30.08.1974
Neðri deild: 9. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

9. mál, ráðstafanir vegna gengis íslenskrar krónu

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Nú um nokkurt skeið hafa fulltrúar Sjálfstfl. haldið uppí mjög mögnuðum áróðri um ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þeir hafa haldið því fram, að ástandið væri svo alvarlegt, að það jafngilti þjóðargjaldþroti, eins og þeir hafa orðað það nú síðustu daga. Þeir hafa talað um hrikalegan vanda, að ríkissjóð skorti a.m.k. 2000 millj. kr., til þess að ekki væri þar um hallarekstur að ræða, og síðan hafa þeir fullyrt, að allur atvinnurekstur í landinu væri rekinn með stórkostlegum halla, og eru nefndar ýmsar tölur í því sambandi.

Nú hefur ný ríkisstj. tekið við völdum undir forustu Sjálfstfl., og nú kemur að úrræðum hans til að leysa þennan líka mikla vanda, sem sjálfstæðismenn hafa verið að lýsa. Við höfum séð hér nokkrar af fyrstu till. stjórnarinnar, en það eru aðeins fyrstu till., því að enn þá hefur hún ekki fengist til þess að gera grein fyrir því, hverjar heildartill. hennar muni verða í efnahagsmálum. Eins og hér hefur verið minnst á, hafa þegar komið fram þær till., sem stjórnin stendur að, að ákveða sérstaka hækkun á útsöluverði landbúnaðarvara, sem nemur á aðalneysluvörunum 15–20%, án þess að launabætur komi þar nokkrar á móti. Og nú kemur fram tilkynning um 17% gengislækkun, sem þýðir, að verð á erlendum gjaldeyri hækkar almennt um 20.5%. Það mun jafngilda því, að allar innfluttar vörur til landsins hækki í verði um 18–19% og að meðaltalsverðhækkun í landinu, þ.e.a.s. verðhækkun, sem kæmi t.d. út við vísitöluútreikning, muni nema í kringum 6%, aðeins sem afleiðing af gengisbreytingunni. Til viðbótar við þetta er fram komið frv. um að hækka söluskattinn enn um 2%, og það er nokkuð vel byrjað, sýnist manni, sérstaklega í þá átt að draga úr hinni óþolandi dýrtíð.

Það vantaði ekki stóru orðin hjá þeim, sem fyrr voru í stjórnarandstöðu, um metíð í dýrtíð. En nú fer maður að sjá, hvað þeir eiga við, þegar þeir tala um dýrtíð. Það er ekki hátt verðlag, það er ekki hækkandi verðlag. Nei, það er ef kaupið fylgir eitthvað á eftir verðlaginu, það er dýrtíð í þeirra augum. Þeir virðast vera tilbúnir í hvaða verðlagshækkun sem er, sérstaklega ef væri hægt að koma því þannig fyrir, að hún væri ekki mæld, þá er hún góð.

Auðvitað hefði hæstv. ríkisstj. átt að gera Alþ. og þjóðinni allri grein fyrir heildartill. sínum í efnahagsmálum. Það er auðvitað ekki bjóðandi að reyta fram eina og eina till., án þess að menn viti um leið, hvað annað á að fylgja með. Einhverjar almennar yfirlýsingar um, að það muni verða reynt að halda þannig á málum, að hinir tekjulægstu a.m.k. sleppi best, slíkar yfirlýsingar segja ekkert, þær þýða ekkert, fyrr en formað er eitthvað nánar, hvað í þessu felst. Það vita allir, að nýlega hafa brbl. varðandi ráðstafanir í efnahagsmálum, sem í gildi voru í sumar, verið framlengd um einn mánuð og að þeirri framlengingu er um að ræða mjög verulega breytingu varðandi launakjör og kaupmátt launa. Það þarf vitanlega að upplýsa, hvernig með þetta skuli farið, þegar þau brbl., sem voru framlengd í einn mánuð, ganga úr gildi í lok sept. Upplýsingar um þetta þurfa auðvitað að koma fram. En vegna þess að hér er nú tekin til umr. þessi tiltölulega veigamikla till. ríkisstj. um 17% gengislækkun, þá er fullt tilefni til að ræða nokkuð um ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar, eins og það liggur fyrir í dag, og hvað er hið sanna um ástandið í einstökum greinum.

Það liggja fyrir ýmsar upplýsingar varðandi ástandið í efnahagsmálum. Í fyrsta lagi liggja fyrir allviðtækir reikningar um t.d. afkomu atvinnurekstrarins í landinu og fleiri aðila á s.l. ári. Einnig liggja fyrir talsverðar reikningslegar upplýsingar um afkomuna á fyrri hluta þessa árs. Og svo liggja fyrir allmiklar skýrslur frá sérfræðingum bæði þessarar ríkisstj. og fyrrv. ríkisstj. um það, hvernig þeir taka út einstaka þætti þjóðarbúsins. Það væri býsna fróðlegt að víkja nokkuð að þessum upplýsingum.

Viðamestu upplýsingarnar, sem hér liggja fyrir frá sérfræðingum, eru þær upplýsingar, sem núv. hæstv. forsrh. fékk sérfræðinga til að taka saman, þegar hann fékkst við stjórnarmyndun skömmu eftir alþingiskosningar. Þessar upplýsingar liggja hér fyrir í heilmiklum doðrant, sem allir þm. eða flestir hafa væntanlega fengið að sjá og vonandi kynnt sér. Það hefur talsvert verið sagt frá einstökum þáttum í þeim upplýsingum, sem koma fram í þessu riti, en minna sagt frá öðrum þýðingarmiklum atriðum úr þessum upplýsingum. Við skulum drepa hér á nokkur veigamikil atriði.

Það er þá fyrst að koma að afkomu ríkissjóðs. Hvað sögðu sérfræðingarnir um afkomuhorfur ríkissjóðs í þessum upplýsingum, sem lagðar voru fyrir núv. hæstv. forsrh., Geir Hallgrímsson, þegar hann fyrir nokkrum víkum fékkst við að reyna að mynda ríkisstj.? Hvað sögðu þeir þá í þessari skýrslu, sem liggur fyrir? Þar segja þeir, að nýtt mat þurfi á stöðu ríkissjóðs á þessu ári. Telja megi víst, að tekjur ríkissjóðs muni fara 5300 millj. kr. fram úr áætlun fjárlaga á þessu ári. En þeir segja einnig, að það sé líklegt, að útgjöldin muni fara einnig 5300 millj. kr. fram úr áætlun. Niðurstaða þeirra er sú, að tekjur og gjöld samkv. gildandi fjárl., sem gera ráð fyrir greiðsluafgangi, muni standast. Þetta eru þær sérfræðilegu upplýsingar, sem liggja fyrir og gáfu mönnum tilefni til þess að öskra yfir landslýð á eftir, að ríkissjóður væri að verða gjaldþrota og að ríkissjóð skorti stórkostlegar tekjur og að halli á honum mundi verða a.m.k. 2000 millj. kr. Þetta geta allir hv. alþm. lesíð úr þeim upplýsingum, sem fyrir liggja frá þessum sérfræðingum.

