02.09.1974
Efri deild: 11. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

8. mál, söluskattur

Frsm. 2. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breytingu á söluskatti er fyrsta mál hæstv. fjmrh., sem hann flytur hér á Alþ., og það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur, að ill er hans fyrsta ganga. Þessi ákvörðun um hækkun söluskatts er áberandi hroðvirknislega undirbúin og lýsir furðulegu stefnuleysi í fjáröflun ríkissjóðs. Svo virðist vera, að frv. þessu hafi verið flaustrað saman, að vísu á skömmum tíma, og í grg: frv. er er ekki að finna neinar upplýsingar til rökstuðnings þessari ákvörðun, og ekki hafa fengist á þeim skamma tíma, sem gefist hefur til skoðunar á þessu máli, neinar þær tölulegu upplýsingar, sem gera það að verkum, að hægt sé að skoða þetta frv. í eðlilegu og réttu ljósi og skilja, hvaða rök liggi því að baki.

Hér er um að ræða 2% hækkun söluskatts, og nú skyldi maður ætla, að þessi ákvörðun væri hugsuð sem varanleg ráðstöfun, enda segir það sig sjálft, að heldur er óhægt um vik að lækka söluskattsprósentu eða hækka eftir því, hvernig á stendur hverju sinni, Verður að sjálfsögðu að ganga út frá því, þegar um er að ræða hækkun á söluskatti, að sú hækkun standi til frambúðar. En á ársgrundvelli mun þessi skattaukning, sem frv. gerir ráð fyrir, nema a.m.k. 1800 millj., miðað við núverandi verðlag, og sennilega er þar um allmiklu hærri upphæð að ræða.

Í grg. frv. er aftur á móti engin tilraun gerð til þess að rökstyðja þessa viðbótarskattheimtu frá langtímasjónarmiði. Þar er einungis greint frá því, að þörf sé á fjármagni til sérstakra tímabundinna þarfa, og þar eru einkum greindar þrjár ástæður: Í fyrsta lagi niðurgreiðsla landbúnaðarafurða, í öðru lagi bágur fjárhagur Vegasjóðs og í þriðja lagi rekstrartap Rafmagnsveitna ríkisins. Um þessi vandamál er það að segja, að eftir því sem ég veit best er enn ekkert ákveðið um það, hvernig niðurgreiðslum landbúnaðarvara verður háttað á næstu mánuðum og hve miklar þær verða til áramótanna, en þó yfirlýst, að niðurgreiðslurnar eigi að lækka verulega, og sýnist, að hyggilegra hefði verið að ákveða fyrst, hvernig þessu yrði háttað, áður en farið væri út í tekjuöflun, sem þannig er rökstudd.

Hvað snertir fjárhag Vegasjóðs og Rafmagnsveitna ríkisins, þá er öllum hv. alþm. kunnugt um, að fyrir þinginu liggja frumvörp, sem snerta báðar þessar stofnanir og eru ætluð til þess að bæta fjárhag þeirra og tryggja þeim varanlega tekjustofna, þannig að ljóst er, að þó að þessar ástæður séu tíndar til, getur söluskattsaukningin aðeins átt að renna til þessara þarfa rétt til bráðabirgða og varla getur verið ætlunin, að þessi viðbótarskattheimta verði varanlegur tekjustofn fyrir ríkissjóð til þessara þarfa. Það er því ljóst, að út frá langtímasjónarmiði, út frá því sjónarmiði, að verið er að auka skattheimtu ríkisins allverulega á ársgrundvelli, hafa engin rök verið fram færð fyrir því. Hitt skal aftur á móti viðurkennt, að greiðslustaða ríkissjóðs er erfið um þessar mundir og vafalaust er óhjákvæmilegt, að gerðar verði ráðstafanir til annaðhvort að minnka ríkisútgjöldin eða fylla í það skarð, sem fyrir er og við virðist blasa. En þar er fyrst og fremst um skammtímaaðgerð að ræða og tekjuöflunin ætti þar af leiðandi að miðast við, að um væri að ræða tekjuöflun til skemmri tíma.

