30.08.1974
Efri deild: 8. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

9. mál, ráðstafanir vegna gengis íslenskrar krónu

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég mun reyna að stytta mál mitt og bið hv. þdm. velvirðingar á því og vænti þess, að þeir varpi fram fsp., að því leyti sem þeim finnst málið vanreifað af minni hálfu. En frv. það til l., sem hér er um að ræða, er lagt fram í tengslum við það, að síðdegis í gær lagði bankastjórn Seðlabankans til við ríkisstj. að höfðu samráði við bankaráð, að gengisskráning verði tekin upp að nýju n.k. mánudag og verði þá markaðsgengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar sem næst 17% lægra en það var þegar gengisskráningu var hætt og gjaldeyrisviðskipti stöðvuð hina 21. ágúst s.l. Ríkisstj. samþykkti þessa till. Seðlabankans.

Ég skal ekki fjalla um einstakar greinar frv., en tilgangur gengisbreytingarinnar, sem ákveðin hefur verið, er tvíþættur: annars vegar að tryggja rekstrargrundvöll atvinnuveganna og hins vegar að bæta greiðslustöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum.

Hv. þdm. er kunnugt af skýrslu þeirri, sem ég óskaði eftir, að gerð yrði í byrjun júlí, að þunglega horfir um afkomu sjávarútvegsins. Það virðist í heild vera um hallavandamál að glíma, sem nemur 2800–3500 millj. kr. eftir því, hvort tillit er tekið til verðjöfnunar eða ekki. Hér er hins vegar um mjög flókið vandamál að ræða, þar sem afkomuhorfur einstakra greina sjávarútvegsins eru mjög misjafnar. En til þess að unnt sé að leysa vandamálið, er gengið út frá því, að eigi verði frekari kauphækkanir innanlands en eru fólgnar í fyrirhuguðum láglaunauppbótum og tryggingabótum til þeirra, sem lakar standa að vígi.

Tekjuskiptingarvandamálin innan sjávarútvegsins eru mjög vandasöm vegna olíuvandamálsins og örðugleika skuttogararekstrar. Er ætlunin, að ríkisstj. beiti sér fyrir á næstunni ráðstöfunum með löggjöf og samningum og samráði við aðila innan sjávarútvegsins til þess að leysa þessi vandamál, gera sérstakar ráðstafanir til að snúast við olíukostnaðarvanda útvegsins, auka sveigjanleika verðjöfnunarkerfisins, til þess að unnt sé að mæta rekstrarhalla frystingar með greiðslu að hluta úr Verðjöfnunarsjóði og draga þannig úr þörfinni fyrir gengisbreytingu, tryggja Tryggingasjóði fiskiskipa nauðsynlegar tekjur, bæta fjárhag skuttogaranna, bæði með ráðstöfunum á gengishagnaði og með öðrum hætti. Þegar á öll þessi atriði er litið, er talið í heild nauðsynlegt af hálfu Seðlabankans að skrá gengið svo sem ákveðið hefur verið.

Talið er, að sú gengislækkun, sem nú hefur verið ákveðin, færi sjávarútveginum 4800 millj. kr. auknar tekjur. Á móti kemur hækkun á rekstrarkostnaði, 1600 millj. kr., þannig að nettóáhrifin eru jákvæð um 3200 millj. kr.

Ég þarf ekki að rekja hér, hvernig viðskiptajöfnuðurinn við útlönd hefur þróast,en sú þróun hefur haft í för með sér, að greiðslujöfnuðurinn hefur farið hraðversnandi og gjaldeyrisforði landsins síminnkandi.

Í sambandi við einstakar greinar frv. tel ég rétt að gera grein fyrir því, að talið er, að sá gengismunur, sem um er rætt í 2. gr. frv. og mun mynda þann sjóð, sem þar er rætt um, miðast við birgðir afurða og ógreiddan útflutning, þegar gengisbreyting fer fram. Síðustu upplýsingar, sem fyrir liggja um þetta efni, eru frá 31. júlí s.l., en þá voru birgðir sjávarafurða taldar að verðmæti um 5500 millj. kr. og ógreiddur útflutningur rúmlega 2400 millj. kr. eða samtals 7900 millj. kr. Nokkur óvissa hlýtur að ríkja um mat á verðmæti birgðanna, þar sem óvíst er um hugsanlegt söluverð stórra vöruflokka, svo sem loðnumjöls og freðfisks. Sé hins vegar miðað við töluna 7900 millj. kr., verður gengismunur af völdum þessarar gengisbreytingar nálægt 1620 millj. kr. Samkv. lauslegum áætlunum færu um 100 millj. kr. til greiðslu samkv. a-lið 2. gr., þ.e.a.s. til greiðslu á hækkun á flutningskostnaði útflutningsafurða, 400 millj. kr. til greiðslu samkv. b-lið, þ.e.a.s. til að verðtryggja innstæðu Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins samkv. lagaskyldu, og loks um 300 millj. kr. til greiðslu samkv. c-lið, þ.e.a.s. vegna niðurgreiðslna á olíu til fiskiskipa fram til 1. okt. n.k., þannig að eftir stæðu um 820 millj. kr. til ráðstöfunar í þágu sjávarútvegsins samkv. sérstökum lögum. En í því sambandi hefur einkum verið rætt um þrennt: a) Að auðvelda eigendum skuttogara að standa í skilum með greiðslur afborgana og vaxta af stofnlánum. b) Að greiða hluta gengistaps vegna erlendra skulda eigenda fiskiskipa. e) Að greiða úr greiðsluerfiðleikum fiskvinnslufyrirtækja, sem átt hafa í söluerfiðleikum á árinu 1974. Þetta mál verður að sjálfsögðu kannað nánar á næstunni.

Ég vil svo leggja áherslu á, að þessa gengislækkun ber að skoða sem einn lið í samræmdum heildaraðgerðum í efnahagsmálum, sem ríkisstj. mun beita sér fyrir og hafa það markmið að ná öruggu jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Herra forseti. Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn. þessarar d., og ég vil ítreka þá ósk við hv. þdm. að greiða fyrir afgreiðslu málsins, þar sem þetta mál er sérstaks eðlis og venja er að reyna að flýta afgreiðslu slíkra mála.