Nú er hins vegar gert ráð fyrir því, að ríkissjóður muni fá nýjar tekjur vegna gengislækkunarinnar, sem nú stendur til að samþykkja, sem nema muni í kringum 2000 millj. kr. nettó, og síðan á að leggja á nýjan söluskatt, sem gefa mun ríkissjóði aðrar 2000 millj. kr. á árstímabili. Þetta er auðvitað gert til þess að draga úr umsvifum hins opinbera, eins og sjálfstæðismenn hafa orðað það, draga úr þessum sífellt vaxandi þætti ríkissjóðs og ríkisins á öllum sviðum, minnka afskipti ríkisins. Það á sem sagt að stórauka tekjur ríkissjóðs frá því, sem áður var, og fram yfir það, sem upplýsingar liggja fyrir um, að ríkissjóður hefði þurft. Beri menn svo þetta saman við ræðurnar, sem forustumenn Sjálfstfl. fluttu hér á Alþ. rétt upp úr síðustu áramótum, þegar þeir héldu því fram, að það næði engri átt að vera að auka við tekjur ríkissjóðs, það ætti þvert á móti að skera niður útgjöld ríkissjóðs upp á eina þrjá milljarða. Þá var það stefnan. En nú dugir mönnum ekki einu sinni að reka ríkissjóð þannig, að það sé að áliti sérfræðinga hallalaus rekstur. Nú á að stórauka tekjur ríkissjóðs, auðvitað til þess að auka umsvifin, það skyldi maður ætla. Svona eru þá upplýsingarnar um stöðu ríkissjóðs.

En við skulum koma að öðrum þáttum. Það hefur verið talað allmikið um það í þessum áróðri Sjálfstfl., að gjaldeyrisvarasjóðurinn væri að ganga til þurrðar og að í þeim efnum blasti í rauninni við neyðarástand. En hvað er nú hið sanna, sem liggur fyrir í opinberum reikningum Seðlabankans og upplýsingum frá honum, — hvað er nú hið sanna um gjaldeyrisstöðuna? Sannleikurinn er sá, að gjaldeyrisstaðan verður að teljast tiltölulega mjög góð. Um s.l. áramót var staðan sú, að gjaldeyrisvarasjóðurinn nam rétt rúmlega 7204 millj. kr. Það er rétt, að nú í lok júlí nam þessi sami gjaldeyrisvarasjóður ekki jafnhárri upphæð, hann hafði lækkað mikið. Hann var kominn niður í rúmlega 2600 millj. kr. En það vita allir, að gjaldeyrisvarasjóðurinn segir ekki alla sögu í þessum efnum. Gjaldeyrisvarasjóðurinn er ekki nema einn hluti af hinni raunverulegu gjaldeyrisstöðu. Til viðbótar við gjaldeyrisvarasjóðinn ber vitanlega að telja þær útfluttar afurðir landsmanna, sem enn eru ekki komnar greiðslur inn fyrir, og þær birgðir af útflutningsvörum, sem liggja fyrir í landinu. Hvernig var staðan í þessum efnum um s.l. áramót? Þá var eins og ég sagði, gjaldeyrisvarasjóðurinn 7218 millj. kr. Þá nam útflutningur, sem hafði farið fram en greiðsla hafði ekki verið komin inn, þá nam hann 2030 millj. kr., og útflutningsbirgðir voru metnar á 2857 millj. Þetta gerir samanlagt rétt rúmlega 12.1 milljarð. Þetta var staðan um s.l. áramót og hafði aldrei verið svona góð, — aldrei. En um síðustu mánaðamót, nýjustu skýrslur, sem liggja fyrir eru í lok júlí, hvernig var staðan þá? Þá var staðan þannig, að gjaldeyrisvarasjóðurinn var 2656 millj. kr. Ógreiddur útflutningur, sem seldur var frá landinu, en ekki var búið að greiða, nam þá 3165 mill.i. kr. Og útflutningsbirgðir, sem lágu í landinu, voru metnar eins og áður á 5587 millj. kr. Þetta þýðir, að samanlögð gjaldeyrisverðmæti voru 11.4 milljarðar kr. rétt rúmlega, gjaldeyriseignin hafði á þessum tíma frá s.l. áramótum og til loka júlímánaðar versnað raunverulega um tæpar 700 millj. kr. og var á þennan mælikvarða séð einhver sú mesta og besta, sem verið hefur. Þetta eru tölur, sem allar eru fengnar beint upp úr bókum Seðlabankans.

Hvað segja nú þeir, sem hafa verið að æpa allan tímann um það, að þjóðin væri að komast í alger vandræði vegna stöðunnar í gjaldeyrismálum? Vegna þess ástands, sem ríkt hefur í efnahagsmálum þjóðarinnar allt þetta ár, þ.e.a.s. óvissunnar, þar sem svo var komið, að það var í rauninni enginn raunverulegur meiri hl. lengur á Alþ. til þess að afgreiða þar á venjulegan hátt nauðsynleg mál, og síðan gengu yfir kosningar og upp kom sú margumtalaða jafnteflisstaða upp úr kosningunum, sem menn þekkja, og allan þennan tíma hafa menn verið að tala um væntanlegar efnahagsráðstafanir og margir hafa, eins og hér hefur verið minnst á, talað um voðaástand hjá þjóðinni í efnahagsmálum og það yrði að grípa til stórfelldra ráðstafana og auðvitað gengislækkunar, þá hefur þetta leitt til þess, að menn hafa gengið á lagið og reynt að kaupa inn vörur erlendis frá í óvenjulega ríkum mæli og þar með hefur verið leitað á okkar gjaldeyrisvarasjóð. Og þeir, sem hafa haft með útflutning að gera, hafa hyllst til þess að bíða með útflutninginn, selja ekki á gamla genginu, bíða eftir nýja genginu í von um, að þeir hefðu hagnað af. Og þeir, sem höfðu flutt út vörur, biðu líka með að skila gjaldeyrinum fyrir þessar vörur inn í bankana. Þetta vissu allir. Af því hlaut það að koma fram undir þessum kringumstæðum, að gjaldeyrisvarasjóðurinn sjálfur gekk niður, en birgðirnar í landinu af útflutningsvörum fóru vaxandi og einnig það magn af útflutningsvörum, sem ekki hafði verið greitt fyrir inn í bankana.

Þetta er sannleikurinn um stöðuna í gjaldeyrismálum. Það væri auðvitað hægt að gefa hér miklu meiri upplýsingar, sem skýra þetta dæmi, t.d. það, að ef menn líta á hinn sérstaka innflutning, sem átt hefur sér stað á 7 fyrstu mánuðum þessa árs, þ.e.a.s. innflutning á skipum og flugvélum, innflutning til Sigölduframkvæmdarinnar og innflutning til Álfélagsins, þá kemur í ljós, að á 7 fyrstu mán. þessa árs var þessi innflutningur 1740 millj. kr. meiri en á sama tíma árið á undan. Innflutningur Álfélagsins eins var rétt tæpum 900 millj. meiri, en útflutningur Álfélagsins var sáralítið meiri. Heildarinnflutningurinn á vörum til landsins á þessum 7 fyrstu mánuðum ársins hefur verið 57% meiri en á sama tíma árið á undan. Þessar staðreyndir, sem liggja fyrir og eru alveg óhrekjanlegar, sýna, að efnahagsafkoman hefur verið sterk, mjög sterk, mjög góð. En vitanlega getur gengið á okkar gjaldeyrisvarasjóð og við getum jafnvel komist þar í viss vandræði, ef ekki fást fram eðlilegar lagasetningar, sem á þarf að halda, miðað við þær aðstæður, sem upp eru komnar í þjóðfélaginu.