Nú fyrir helgina var ákvörðun tekin um gengisbreytingu íslensku krónunnar, og erlendur gjaldeyrir hækkar í verði um tæplega 21% og erlendar vörur um fast að því sömu hlutfallstölu, líklega rétt innan við 20%. Gengisbreytingin mun að sjálfsögðu hafa í för með sér verulega auknar tekjur fyrir ríkissjóð, og þótt að sjálfsögðu blasi við hverjum sem er, að gjöld ríkissjóðs muni einnig aukast nokkuð, þá mun engin neita því, að tekjurnar aukast allmiklu meira. Fyrr í sumar voru veittar upplýsingar um það, að miðað við 15% gengisfellingu mundu tekjur ríkissjóðs fram að áramótum aukast um 300–400 millj. kr. nettó og á ársgrundvelli um fast að 1000 millj. við afgreiðslu þessa máls hafa hins vegar engir útreikningar eða áætlanir legið fyrir um þessa hlið málanna. Á fundi n. í morgun var að vísu svipuð tala nefnd og áður hafði verið nefnd, en með hliðsjón af því, að þessi gengisbreyting er augljóslega allmiklu meiri en útreikningarnir, sem fyrri talan, sem ég nefndi hér áðan, var miðuð við, þá hefði verið æskilegt að fá nýja útreikninga um þetta atriði. En hver svo sem talan er, þá er það vitað, að ríkissjóður fær upp í það skarð, sem við blasir, talsverðar viðbótartekjur vegna gengisbreytingarinnar.

Til þess að fylla í það skarð, sem hér um ræðir, væru kannske fleiri úrræði til, og eitt væri það að draga nokkuð úr ríkisútgjöldum og skjóta framkvæmdum á frest. Ég man ekki betur en það hafi verið eitt aðaláróðursmál Sjálfstfl. á s.l. vetri, að minnka bæri ríkisútgjöldin og skera niður framkvæmdir ríkisins, og ég á því dálítið bágt með að skilja, hvers vegna þetta úrræði er nú algerlega gleymt og grafið. Það skal að vísu viðurkennt, að það er orðið erfiðara um vik að draga saman seglin að einhverju marki, þegar svo langt er liðið á árið. En miðað við það, að Sjálfstfl. taldi möguleika á því að minnka ríkisútgjöldin um 1500 millj. fyrr á þessu ári, þætti mér ekki óeðlilegt, að hinn nýi fjmrh. gerði það að sínu fyrsta verkefni að reyna að minnka útgjöldin, þótt ekki væri um nema nokkur hundruð millj. kr. Hitt má vera, að þótt gripið yrði til þessa ráðs, þá drægi það ekki lengra en svo, að óhjákvæmilegt teldist að auka nokkuð skattlagningu ríkisins.

Þá vil ég leggja áherslu á það, að eins og á stendur er sjálfsagt og eðlilegt, að ekki verði nú um að ræða aukna skatta á almennar neysluvörur almennings. Ef óhjákvæmilegt er að auka skattlagningu vegna afkomu ríkissjóðs á þessu ári, ætti að sjálfsögðu að vera um að ræða skattlagningu á einhverja tegund eyðslu, sem flokkast getur til munaðar. Og eins væri ekki óeðlilegt, að reynt væri á þessum tímum, sem nú ganga yfir, þegar til fellur verðbólgugróði í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr, að skattleggja hann meira en gert er. En hitt er að sjálfsögðu algerlega fráleitt, að ætla sér að hækka allt verðlag í landinu með söluskattsaukningu einungis vegna tímabundinna erfiðleika ríkissjóðs.

Á fundi n. í morgun nefndi fulltrúi fjmrn. það sem hugsanlega röksemd fyrir hækkun söluskattsins, að lántökur opinberra stofnana og ríkisins væru orðnar svo miklar á þessu ári, að óhjákvæmilegt væri að auka innlendan sparnað, og gaf bar með í skyn, að þessi söluskattshækkun væri efnahagsleg ráðstöfun til þess fallin að draga úr erlendum lántökum, sem væru orðnar óhóflega miklar á þessu ári, og hæstv. forsrh., formaður n., tók sterklega undir þessi orð fulltrúans úr fjmrn. og hafði uppi fullyrðingar um það á nefndarfundinum, að lántökur ríkisins væru á þessu ári óhóflega miklar og stefndu fjárhag og þá einkum væntanlega lánstrausti landsmanna í voða. Ég sé sérstaka ástæðu til að mótmæla þessum fullyrðingum sem röngum. Ég get tekið undir það, að lán tekin hjá erlendum aðilum hafa að sjálfsögðu hækkað verulega, og það er auðvelt að sýna fram á það, að þar sé um töluvert hærri fjárhæðir að ræða en áður var. En ég tel þó, að miðað við ört vaxandi þjóðartekjur landsmanna og ört vaxandi útflutningstekjur sé ekki um neinn háska að ræða. Við umr. um erlendar lántökur á s.l. þingi kom m.a. til umr., hvernig þessi mál stæðu í byrjun ársins, og í þeim umr. upplýsti ég, að samkv. nýlegum skýrslum Seðlabankans væri um að ræða, að hlutfallstala erlendra lána miðað við verga þjóðarframleiðslu hefði farið lækkandi á undanförnum árum. Samkv. tölum Seðlabankans var hlutfallstala erlendra lána miðað við verga þjóðarframleiðslu 34% árið 1969, 26% árið eftir, hækkaði síðan í 27, fór aftur niður í 26 árið 1972, var komin niður í 24 árið 1973 og er áætluð í ársbyrjun 23 á árinu 1974, sem sagt lækkandi hlutfallstala á stjórnartímabili fráfarandi stjórnar. Með þessar tölur í huga er erfitt að telja mönnum trú um, að um einhvern háska eða voða sé að ræða.

