18.07.1974
Sameinað þing: 1. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

Kosning forseta

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Þetta Alþingi er aukaþing, sem væntanlega mun standa nokkrar vikur og mótast mjög að þjóðhátíðinni. Bæði eru hátíðir haldnar í mörgum héruðum um þessar mundir og n.k. sunnudag verður þinghald að Lögbergi á Þingvöllum.

Með tilliti til þessa taldi þingflokkur sjálfstæðismanna æskilegt, að samstaða gæti náðst milli allra þingflokka um kosningu forseta Sþ., deildarforseta, varaforseta og þingnefnda og þá að sjálfsögðu með hliðsjón af þingstyrk flokkanna. Áður en þing kom saman, var þessari hugmynd komið á framfæri, og síðan var hún rædd á fundi formanna þingflokkanna.

Þegar þessi hugmynd var rædd þar, kom það fram, að Alþfl., Framsfl. og SF ætluðu sér og höfðu ákveðið að kjósa formann Alþýðuflokksins forseta Sþ., og var þessari till. sjálfstæðismanna um allsherjar samkomulag þar með hafnað.

Eftir að Alþingi hafði kosið forseta sameinaðs þings í gær, var þess aftur freistað að ná samkomulagi um val deildarforseta og varaforseta. Uppástunga um samkomulag kom þá fram, sem fól m.a. í sér þá lausn, að forseti Ed. yrði úr Framsfl., forseti Nd. úr Sjálfstfl. Þessi hugmynd var studd m.a. af formönnum Framsfl. og Alþfl., og hún var samþykkt af þingflokki sjálfstæðismanna. En hún strandaði á andstöðu Alþb., og féllu Framsfl. og Alþfl. þá frá þeirri hugmynd.

Nú hafa hinir 4 flokkar: Framsfl., Alþb., Alþfl. og SF, ákveðið að standa saman að kosningu þeirra forseta og varaforseta, sem eftir er að kjósa, og þeir hafa látið í ljós, að þeir hyggist kjósa sjálfstæðismenn í 3 varaforsetasæti. Ég vil taka það fram, að þingmenn Sjálfstfl. óska ekki eftir að verða kosnir í þau sæti.

Þingflokkur sjálfstæðismanna harmar það, að frumkvæði hans og tilraunir til samstöðu á Alþingi hafa þannig farið út um þúfur.