Ég hef hér vikið að tveimur mikilvægum þáttum varðandi efnahagsmál þjóðarinnar, þ.e.a.s. stöðu ríkissjóðs samkv. þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, og stöðunni í gjaldeyrismálum. Það má minna hér á annað atriði. Það hefur oft verið tilfært sem mjög þýðingarmikið atriði í þessum efnum, hver væri raunverulegur sparnaður þjóðarinnar peningalega séð í bönkum landsins. Á s.l. ári, árinu 1973, sem var eitt besta ár, sem við höfum nokkurn tíma lifað, Íslendingar, efnahagslega séð, var meiri innstæðuaukning í bönkunum en dæmi eru til um áður. Þá jukust innstæður í bönkum landsins um rúmlega 7.7 milljarða og höfðu aukist næstum tvöfalt á við það, sem var árið á undan. En það sem af er þessu ári, 1974, þegar fór heldur að halla undan fyrir okkur á vissum sviðum, hefur síður en svo tekið fyrir innstæðuaukningu í bönkum landsins. Það er rétt, hún vex ekki eins hratt og árið á undan. Hún vex mun hægar. Það var svo sem ekki nema eðlilegt, á sama tíma og fólkið í landinu ráðstafaði fjármunum sínu m í margföldum mæli við það, sem áður var, t.d. til bílakaupa eða til íbúðaframkvæmda, þá var ósköp eðlilegt, að beinn peningalegur vöxtur yrði ekki eins mikill. En hvað segja tölur, sem liggja fyrir um það, hvernig hefur verið þróun þessara peningamála? Heildarinnstæður í bönkum landsins um síðustu áramót voru 31.6 milljarðar kr. En nú í lok júnímánaðar var innstæðan í bönkum landsins 35.2 milljarðar kr. Aukningin var á þessum tíma 3.5 milljarðar kr. rúmlega. Það fer því víðs fjarri, að ástandið hafi verið þannig, að það beinlínis sogaðist fé út af því, sem menn voru búnir að spara áður. Menn hafa haldið áfram að leggja inn fé, þótt það hafi ekki verið eins mikið og æskilegt hefði verið, miðað við þær miklu tekjur, sem vissulega hafa verið í landinu. En þessar tölur sanna líka, að það er alrangt, sem fulltrúar Sjálfstfl. hafa verið að tala um að undanförnu, að hér væri allt að snúast við í efnahagslegu tilliti.

En við skulum koma hér að enn fleiri þáttum varðandi stöðuna í efnahagsmálum. Ég hef nú minnst hér á þrjá veigamikla þætti, þ.e.a.s. stöðu ríkissjóðs, stöðuna í gjaldeyrismálum og stöðuna beint í peningamálum í bönkum. En þá er rétt að víkja nokkuð að afkomu atvinnuveganna og þeim skýrslum, sem liggja fyrir um afkomu atvinnuveganna. Hvað segja opinberar skýrslur um afkomu atvinnuveganna? Þessar opinberu skýrslur og þeir reikningar, sem liggja fyrir, eru miklu merkilegri en einhverjar ómerkilegar ræður frambjóðenda Sjálfstfl. við viss tækifæri. Slíkar ræður hafa ekkert að segja, þær eru aðeins ómerkilegar. En ég nefni til, hvað hagrannsóknadeild og hagrannsóknastjóri segja um afkomu atvinnuveganna, t.d. á s.l. ári, sem er síðasta heila árið, sem liggur fyrir. Hvað segir hagrannsóknadeild um athugun sína? Orðrétt segir í skýrslu hagrannsóknadeildar um sjávarútveginn á þessa lund, þegar þeir gera upp samkv. fyrirliggjandi reikningum afkomu sjávarútvegsins á s.l. ári, — orðrétt segja þeir í skýrslu sinni:

„Ef rekstraráætlanir hagrannsóknadeildar fyrir helstu greinar sjávarútvegsins árið 1973 eru dregnar saman, fæst sú niðurstaða, að brúttóhagnaður, þ.e.a.s. fyrir skatta og afskriftir, á almanaksárinu verði að líkindum 2300 millj. kr. samanborið við 800 millj. kr. á árinu 1972“. Það er næstum þrefalt meira en var á árinu 1972. Og þeir í hagrannsóknadeildinni bæta enn við í þessari skýrslu sinni og segja orðrétt:

„Á hvaða mælikvarða sem mælt er virðist hagur sjávarútvegsins á árinu 1973 með því besta, sem gerst hefur.“

Það er auðvitað enginn vafi á því, að þær skýrslur, sem liggja opinberlega fyrir og eru á þennan hátt staðfestar af hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins, segja miklu meira um þetta raunverulega en þær ræður, sem ég var að vitna hér til, ræður sjálfstæðismanna. Sannleikurinn er sá, að afkoma sjávarútvegsins á s.l. ári var eindæma góð. Auðvitað var hún, eins og alltaf vill verða, mismunandi í hinum einstöku greinum og mismunandi á milli einstakra fyrirtækja. En það verður ábyggilega langt að bíða þess, að t.d. allir þeir, sem gera út báta á Íslandi, fái jafngóða afkomu og á ekki von á því, að neitt slíkt gerist, að það finnist ekki einhverjir, sem koma til með að kvarta.

Hagrannsóknadeildin gaf líka yfirlýsingu varðandi aðrar atvinnugreinar, og síðan hefur hún bætt þar um, og skal ég víkja að nýjustu skýrslu hennar varðandi t.d. iðnaðinn, en í lok s.l. árs sagði hagrannsóknadeildin um afkomu iðnaðarins í landinu og verslunarinnar á þessa leið:

„Áætlanir hagrannsóknadeildar um rekstur og afkomu iðnaðar og verslunar benda til þess, að afkoma þessara greina á mælikvarða vergs hagnaðar eða brúttóhagnaðar í hlutfalli við veltu hafi verið lakari á árinu 1972 en á árinu 1971, en verið á árinu 1973 að meðaltali svipað og árið áður.“

Í nýrri og endurskoðaðri áætlun, sem ég mun koma síðar að, staðfestir hagrannsóknadeildin, að heildarafkoma iðnaðarins hafi verið betri á árinu 1973 en hún var á árinu 1972. Svo vita allir, og þar draga forustumenn bænda ekkert undan, að afkoma landbúnaðarins er ein sú besta á s.l. ári, sem gerst hefur.

Svo liggja líka fyrir, eins og ég gat um, þó nokkrar staðreyndir um afkomu atvinnuveganna á þessu ári, það sem liðið er af árinu, þ.e.a.s. varðandi uppgjör, sem liggur fyrir um fyrri helming ársins. En það er vitanlega eins og maður þekkir, það er ekki eins fullkomið, því að mjög mörg fyrirtæki hafa ekki full skil á því að gera upp rekstrarafkomu sína á miðju ári, og er því vitanlega ekki hægt að taka hana út með ýkjamikilli nákvæmni, þó að hagrannsóknadeildin hafi reynt að fara ofan í þau mál og kynna sér, eftir því sem þeir hafa þar gögn um.

