv. ríkisstj., að útsöluverð á landbúnaðarvörum skyldi hækkað um því sem næst 20%, án þess að launþegar fengju hækkunina bætta í hækkuðu kaupgjaldi að neinu leyti. Þetta er annað bréfið, sem hæstv. ríkisstj. sendir þjóðinni, þ.e.a.s. bréf um 17% lækkun á krónunni, 20% hækkun á erlendum gjaldeyri, sem gerir heildarhækkunina frá valdatöku „vinstri stjórnarinnar“ að 46% hækkun. Í dag er einnig lagt fram þriðja bréfið frá ríkisstj. til íslensku þjóðarinnar, bréf um 2% hækkun á söluskatti, sem ekki á heldur að bæta launþegum að neinu leyti í hækkuðu kaupi, a.m.k. ekki eftir þeim upplýsingum, sem enn eru fram komnar. Það liggur einnig fyrir skjal hér á Alþ. um fjórða bréfið, sem þjóðinni er sent, þ.e.a.s. hækkun á bensínskatti, hækkun bensínverðs um hvorki meira né minna en 8 kr., úr 36 kr. upp í 44 kr. Og fimmta bréfið er líka komið. Það er um verulega hækkun á rafmagni.

Þetta eru þau fimm bréf, sem ríkisstj. er búin að senda þjóðinni og í felst sumpart lýsing á óskaplegu öngþveiti og sumpart boðskapur um það, hverjir bera skuli byrðarnar, sem nú þarf að bera vegna óstjórnar undanfarinna ára.

Bréf má sannarlega skrifa á margan hátt. Þau má skrifa vel og illa. Þau má skrifa af góðvild, og þau má skrifa af illvilja. Og bréf má senda ýmsum aðilum. Þau bréf, sem ríkisstj. hefur hingað til samið, eru öll send „íslenskum launþegum.“ Þau eru öll tilkynningar um auknar byrðar á íslenska launþega. Þau eru öll boðskapur um rýrnandi kjör íslenskra launþega. Mér er að vísu ljóst, að ríkisstj. á eftir að senda fleiri bréf, og ég vona, að einhver bréf komi, sem færi íslenskum launþegum, a.m.k. hinum lægst launuðu, einhvern gleðiboðskap. Af þessum sökum skal ég á þessu stigi engan endanlegan dóm kveða upp um þessar bréfasendingar ríkisstj. til þjóðarinnar, því að ég veit, að öll bréfin eru ekki farin enn og þá ekki heldur meðtekin af íslenskum launþegum. Ég vil láta það bíða að kveða upp þann dóm, þangað til heildarbréfasendingunum er lokið, þangað til heildarstefnan liggur fyrir.

Að því er varðar þetta frv. er það að segja, að það er fyrst og fremst tæknilegs eðlis, hliðstætt frv., sem áður hafa verið flutt og afgreidd. þegar gengisbreyting hefur átt sér stað. Þingflokkur Alþfl. telur sjálfsagt, að frv. af þessari tegund, sem er fyrst og fremst afleiðing af ráðstöfun, sem búið er að gera, hljóti skjóta þinglega meðferð. Við munum því stuðla að því, að frv. verði vísað til n., stuðla að því, að frv. verði skjótlega afgreitt í n., þannig að afgreiðslu þess geti orðið lokið í dag.