30.08.1974
Neðri deild: 10. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

9. mál, ráðstafanir vegna gengis íslenskrar krónu

Karl G. Sigurbergsson:

Herra forseti. Eins og frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. gat um áðan, er það kannske óvenjulegt, þó veit ég það ekki, en ég geri ráð fyrir, að hann hafi farið með rétt mál, að það muni vera óvenjulegt, að 4 ráðh. eigi sæti í einni og sömu þn., það vill nú til í þessu tilviki. Og það má kannske segja, að úr því að svo er ástatt, þá liggi það næst fyrir mig að hugsa sem svo: Hvað má ég, vesalingurinn minn, gegn þeim 4?

Ég ætla ekki að tefja þingheim á langri ræðu um þetta mál. En vegna ummæla hæstv. forsrh. hér við 1. umr. málsins langar mig aðeins til að koma fram nokkrum orðum og ábendingum.

Hæstv. forsrh. komst þannig að orði í ræðu sinni, þegar hann fylgdi frv. úr hlaði, að það væri aðeins einn liður í samræmdum heildaraðgerðum í efnahagsmálum. Það er einmitt þess vegna, að þetta er einungis einn liður í þessum samræmdu heildaraðgerðum, sem von er á kannske á næstunni, að ég tek hér til máls og lýsi því yfir, að ég fyrir mitt leyti og þm. Alþb. munum vera á móti þessu frv. Í því felst að vísu ákveðið markmið, þ.e.a.s. að afla tekna á þann hátt, sem oft hefur verið gert áður, að færa fjármagn til milli ýmissa stétta í þjóðfélaginu. En það eru engar upplýsingar að fá um það, hvaða hliðarráðstafanir muni fylgja, og það eru engar upplýsingar um það að fá, hvaða afgreiðslu frv. fái, sem hér liggja fyrir Alþ. og fela í sér aukna skattheimtu, t.d. frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, sem framlengd hefur verið, þó með þeirri viðbót, að útsöluverð landbúnaðarvara hefur hækkað um 15–20%, án þess að launþegar fái það að nokkru bætt. Það eru sem sagt engar upplýsingar um, hvað við tekur þegar framlengingarfresturinn rennur út. Í öðru lagi liggur fyrir Alþ. frv. til l. um fjáröflun til vegagerðar, en í því felst veruleg hækkun bensinskatts. Engar upplýsingar liggja fyrir um, hvort frv. á að fá sömu afgreiðslu og væntanlega verður með þetta frv., sem hér er til umr., eða hvort það verður dregið til baka eða endurskoðað og jafnvel komið með hærri till. um bensínskatt. Í þriðja lagi er komið fram og liggur fyrir Alþ. frv. til l. um hækkun söluskatts um 2 stig. Allt þetta miðar að hækkun á skattheimtu. Og í fjórða lagi liggur fyrir Alþ. frv. um verðjöfnunargjald á raforku, þ.e.a.s. frv., sem felur í sér hækkun á rafmagnsgjöldum til almennra notenda rafmagnsins.

Mér finnst einsætt, þar sem engar upplýsingar liggja fyrir um ráðstafanir í efnahagsmálum aðrar en þær, sem lagt er til í því frv., sem fyrir liggur, þ.e.a.s. gengisfellingu íslenskrar krónu, þá sé ekki hægt annað en að styðja að því, að þetta frv. verði fellt. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég get ekki annað séð en að hér sé verið að endurvekja gamalkunna fjármagnsflutningaleið, gamalkunna leið, sem farin hefur verið til að flytja fjármagn milli stétta í þjóðfélaginu, þótt að vísu séu aðrir aðstandendur að þeim fjármagnsflutningi í þetta sinn. Og eins og ég gat um áðan, þar sem ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um framhald og hliðarráðstafanir, sem væntanlega á að gera í samræmi við þessa gengisfellingu, þá sé ég ekki, að það sé nein ástæða til annars en vera á móti því, og legg því til, að frv. verði fellt.