Það er þá fyrst frá því að segja, að eins og stundum áður var látin fram fara sérstök athugun á afkomu 15 frystihúsa á þessu ári. 10 frystihús innan Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna voru lögð til grundvallar og 5 frystihús innan samtaka Sambands ísl. samvinnufélaga. Slík athugun sem þessi hefur oft verið gerð áður. Þessi athugun, sem ég hef kynnt mér nákvæmlega, kom þannig út, að hún sýndi, að heildarniðurstaðan var mjög nærri því að vera sú í afkomu þessara húsa á fyrstu 6 mánuðum ársins, sem forustumenn þessara samtaka sömdu sjálfir af frjálsum vilja um afkomu sína í ársbyrjun, þegar fiskverð var ákveðið. Allmörg af þessum húsum höfðu allmiklu betri afkomu og höfðu greinilega hagnast á þessum fyrstu 6 mánuðum. En líka voru í þessum hópi nokkur hús, sem höfðu laka afkomu og voru sýnilega rekin með halla. Sé eitt af þessum húsum tekið út úr, sem skar sig alveg úr og verður að teljast alveg ónormalt, þá er meðaltalið heldur betra en gert hafði verið ráð fyrir. En sé það einnig tekið með, má segja, að afkoman á þessum 6 fyrstu mánuðum sé mjög nærri því að vera það, sem þessir aðilar höfðu sjálfir samið um og verður að teljast mjög sæmileg afkoma. En þessi athugun segir auðvitað ekki allt. Ég efast ekkert um það, að rekstrarafkoma hinna einstöku frystihúsa í landinu er misjöfn, hún hefur verið það og mun verða það alllengi. Menn hafa brugðist misjafnlega við þeim vanda, sem upp kom á þessu ári, þegar sá vandi kom upp í rekstri frystihúsa, að ein af framleiðsluvörum húsanna hafði lækkað verulega í verði, en aðrar ekki og sumar hækkað. Þegar fiskblokkin, sem framleidd er fyrir Bandaríkjamarkað, hafði lækkað verulega, á sama tíma sem önnur framleiðsla hafði ýmist hækkað allverulega í verði eða hélt óbreyttu verðlagi, þá vitanlega var gefið mál, að það hafði mikið að segja fyrir afkomu frystihúsa að sveigja reksturinn þannig til, að menn framleiddu eins lítið af fiskblokk fyrir Bandaríkin og þeir mögulega gætu komist af með, að þeir drægju úr þeirri framleiðslu. Sumum tókst þetta mjög vel, en aðrir virtust ekki skynja þetta og héldu áfram að framleiða fiskblokk, eins og ekkert hefði í skorist, hlaða henni upp, og hún seldist ekki, og þeir höfðu auðvitað rekstrarlega erfiðleika út úr því. Sama er vitanlega að segja um það, að þegar það hefur legið fyrir á þessu tímabili, að saltfiskverð hefur farið stórhækkandi, þá hafa auðvitað hyggnir menn dregið nokkuð úr framleiðslu í frystingu og framleitt meira af saltfiski en þeir gerðu áður. þar sem um stórhækkun var að ræða, en aðrir hafa ekki gert þetta. Það er skiljanlegt, að útkoman hjá þessum aðilum verði mismunandi.

Það segir heldur lítið í þessum efnum að klifa eingöngu á því, hvað lakast getur komið út úr svona rekstri, þar sem menn taka ekki tillit til rekstrarlegra staðreynda, sem liggja fyrir. Það er enginn vafi á því, að í öllum meginatriðum hefur rekstrargrundvöllur fiskiskipanna, jafnt skuttogara sem báta, verið svipaður á fyrri hluta þessa árs og gert var ráð fyrir í samningunum í ársbyrjun. Þar er ekki um neinar teljandi sveiflur að ræða, vegna þess að olíuverðinu hefur verið haldið föstu. Þó er rétt, að nokkrir liðir í rekstri hafa hækkað og gert afkomuna eitthvað lakari. En það, sem mestu máli hefur skipt, er, hvernig reksturinn hefur gengið á öðrum sviðum. Við vitum, að á ýmsum stöðum brást vetrarvertíðin. Menn fiskuðu ekki eins mikið og áætlað var. Við vitum líka, að þeim, sem stunduðu Norðursjóinn, gekk miklu lakar í ár en þeim hafði gengið áður. Þetta gerist vitanlega alltaf í íslenskri útgerð, að þar eru sveiflur í afla og aflamagni og út úr því kemur eðlilega, að eitt árið er tiltölulega gott og annað eitthvað lakara. Ég er ekki í neinum vafa um, að það eru þessar sveiflur að þessu sinni, sem einar segja verulega til sín um lakari afkomu hjá fiskiskipunum á fyrri hluta ársins. En það á sem sagt við um sum skipin, en ekki öll.

En hvað er þá að segja um afkomu iðnaðarins, t.d. það sem af er þessu ári? Í alveg nýlegri skýrslu frá hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins segir orðrétt á þessa lund um afkomu iðnaðarins á þessu ári, og reyndar er, eins og ég vék að áður, þarna nokkuð víkið til viðbótar að endurskoðaðri afkomu á s.l. ári, en Framkvæmdastofnunin segir þetta um afkomu iðnaðarins, þá tala þeir um iðnaðinn allan, — orðrétt segir á þessa leið:

„Samkv. bráðabirgðarekstraryfirliti fyrir iðnaðinn alls er áætlað, að afkoma á árinu 1973 sé heldur betri en á árinu 1972. Vergur hagnaður fyrir skatta sem hlutfall af vergum tekjum er áætlaður 6.9% á árinu 1973 samanborið við 5.9% á árinu 1972:“ M.ö.o.: prósentuhagnaðurinn er meiri á árinu 1973, mældur við umsetningu, heldur en hann var á árinu 1972, þegar umsetningin var miklu minni. En hagrannsóknadeildin heldur áfram. Hún segir: „Niðurstöður framreikningsins gefa til kynna, að rekstrarskilyrði iðnaðarins alls til 1. ágúst 1974 séu aðeins lakari en þau voru að meðaltali á árinu 1973. Áætlað er, að vergur hagnaður fyrir skatta sem hlutfall af vergum tekjum geti orðið 6.2% við rekstrarskilyrðin 1. ágúst 1974 samanborið við 6.9% á árinu 1973.“ M.ö.o.: það er verið að segja, að afkoma iðnaðarins í heild á þessu ári muni verða nokkru betri en hún var á árinu 1972 og nokkuð svipuð og hún var á árinu 1973.

Þessar upplýsingar, sem ég hef hér vikið að, sýna, að það er alger skrumskæling á staðreyndum að halda því fram, að afkoma atvinnuveganna hafi verið komin í kaldakol nú, þegar mynda þurfti nýja ríkisstj. Það er algerlega rangt, enda kemur það vitanlega í ljós, þegar menn athuga nánar þær upplýsingar, sem fyrir liggja hjá sérfræðingunum, að þeir leggja á það áherslu, að útreikningar þeirra sýni þetta, en þeir eru hins vegar að draga upp spádóma um, hvað muni geta gerst í rekstri þessara greina á næstu 12 mánuðum hér frá. Menn verða að gera fyllilega greinarmun á því, hvað liggur fyrir um raunverulega afkomu fram til dagsins í dag samkv. reikningum, samkv. beinum staðreyndum, og svo hinu, sem snertir spádóma fram í tímann, hver sé líkleg afkoma á næstu 12 mánuðum. En menn hafa farið misjafnlega með þær upplýsingar líka, hverju er spáð fyrir næstu 12 mánuði, og ég vil nú víkja einnig að því. Í þessum efnum hefur einkum verið talað um afkomu sjávarútvegsins, hver hann muni verða á næstu 12 mánuðum, og auðvitað geta sérfræðingarnir ekki, þótt vísir menn séu, sagt til um afkomuna á næstu 12 mánuðum, nema þeir gefi sér ákveðnar forsendur. Þeir verða að geta sér til um ákveðna hluti.

Þeir verða t.d. að leggja eitthvað tiltekið verð til grundvallar á þeim útflutningsvörum, sem menn koma til með að framleiða á þessu tímabili og þeir verða líka að gefa sér ákveðnar tölur, hver aflinn muni verða. Ég fyrir mitt leyti felst ekki á þær forsendur, sem sérfræðingarnir gefa sér. Ég tel, að þær séu í veigamiklum atriðum rangar eða óeðlilegar. Þannig gefa þeir sér t.d. þá veigamiklu forsendu, að þeir reikna með því, að á næstu 12 mánuðum munum við ekki fá fyrir fiskimjölið okkar og loðnumjölið nema 4.15 dollara á verðeiningu. Við Íslendingar höfum ekki selt til þessa eitt einasta pund á þessu verði, ekki eitt einasta pund, ekki komið það til hugar. Við höfum hins vegar verið að selja þessar vörur allt fram til dagsins í dag í misjöfnu magni fyrir allmiklu hærra verð, og tilboð hafa legið fyrir hjá okkur, ekki á 4.15 dollara, heldur upp í 6.24 dollara á verðeiningu, sem innlendir mjöleigendur hafa ekki viljað sinna, af því að þeir telja, að það séu miklu meiri líkur til þess, að þessi vara eigi eftir að hækka meira. En þessi forsenda er lögð hér til grundvallar varðandi tekjur og afkomu. Ég tel, að hér sé um mjög óeðlilega áætlun að ræða.