Á þetta mál má einnig líta frá öðru sjónarmiði, þ.e.a.s. hversu þung greiðslubyrðin er, sem hvílir á landsmönnum vegna erlendra lána, og þá er venjan að miða við hlutfallsgreiðslubyrði af útflutningstekjunum, eins og þær eru á hverjum tíma. Þær tölur litu þannig út, að hlutfall greiðslubyrði erlendra lána miðað við útflutningstekjur var tæplega 17% árið 1969, en fór niður í 11% árið 1970, niður í 10% 1971, upp í 11% 1972, niður í 10% 1973 og er áætlað á árinu 1974 11.4%, sem er sem sagt svipað og hefur verið um langt skeið, þ.e.a.s. frá 1970, nokkurn veginn alveg sama hlutfallstala greiðslubyrði af útflutningstekjum og talsvert miklu minna en var á árinu 1969. Þá var greiðslubyrðin, eins og ég sagði hér áðan, 17%.

Ég hef aflað mér upplýsinga um það, hvernig þessar tölur líti út í dag, hálfu ári eftir að þessar umr. fóru fram hér á Alþ., gerði fsp. um þetta efni á fundi n. í morgun og hef nú aðeins fengið munnleg svör, en á eftir að fá þau skrifleg, en væntanlega verður þessari umr. hér í d. lokið, áður en svo verður. En ég má hafa það eftir þeim, sem upplýsingarnar veitir, Ólafi Tómassyni í Seðlabankanum, að samkv. áætlunum Seðlabankans er enn í dag áætlað, að hlutfall greiðslubyrði af útflutningstekjum verði áfram svipað og áður var ráð fyrir gert, þ.e.a.s. um 11.4%, og sýna þessar tölur eins ljóst og verða má, að það að ætla sér að rökstyðja 2% söluskattshækkun með því, að þjóðin sé að fara á hausinn og sé búin að setja sig í einhverja hengingaról út af erlendum lántökum og nú verði að fara að reyna að smala þessu saman á innlendum peningamarkaði, er auðvitað hrein bábilja og ekkert annað, neyðarrök, ef svo mætti segja, eða öllu heldur falsrök.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta frv. Ég held því hiklaust fram, að þessi hækkun sé algerlega órökstudd frá sjónarmiði ríkisfjármála, ef horft er á fjármálin á ársgrundvelli, og engin efnahagsleg rök hafa enn komið fram þessari hækkun til stuðnings, síst af öllu þau rök, að erlendar lántökur séu orðnar óhóflega miklar. Hitt er ljóst, að með því að hækka verðlag í landinu um tæplega 2% með þessari söluskattsaukningu, þá er beinlínis verið að auka þann vanda, sem við er að eiga í efnahags- og kjaramálum og gera erfiðara fyrir allt láglaunafólk að ná saman endunum, þannig að hiklaust má telja, að það muni leita réttar síns eftir öðrum leiðum til þess að fá þessa kjararýrnun bætta, ef það verður ekki fyrir því séð af stjórnarherrunum. Flest bendir sem sagt til þess, að þessi ákvörðun, sem er óvenjulega hroðvirknislega undirbúin, muni auka vandann frekar en að minnka hann. Með allt þetta í huga hef ég lagt til í nál., sem ég hef ritað, en hefur enn ekki verið prentað sökum þess, hve skammur tími er liðinn, frá því að nefndarfundurinn var haldinn, — þá hef ég lagt til, að frv. verði fellt.