30.08.1974
Neðri deild: 10. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

9. mál, ráðstafanir vegna gengis íslenskrar krónu

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er ekki langt liðið síðan núv. ríkisstj. kom til valda, e.t.v. rétt að telja ævi hennar enn þá í klukkustundum. En þó hefur ærið margt gerst á þessum tíma. Eitt af því, sem vakið hefur mikla athygli hér á þinginu, er, að áhugi hins fjölmenna þingmannaliðs, sem á að heita að styðja þessa ríkisstj., á stórmálum eins og þeim, sem til umr. eru í dag, er ekki meiri en svo, að ríkisstj. getur ekki einn sinni komið þessum málum til n. án þess að fá hjálp hjá stjórnarandstöðu. Það kemur stundum fyrir, þegar leiði grípur þm. að vorlagi, að það er tregða á að fá menn til að koma hingað og afgreiða mál. En það er ekki hægt að komast hjá því að lýsa undrun yfir því, hversu gersamlega áhugalausir stuðningsmenn ríkisstj. virðast vera um að koma þessu máli fram á eðlilegan hátt, og þó er beðið um, að það sé gert með slíkum hraða, að það er í raun og veru ekki í neinu samræmi við þær hugmyndir, sem eru á bak við þingræði, enda þótt nóg sé af fordæmum um það, og ég fordæmi í sjálfu sér ekki, að mál eins og gengisbreyting þurfi að ganga fljótt fyrir sig.

Annað, sem hefur vakið athygli, er, að annar stjórnarflokkurinn hefur nálega horfið í skuggann og varla frá honum heyrst, þannig að menn eru hér í baksölum farnir að tala um þögla stjórnarflokkinn. En nú fékk hann málið með hv. frsm. þeirrar n., sem nú var að skila af sér, og ég held, að ræða hans sé með algerum eindæmum í allri þingsögunni. (ÞÞ: Þetta var af sérstökum ástæðum.) Það stafar af sérstökum ástæðum. Það má segja, að það sé þá ýmislegt sérstætt, bæði við ástæðurnar í dag og við stjórnarfarið í dag. Þó er það ekki lítið alvörumál. sem um er að ræða, því að við erum að afgreiða afdrifaríka gengisbreytingu, sem þýðir milljarða tilflutning á tekjum milli fólks í landinu.

Í sambandi við fyrri stjórnarmyndun, sem ekki tókst, var mikið talað um samráð við verkalýðshreyfinguna, og hæstv. fyrrv. forsrh. lýsti þá yfir, að slíkt samráð kæmi ekki til greina fyrir stjórnarmyndun, en strax eftir stjórnarmyndun átti það að vera sjálfsagt. Í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstj., ef hægt er að kalla það plagg, sem við fengum að heyra í gær, slíku nafni, er lofað samráði við aðila vinnumarkaðarins. Að vísu hefur ríkisstj. ekki haft langan tíma til starfa enn, þó að hún takist nú á við mikil verkefni, það skal ég viðurkenna, og það er e.t.v. ekki eðlilegt, að hún ræði við hagsmunasamtök um atriði eins og gengislækkunina sjálfa eða upphæð hennar. En eftir því sem ég hef best getað frétt nú síðdegis, hefur ríkisstj. ekki sýnt nokkurn lít á því að hafa minnstu samráð, a.m.k. ekki við Alþýðusamband Íslands. Ég hef ekki haft neinar fréttir frá Vinnuveitendasambandinu. Þótt ekki hefði verið annað en að sýna vilja á þessu sviði, sýna vilja vegna þess, hvað þetta er orðið mikið deilumál, þá finnst mér, að ríkisstj. hefði getað eytt í það nokkrum mínútum að hafa eitthvert samband við aðila vinnumarkaðsins, a.m.k. þann aðila, sem á að borga brúsann í þetta skiptið, alþýðusamtökin, og gefið einhverjar vísbendingar eða einhver loforð um þær ráðstafanir, sem eiga að rétta hlut a.m.k. sumra launþega, en sem við vitum ekkert um enn þá. En eins og fleira virðist þetta hafa algerlega gleymst í miklum önnum.

Í þeim umr., sem hér fóru fram í dag, voru lagðar fram margar spurningar og eðlilegar spurningar, en við þeim hefur ekkert svar fengist, ekkert annað en hin sérstæða og kómíska ræða frsm. n., sem um þetta mál hefur fjallað. Við höfum ekki fengið nein svör um, hvað á að gera varðandi láglaunafólkið. Það er talað um, að það eigi að fá einhverjar bætur. Þeir, sem fjallað hafa um efnahagsmálin undanfarið, vita vel, að þær bætur, sem kunna að fara til láglaunafólksins, standa í beinu sambandi og beinu samhengi við það, hvað gengislækkunin er mikil. Það er því útilokað, að ríkisstj. hafi ekki gert sér einhverja grein fyrir þessu máli, þegar hún ákvað, að gengislækkunin skyldi verða eins mikil og hún varð, en ekki lægri eða hærri. Samt sem áður fást engin,svör við þeim spurningum, sem fram hafa komið um þetta. Þetta er meginatriði, algert meginatriði í augum alls þorra launamanna í landinu. Og þetta er prófsteinn á það, hvort ríkisstj. meinar nokkuð með fögrum orðum í þessum efnum.

Það var spurt um margt fleira. En ég vil aðeins ítreka spurninguna um það, hvað verði um bótaþega almannatrygginga. Dettur nokkrum manni í hug, að gamla fólkið og öryrkjarnir þoli þær álögur, sem hér eru á ferðinni í dag, bótalaust með öllu ofan á allt, sem þegar hefur gerst, ofan á allar þær hækkanir, sem komnar eru á undan? Við þessu fást engin svör. Það hefur verið spurt um hlut sjómanna og ýmislegt fleira. Það heyrast engin svör, engar upplýsingar. Það er búið að leggja fyrir Alþ. á fyrsta degi, eftir að ríkisstj. kynnti sig hér, tvö frv., sem eru með gífurlega þungum álögum. Það fást engin svör og engar upplýsingar um, hvað ríkisstj. hyggst fyrir varðandi aðrar.ráðstafanir, sem kynnu að bæta þessar álögur að einhverju leyti fyrir þá, sem erfiðast eiga.

Íslendingar hafa illa reynslu af því, að skellt hefur verið á gengislækkunum og lofað hliðarráðstöfunum, sem yfirleitt eða a.m.k. oft hafa aldrei birst. Er því rík ástæða til þess fyrir stjórnarandstöðuna að sýna fyllstu tortryggni í þessum efnum, og tortryggnin eykst, þegar ekki fást nein svör við spurningum. Og framsaga með þessu máli frá n. eftir einnar klst. athugun er nánast eins og hún væri tekin út úr gamanleik.

Þar sem engin leið er að sjá neina heildarmynd af þessum ráðstöfunum, við höfum aðeins fengið að sjá þyngstu álögurnar, sem hugsanlegar eru, við fáum engin svör við spurningum um, hvað kunni að koma á móti, er ómögulegt fyrir Alþfl. annað en greiða atkv. gegn þessu frv.