Önnur veigamikil forsenda, sem er lögð til grundvallar í þessum spám, er sú, að verðið á fiskblokk í Bandaríkjunum muni verða 60 cent pundið. Við Íslendingar höfum selt sáralítið magn á þessu verði, og þeir, sem aðallega framleiða þorskblokk fyrir Bandaríkjamarkað, eins og Kanadamenn og Norðmenn, hafa stöðvað alla sölu frá sér, af því að þeir vilja ekki una við þetta verð, og sett upp sérstakt kerfi fyrir sína framleiðslu til þess að styðja hana til að selja ekki á þessu verði. Það liggja opinberlega fyrir og hafa meira að segja verið að birtast hér í blöðunum spádómar um, að það sé mjög líklegt, að fiskverð fari almennt hækkandi á Bandaríkjamarkaði á næstunni. Eigi að síður er fylgt þessari forsendu í spánni, að miða við þetta verð á fiskblokk í næstu 12 mánuði, og einnig gert ráð fyrir því, að við verðum þeir afglapar að framleiða næstum eins mikið af blokk á þessu verði þrátt fyrir annað verð, sem liggur fyrir hjá okkur, álíka mikið magn og við höfum gert. Ég tel, að þessar forsendur séu vægast sagt mjög hæpnar.

Þá er einnig gert ráð fyrir því, að aflamagn á bátaflotanum minnki um 13.5%, og einkum miðað við það, að afli hafi verið slakur á s.l. vertíð. Síðan hefur þetta snúist alveg við, og reynslan hefur t.d. sýnt, að aflinn á skuttogurunum hefur orðið allt annar en þarna var reiknað með.

Menn geta auðvitað gefið sér ýmsar forsendur, sem hafa mikil áhrif á það, hver hin endanlega útkoma verður. En við skulum nú víkja frá því að halda okkur bara við útreikninga sérfræðinganna í þessum efnum, þó að rétt sé að hafa í huga, að þessir sömu sérfræðingar hafa spáð fyrir okkur oft áður, og ég hygg, að mér sé óhætt að segja: og alltaf spáð vitlaust. En það a.m.k. liggur fyrir, að í öllum síðustu spádómunum, sem frá þeim eru, því að þeir liggja fyrir hjá okkur í bókum, þá reyndust spádómar þeirra alrangir, svo að ég álít fyrir mitt leyti, að það sé engin nauðsyn að taka eins og heilagan sannleika allt, sem frá þeim kemur. Látum það gott vera, en skoðum þeirra eigin tölur og þessa spádóma, en gerum bara greinarmun á því, hvað eru spádómar um afkomu næstu 12 mánaða, og hinu, sem er um afkomu á . þeim tíma, sem liðinn er og liggur fyrir. Hverjar eru þá spár þessara vísu manna um afkomuna? Það er hægt að taka þetta saman á tiltölulega einfaldan hátt, og það gera þeir reyndar sjálfir líka, því að þetta eru skýrleiksmenn, setja þetta fram á skýran hátt, og þá er þeirra niðurstaða sú, þegar þeir taka allan fiskiskipaflotann saman, þegar þeir taka allar veiðar okkar saman, þ.e.a.s. jafnt rekstur bátanna, rekstur á loðnuveiðum, rekstur á skuttogurum og rekstur á síðutogurum og sem sagt alla okkar útgerð saman í eitt, þá fá þeir út úr þessari áætlun sinni, að það verði rekstrarhalli á einu ári, á 12 mánuðum, miðað við þessar forsendur, sem nemur 1344 millj. kr. En í þessum tölum þeirra er þess einnig getið, að afskriftirnar, sem þeir reikna með, eru 1369 millj. kr. eða aðeins hærri. Heildarútkoman er sú, að flotinn sem heild virðist standa þannig, að hann hefur tekjur á móti gjöldum, en hann hefur ekkert upp í afskriftir eftir þeirra útreikningum. Það vantar í afskriftirnar. Um þetta þýðir ekkert að þrátta, þetta liggur hér fyrir, einnig í Geirsbók, þessari sem sérfræðingarnir tóku saman fyrir hæstv. núv. forsrh. En ég á kannske eftir að koma svolítið að þessum afskriftum út af fyrir sig síðar.

En þá skulum við líta á, hvað sérfræðingarnir segja í spádómum sínu m um afkomu fiskvinnslunnar í landinu. Hvað segja þeir um fiskvinnsluna á næstu 12 mánuðum? Jú, þar fá þeir út úr dæminu, að það verði verulegt tap á hraðfrystingunni, það muni nema rétt tæpum 1400 millj. kr. og rétt rúmum 1500 millj. kr., ef ekki er tekið tillit til ákveðinnar upphæðar, sem frystingin á að fá úr sínum verðjöfnunarsjóði, — rétt tæpar 1400 millj. kr. sé tapið, þegar búið er að færa út afskriftir. Það er þessi tala. Þessar tölur þekkja orðið allir landsmenn. Það hefur ekki staðið á því, að fulltrúar sjálfstæðismanna, sem geysast um landið, hafi klifað á því, að það sé 1500 millj. kr. tap á frystihúsunum í landinu. Þessa tölu eru menn nokkurn veginn búnir að læra, þó að þeir hafi ekki fengið mjög miklar útskýringar með henni. En það, sem er einkum fróðlegt, er, að á sama blaðinu og minnst er á þetta tap á hraðfrystingunni eru upplýsingar um, hvað muni verða mikill gróði á verkun á saltfiski og verkun á skreið, og spámennirnir spá því, að gróðinn á saltfiski og skreið verði nokkru meiri en tapið á hraðfrystingunni. því er sem sagt spáð, að hreinn gróði á saltfiski og herslu verði 1506 millj. kr. á ársgrundvelli, þó að búið sé að afskrifa þessi fyrirtæki um 156 millj. M.ö.o.: þeir benda á, að það er meiri gróði í tiltekinni verkun hjá sjávarútveginum heldur en tap er að þeirra dómi á annarri útgerð. Þetta hefur algerlega verið falið fyrir mönnum. Mönnum hefur ekki verið sagt frá þessu, ekki nema þá þegar það gerist eins og nú hjá hæstv. forsrh. í ræðu hans hér áðan. Hann minnist auðvitað mjög skýrlega á tapið á frystingunni, en segir svo í leiðinni lágt, að það sé heldur betri afkoma hjá saltfiski og skreið. En þessar tölur liggja fyrir á sömu blöðunum. Og til þess auðvitað að gera þetta dæmi ekki allt of glannalegt taka sérfræðingarnir fram, að þeir hafi þó reiknað með því, að það yrði magnminnkun í saltfiskverkun um 4%. Hver skyldi nú trúa því, að menn séu svo glórulausir í rekstri, að þeir minnki framleiðsluna á því, sem gefur stóran hagnað undir þessum kringumstæðum? En út frá þessari forsendu er gengið, þegar þessar tölur koma út.

Í þessu sambandi er ekki óeðlilegt, að minnst sé um leið á stöðu Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Ég veit, að þeir eru margir, sem kannast við það, að þegar vinstri stjórnin tók við völdum á miðju ári 1971, byrjuðu sjálfstæðismenn að æpa, að nú ætti að éta upp Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, af því að fiskverð til sjómanna var hækkað nokkuð, og á þessu var klifað allan tímann, að ég hefði staðið fyrir því að taka fé úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins og nota það í þessu skyni. Auðvitað var þetta alrangt, og tölur sýna, að í sjóðnum hefur verið að hækka allan tímann. Þegar við tókum við völdum, voru í sjóðnum rétt í kringum 700 millj. kr. Það geta allir sannfært sig um, sem vilja líta á tölulegar upplýsingar, sem liggja fyrir. En í lok júnímánaðar á þessu ári er innistæðan í Verðjöfnunarsjóði ekki lengur 700 millj., heldur 1918 milljónir kr. Hann er tæpir tveir milljarðar og hefur verið að vaxa það sem af er þessu ári um 270 millj. kr., á árinu 1974, í þessu hörmungarástandi, sem við höfum búið við. Og sérfræðingarnir segja í lokin, þegar þeir gera grein fyrir stöðu Verðjöfnunarsjóðs, að það sé líklegt, að sjóðshreyfing Verðjöfnunarsjóðs að öllum aðstæðum óbreyttum verði nettóinngreiðsla um röskar 400 millj. kr. á næstu 12 mánuðum. Það er því fyrirliggjandi allmikið fé í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, en hann er ekki uppétinn, eins og þeir sjálfstæðismenn hafa verið að reyna að halda fram. Hraðfrystingin á í sinni verðjöfnunardeild nú á miðju ári rúmlega 1.2 milljarða. En eins og ég vék hér að áður, er sú afkoma, sem hér er verið að spá og byggð er á tilteknum forsendum, miðað við það, að afskriftir eru þar reiknaðar eftir ákveðnum reglum, sem sérfræðingarnir hafa ákveðið að taka upp. Þeir reikna tilteknar afskriftir inn á reikning fiskiskipanna, inn á reikning fiskvinnslunnar o.s.frv. En þeir geta þess í skýrslu sinni, að þessar afskriftir séu sem heild miklu meiri fjárhæð en sem nemi þeim beinu afborgunum, sem fyrirtækin verði að greiða af umsömdum stofnlánum og upplýsingar liggi fyrir um. Og þeir segja í skýrslu sinni, að varðandi skipastólinn, þ.e.a.s. fiskiskipin, séu afskriftirnar 650 millj. kr. hærri en raunverulegar afborganir af skipunum til stofnlánasjóða séu. Auðvitað getur alltaf verið eitthvað af stofnskuldum skipanna hjá öðrum en stofnlánasjóðum, svo að þarna yrði einhver minnkun á, en það er enginn vafi á því, að hér er verið að reikna með miklu meiri afskriftum en sem nemur afborgunum af umsömdum skuldum. Og í þessari sömu skýrslu segja sérfræðingarnir, að varðandi fiskvinnsluna í landinu séu afskriftirnar 490 millj. kr. hærri en vitað sé um afborganir til stofnlánasjóða. Þessar afskriftir, sem þarna er reiknað með umfram gildandi afborganir, eru upp á 1140 millj. kr.

Það er vitanlega alltaf nokkurt álitamál, hvað á að reikna atvinnurekstri miklar afskriftir. Ég, dreg t.d. enga dul á, að það hefur verið mín skoðun, að það væri engin bein þörf á því að ætla okkar togurum meiri afskriftir en sem nemur afborgunarskyldum þeirra, vegna þess að verðlagsþróunin hjálpar þeim svo mikið í afskriftamálunum. Ég hef bent á það, að togara, sem keyptur var til landsins fyrir 31/2 ári á 55 millj., er nú verið að selja — ekki á 55 millj., heldur á 110 millj., miðað við erlent verðlag. Þetta er hækkunin. Satt að segja er að mínum dómi sá hagnaður, sem þessir aðilar fá út úr þessari verðhækkun, alveg nægur, þó að þeir hefðu ekki haft stórkostlegar aukaafskriftir líka. Vissulega er gott að geta gert ráð fyrir því, að okkar sjávarútvegsfyrirtæki, fiskiskip okkar og fiskverkunarstöðvar, hafi góðan hagnað. Það er vissulega gott og gæti, ef rétt væri á haldið, styrkt okkur á ýmsan hátt. En það er alveg ástæðulaust að leggja þessi mál þannig fyrir, að það sé ekki sagður allur sannleikurinn, það sé verið að draga undan hið rétta í málinu.

Ég hef nú farið nokkuð yfir stöðuna í efnahagsmálum, eins og ég met hana og eins og hún liggur hér fyrir samkv. þeim upplýsingum, sem við höfum helst við að styðjast. Ég ætla, að þessar staðreyndir, sem ég hef dregið hér fram, sýni, að það, sem sagt hefur verið með gífuryrðum um það, að allur atvinnurekstur sé rekinn með tapi og ríkissjóður sé að komast á vonarvöl og þjóðarbúið sé að verða gjaldþrota, þetta séu örgustu fjarstæður, sem ekki er vitanlega hægt að hleypa neinum rökum undir. Þvert á móti er staða okkar, þegar á allt er litið, mjög góð. Hún er miklu betri en nokkurn tíma áður til að takast á við ákveðin vandamál, sem vissulega eru fyrir hendi og ég skal koma að síðar. Sú staða, sem við búum við í dag með okkar nýja fiskiskipastól, og sú staða, sem við búum við í dag í sambandi við okkar fiskiðnað, þá uppbyggingu, sem þar hefur verið framkvæmd, gefur okkur stórkostlega möguleika fram yfir það, sem áður var. Og staðan á fiskimiðunum hefur einnig gerbreyst okkur í hag.

Ég geri ráð fyrir um þetta, sem ég hef nú sagt, að það verði reynt að snúa út úr því á þann veg að halda því fram, að ég telji hér allt í besta blóma og hér þurfi engra aðgerða við. En það er alrangt. Öll slík túlkun á því, sem ég hef sagt, er röng. Ég viðurkenni, að hér er við viss vandamál að glíma. Í okkar efnahagsmálum þarf að gera tilteknar aðgerðir, og ég skal koma að því, hvað það er, sem ég legg þar á höfuðáherslu. Ég tel, að það, sem er þýðingarmest og við verðum að leysa, er að stöðva þann skrúfugang, sem á sér stað á milli verðlags og kaupgjalds, koma í veg fyrir þær margföldunarverðhækkanir og kauphækkanir, sem eiga sér stað á miklum verðbólgutímum eins og þeim, sem við lífum á nú. Það þarf að koma í veg fyrir það, að kaupið eftir einhverjum vísitölureglum eins og þeim, sem við höfum búið við, æði upp á eftir verðlagi, því að það kippir vitanlega fótunum undan eðlilegum rekstri, eins og nú er ástatt. Þetta var gert í tíð fyrrv. ríkisstj. með brbl. frá því í maí s.l. Þá átti að réttu lagi kaupgjald að hækka um 14.5% eða um 15.5 K-vísitölustig 1. júní, og eftir slíka hækkun hefðu landbúnaðarvörurnar hækkað gífurlega strax á eftir, útseld vinna hefði hækkað gífurlega og síðan orðið önnur kollsteypa þar á eftir. Mér er alveg ljóst, að við þær aðstæður, sem við búum við í dag, er engin leið að halda atvinnurekstrinum hér gangandi af fullum krafti, eins og verið hefur, ef þessi skrúfugangur yrði látinn ganga áfram. Það vísitölukerfi, sem við búum við, hefur vissa kosti. Það getur skapað meiri kyrrð á vinnumarkaði undir vissum kringumstæðum, er launþegarnir vita, að þeir hafa vissa tryggingu fyrir kaupmætti launa sinna. En það sjá allir, að ef t.d. er um að ræða, að erlendar verðhækkanir ern mjög miklar og hafa víðtæk áhrif, sem leiða til hækkunar á mörgum sviðum, og það gerist á þeim tíma, sem útflutningsverð okkar hækkar ekki, stendur í stað eða jafnvel fer lækkandi, þá fær svona skrúfugangur ekki staðist, og þá er að reyna að finna ráð til þess að koma í veg fyrir þennan vanda, þannig að launafólkið í landinu fái við unað, en atvinnurekstrinum sé forðað frá afleiðingum þessara sífelldu hækkana. Þetta er að mínum dómi langsamlega stærsta vandamálið.

Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að ég sé með einhverja patentlausn á þessu og ég kunni ráð við því að leysa þetta á einfaldan hátt. Þetta er vandasamt úrlausnarefni, en sem verður að vera hægt að leysa. Ég hef haft trú á því, að það væri hægt að finna leiðir út úr þessu, þannig að launþegasamtökin í landinu gætu unað við. Og það var þetta, sem við miðuðum að í þeim samningaviðræðum, sem við tókum þátt í um nýja stjórnarmyndun, það var að leysa þennan vanda. En það er alveg augljóst mál, að þessi vandi verður ekki leystur á þann hátt, að það sé bara mokað og mokað út nýjum og nýjum verðhækkandi sköttum eða það sé gerð alltaf meiri og meiri gengislækkun og þar með meiri og meiri verðhækkun og svo sé aðeins á einfaldan hátt kaupið bundið fast. Slíkar tilraunir hafa verið reyndar áður, og þær hafa allar farið út um þúfur og er enginn vafi á því, að það fer eins nú. Ef menn hugsa sér að leysa þennan vanda eftir þessum gömlu leiðum, að það skuli aðeins bitna á launafólki og launafólkinu almennt, þá mistakast slíkar tilraunir. Þær leysa ekki vandann, þær bara skapa nýjan vanda.

Annað atriði, sem ég tel mjög vandasamt hér viðureignar, er dýrtíðarvandamálið. Að hluta til ráðum við þar lítið við málið. Hin erlenda dýrtíð, sem að okkur sækir, kemur, og við fáum lítið við hana ráðið. En það er stór hluti af þessu dýrtíðarvandamáli, sem er líka innlend kröfugerð og ekki bara frá launafólki, það er alls konar þjónustustarfsemi í landinu, rekstur alls konar stofnana og fyrirtækja, þau sækja öll miskunnarlaust á um það að fá að hækka sína þjónustu. Og ég tek eftir því, að einmitt einn boðskapurinn frá núv. hæstv. ríkisstj. er sá, að það beri að rétta við fjárhag þessara aðila. Hvernig á að rétta hann við? Á að rétta hann við eftir þeirri leið, sem ég vil, að segja þeim herrum, sem stjórna þessum þjónustustofnunum og þessum fyrirtækjum, að þeir verði að láta sér nægja þær tekjur, sem þeir búa við í dag, og miða sinn rekstur við það á þeim tíma, sem verið er að fara fram á ákveðnar fórnir af hálfu launþega í landinu, eða á að leysa vandamál þeirra á þann hátt, sem maður hefur heyrt mest um, að leyfa þeim að hækka á öllum sviðum, en binda bara vísitöluna? En þannig leysast að mínum dómi ekki málin.

Þriðja stórvandamálið, sem við er að glíma í okkar efnahagsmálum nú, er sú gífurlega hækkun á olíuvörum, sem hefur verið að ganga yfir og er enn að hvolfast yfir okkur. Þarna er um mikið vandamál að ræða, og kemur auðvitað hvort tveggja til: að reyna að afla einhverra tekna til þess að borga niður olíuverð, ef það þykir hentugra í sambandi við bæði skiptakjör og annað, eða að leysa þennan sérstaka vanda fyrir reksturinn í landinu með sérstökum aðgerðum.

Og þá bæti ég við fjórða atriðinu, sem tvímælalaust er mikill vandi, enda kemur það fram hjá þeim efnahagssérfræðingum, sem skrifað hafa flestar þessar skýrslur, og var þó ekki mikils að vænta af þeim á því sviði að mínum dómi, að þeir viðurkenna, að bankar landsins eigi mjög stóran hlut í dýrtíðarvandamálinu og stærstan hlut í þensluástandinu í landinu í mörgum greinum. En bankarnir hafa, þrátt fyrir það að allir tali um, að kaupmátturinn í landinu sé allt of mikill, menn hafi fengið allt of mikið fé handa á milli og ráðist í allt of miklar framkvæmdir, þá hafa þeir haldið áfram að auka útlán sín með margföldum hraða miðað við það, sem áður var. Ég hef ekki nákvæmar tölur, en ég veit þó, að hrein útlánaaukning í verslunina, og þá er ekki talin með olíuverslunin og ekki heldur samvinnuverslunin, — hrein útlánaaukning bankanna frá síðustu áramótum og fram að þessum tíma er talsvert mikið á annan milljarð til verslunarinnar. Þannig mætti nefna í miklu fleiri greinum, að bankakerfið hefur haldið áfram að dæla út viðbótarpeningum við hinn mikla kaupmátt í landinu og auðvitað aukið á þensluna og spennuna og þar með á verðbólguna í landinu. Þarna er mikið vandamál, sem líka þarf að glíma við og hefur ekki tekist að leysa til þessa.

Ég tel fyrir mitt leyti, að megineðli þess vanda, sem við eigum nú við að glíma í efnahagsmálum, séu hin breyttu viðskiptakjör okkar, sem nú hafa orðið snögglega, þ.e.a.s. mjög margar innflutningsvörur okkar hafa stórhækkað í verði, en þó nokkuð þýðingarmiklar útflutningsvörur hafa heldur lækkað í verði, þó að þar sé ekki, þegar litið er á heildina, um neitt stórt að ræða.

Í öðru lagi tel ég, að okkar vísitölukerfi, eins og það er nú, fái ekki staðist á slíkum verðsveiflutímum eins og nú ganga yfir, Það þarf að endurskoða það og tryggja launþegana eftir öðrum leiðum, því að það gefur alveg auga leið, eins og ég hef sagt í ræðustól hér á Alþ. áður, að undir þeim kringumstæðum, sem við búum við í dag, er engin leið að láta landsmenn fá almenna kauphækkun eftir vísitölu út á stórhækkað olíuverð, sem þjóðarbúið verður fyrir. En okkar vísitölukerfi er þannig, að menn hefðu átt að fá kauphækkun út á þessa olíuverðhækkun.

Og í þriðja lagi tel ég, að eðli þess vanda, sem við er að glíma, sé að talsverðu leyti fólgið í því, að kaupgjaldssamningarnir, sem gerðir voru í lok febr. í vetur, voru í ýmsum tilfellum alveg óraunhæfir. Þar var farið í ýmsum greinum langt út fyrir eðlileg takmörk, þó að það ætti ekki við hina lægst launuðu að mínu mati. Því er ekki heldur að neita, að þarna er stór þáttur í okkar vanda gífurleg þensla á öllum sviðum. Framkvæmdir hafa verið gífurlega miklar, og það er vitanlega hægt að stjórna þeim án þess að grípa til almennrar lífskjaraskerðingar.

Ég vil í þessu sambandi segja það, að við Alþb: menn settum fram í viðræðunum um myndun vinstri stjórnar að þessu sinni okkar hugmyndir um það, hvað gera ætti í efnahagsmálum. Þar lýstum við því yfir, að við teldum 15% gengislækkun, eins og þar var talað um, allt of mikla, það væru ekki rök fyrir því og það væri ekki hyggilegt að fara í svo mikla gengislækkun. Þetta margundirstrikuðum við. Við tókum hins vegar fram, að við mundum ekki láta standa á þessu, við mundum fallast á 15% gengislækkun til þess að ná samkomulagi, en það þýddi, að það yrði að gera gagnráðstafanir til handa launþegunum í landinu, sem yrðu meiri, ef yrði farið í svona mikla gengislækkun, þá yrðu gagnráðstafanirnar að vera meiri. Og við settum fram á skipulegan hátt, hvaða gagnráðstafanir við teldum, að þá yrði að gera. Það vitanlega skiptir hér öllu máli, að þess sé gætt í sambandi við efnahagsráðstafanir eins og þær, sem nú þarf að gera, að þær séu gerðar þannig, að ekki sé um árásir að ræða á launafólkið í landinu. Það kann að vera, að það verði að færa niður raunverulegan kaupmátt hjá þeim, sem best eru staddir. En það er ekki þörf á því að gera það hjá almennu verkafólki. Það hefur verið okkar meginsjónarmið.

Ég vil benda á það, að þær till., sem hér liggja fyrir og við vitum um nú af hálfu þessarar ríkisstj. til ráðstöfunar í efnahagsmálum, eru mjög stórar. Hér er um gífurlega mikinn fjármagnstilflutning að ræða í okkar hagkerfi. 17% gengislækkun þýðir, eftir því sem við höfum fengið upplýsingar um áður, og skakkar þá ekki mikið frá því, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, — hún þýðir, að það er verið að færa yfir til útgerðarinnar í landinu nettó 3500–4000 millj. kr. Þessi tilfærsla er að mínum dómi, ef réttilega er á haldið, algerlega óþörf. Það þarf ekki að framkvæma þessa millifærslu. Og fyrir ríkissjóð þýðir þessi gengislækkun, að það er verið að færa aukna fjármuni yfir til ríkissjóðs á milli 1500–2000 millj. kr. Til þessara tveggja aðila, til sjávarútvegsins og til ríkissjóðs, er því verið að færa yfir fjármuni í hagkerfinu á milli 5000 og 6000 millj. kr. á ársgrundvelli. Auðvitað er tilfærslan enn meiri, því að fleiri koma inn í þetta dæmi. Við þetta á svo að bæta tilfærslunni einnig upp á 1800 millj. kr., þar sem eru 2 söluskattsstig. Hér tel ég, að sé óhyggilega að farið, og það er vitanlega ekki frambærilegt á neinn hátt að leggja fram þessar till. án þess að gera þá grein fyrir því um leið, hvað á að fylgja gagnvart launastéttunum í landinu.

Ég vil benda á, að það er auðvelt að leggja það saman, að þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar, og þær ráðstafanir, sem felast í þessum till., sem hér eru á ferðinni, jafngilda því, að það eigi að taka út úr vísitölukerfinu yfir 30 K-stig, nema eitthvað komi hér sérstakt á móti. Þetta mun jafngilda beinni kauplækkun upp á 29–30%, nema eitthvað komi sérstakt á móti. Og ég held, að ríkisstj. ætti að hugsa sig um betur, áður en hún leggur út í slíkt, því að hún fær þetta aldrei í gegn á friðsamlegan hátt, og þá er hætt við því, að það geti tapast eins mikið og það, sem átti að vinnast, ef afleiðingarnar verða stórátök á okkar vinnumarkaði.

Ég skal ekki ræða hér frekar um málið, þó að það sé fyllilega ástæða til þess að ræða um efnahagsmálin á breiðum grundvelli, þegar mál eins og þetta liggur hér fyrir. En mig langar til að koma hér fram með nokkrar fsp. til hæstv. forsrh. varðandi þetta mál.

Það er í fyrsta lagi: Er gert ráð fyrir því í sambandi við þessar miklu breytingar, að hlutaskiptakjörum sjómanna verði breytt með lögum, eins og gert var 1968 og kröfur hafa komið fram um nú af hálfu útvegsmanna? Þetta er mjög þýðingarmikið atriði, að verði hér upplýst, því að auðvitað sjá allir, að gengislækkun út af fyrir sig stóreykur á hallareksturinn hjá fiskiskipunum, ef ekki koma einhverjar aðrar ráðstafanir þarna með. Rekstrarkostnaður bátanna eykst.

Þá kemur önnur spurning: Hvað er gert ráð fyrir, að fiskverð geti hækkað mikið til fiskiskipaflotans í kjölfar þessarar gengisbreytingar? Hvað er gert ráð fyrir, að fiskverðshækkunin geti orðið mikil? Og fær hún að skila sér til sjómanna eða er gert ráð fyrir því að breyta hlutaskiptakjörunum?

Þá vildi ég enn spyrja, hvaða reglur eigi að gilda um álagningarprósentu verslunarinnar í landinu, eftir að þessi gengisbreyting hefur verið samþ. eða ákveðin. Á að lækka álagningarprósentu verslunarinnar eða á að leyfa versluninni í landinu að fá beinan gróða í sinn hluta með því að leggja jafnháa prósentutölu á mun hærra vöruverð? Þetta er vitanlega mjög þýðingarmikið að fá upplýsingar um, og ég óska eftir að hæstv. forsrh. svari því hér.

Þá vil ég einnig spyrja, hvaða breytingar verði gerðar á hinum svonefndu innborgunarreglum verslunarinnar í sambandi við innflutning. Verða þær reglur felldar úr gildi með gengisbreytingunni eða eiga þær að standa áfram að meira eða minna leyti?

Þá langar mig einnig að spyrja: Er gert ráð fyrir því í kjölfar þessarar gengisbreytingar að borga niður á næsta ári olíuverð til fiskiskipaflotans, eða er gert ráð fyrir því, að þeirri niðurgreiðslu verði hætt og fiskiskipin verði látin borga það verð á olíu, sem er á hverjum tíma?

Svo er auðvitað sú stóra spurning, sem ég hef nokkuð vikið hér að, en vildi mjög gjarnan koma hér fram með formlega spurningu út af: Hvaða reglur eiga að gilda varðandi kaupgreiðsluvísitöluna? Ríkisstj. hlýtur að hafa komið sér saman um ráðstafanir í þessum efnum varðandi alla þessa liði, því að það er í rauninni alveg óhugsandi að standa að þessum málum þannig, að menn geri samþykkt aðeins um einn liðinn óbundið af því, hvernig á að fara með hina, sem þetta varðar svo miklu. Hvaða reglur eiga að gilda um kaupgreiðsluvísitöluna, eftir að þessar miklu breytingar hafa gengið yfir?

Þá vil ég einnig spyrja: Hverjar verða þessar sérstöku launabætur til láglaunafólks? Ríkisstj. hefur væntanlega einnig gert sér grein fyrir því. Og hverjir teljast í þessum efnum láglaunamenn, hvar er láglaunamarkið og hvaða sérstakar bætur eiga þessir aðilar að fá?

Og síðast vil ég spyrja: Er ekki gert ráð fyrir því, að tryggingabætur almannatrygginganna verði hækkaðar um leið eða nú þegar, þar sem auðvitað er augljóst mál, að bótaþegar almannatrygginganna eru ekki færir um að taka á sig stóraukin útgjöld án þess að fá einhverjar bætur á móti.

Lokaorð mín skulu svo aðeins vera þau, að ég vil vara ríkisstj. við því að halda þannig á þessum málum, að hún efni til stórátaka á vinnumarkaði. En það er veruleg hætta á því, að til slíkra átaka komi, ef ekki verður tekið fullt tillit til hagsmuna almennra launþega í landinn við þær ráðstafanir, sem gerðar eru. Maður hefur ekki heyrt enn neitt minnst á það, hvernig aðrir en launþegar í landinu eigi að standa undir þeim vanda, sem hér er um að ræða. Og þá er vitanlega gefið mál, að það skiptir miklu máli, hvernig farið er að launþegum landsins varðandi jafnviðkvæm mál og hér eru á ferðinni og áhrifamikil.

Ég vil svo aðeins lýsa því yfir, að við Alþb: menn getum ekki stutt þetta frv., sem felur í sér vissa staðfestingu á 17% gengislækkun. Við erum á móti þeirri aðgerð. Við teljum, að hér sé farið allt of gróft í sakirnar, og auk þess vantar svo vitanlega alla grg. um það, hvaða fylgiráðstafanir eigi að koma til þess að vernda launþega landsins.