03.09.1974
Neðri deild: 12. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

8. mál, söluskattur

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fyrir helgina fóru fram umr. í þessari hv. deild almennt um stjórnmálaástandið, ástand efnahagsmála, afkomu atvinnuveganna og þróun peningamálanna í landinu. Umr. þessar áttu sér stað vegna frv. þess, sem ríkisstj. flutti, eftir að breytt hafði verið gengisskráningu íslensku krónunnar sem afleiðing af því efnahagsástandi, sem hér hefur verið um nokkurt skeið.

Ég sé ekki ástæðu til þess, að hefja umr. á breiðum grundvelli í sambandi við efnahagsmálin. En hér liggur fyrir til umr. frv. til l. um hækkun söluskatts, en það hefur fallið í minn hlut í þeirri ríkisstj., sem nýlega hefur tekið við, að gæta ríkissjóðs og reyna að haga þannig málum, að hann beri ekki skarðan hlut frá borði og útkoma hans verði með þeim hætti, að til hagsbóta geti orðið efnahagsástandi og efnahagslífi þjóðarinnar. En það hefur einnig verið ljóst, að afkoma ríkissjóðs hefur farið mjög versnandi á síðustu mánuðum, m.a. sem afleiðing af því ástandi, sem ríkt hefur.

Vandamál ríkissjóðs það sem eftir er þessa árs er um það bil 3 milljarðar, og verði ekkert að gert, má gera ráð fyrir því, að hallarekstur yrði á ríkissjóði, sem næmi 1 milljarði. Til þess að fyrirbyggja, að svo verði, mun ríkisstj. nú á næstu vikum gera till. þar um og freista þess að fyrirbyggja, að til hallarekstrar þurfi að koma, og gera ýmsar ráðstafanir þar að lútandi. En það fer ekki hjá því, að ríkissjóði verði að afla aukinna tekna, ef þetta dæmi á að geta gengið upp eins og æskilegt er. Fyrir því er það frv. flutt, sem hér er til umr., um hækkun á söluskatti. Í frv. er lagt til, að söluskatturinn verði hækkaður um 2% stig, úr 11% í 13%. En eins og fram kemur í aths. við frv., er 1% viðlagagjald, 1% gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana og 4% söluskattsauki einnig lagt á sama gjaldstofu og söluskattur.

Til athugunar kom að bæta hækkun þeirri, sem hér um ræðir, við söluskattsaukann, en frá því var horfið. Að ráði varð að leggja til hækkun á söluskattinum sem slíkum. Réð þar tvennt: Í fyrsta lagi er söluskattsaukinn tengdur sérstökum kjarasamningum, og mun eigi við honum hróflað án undangenginna viðræðna við aðila vinnumarkaðarins. Og í öðru lagi eiga sveitarfélögin enga hlutdeild í tekjum af söluskattsauka, en fá hins vegar 8% af hinum almennu söluskattstekjum í sinn hlut.

Fjárhag sveitarfélaganna er einnig nú svo komið, að full þörf er á að taka þar af nokkurt mið, þegar hreyft er við tekjustofnum ríkisins. Sennilega hefur þm. aldrei verið eins ljós þörf ríkissjóðs fyrir auknar tekjur og nú. Allir þingflokkar hafa að undanförnu tekið þátt í tilraunum til stjórnarmyndunar. Skýrslur hafa legið frammi um ástand og horfur efnahagsmála og afkomuhorfur ríkissjóðs. Þingmönnum má því vera ljóst, að brýnna aðgerða er þörf til að afla ríkissjóði tekna og það tekna, er til skila koma í ríkissjóð á þessu ári.

Undanfarna viku hefur skuld ríkissjóðs á aðalviðskiptareikningi við Seðlabankann aukist mjög og nam mest tæpum 3 milljörðum kr. Að hluta til má skýra þessa erfiðu stöðu með miklum framlögum ríkissjóðs til ríkisfyrirtækja umfram það, sem ætlað var í fjárlögum. Niðurstaða launasamninga við starfsmenn ríkisins lá ekki fyrir fyrr en í maí–júní, en laun varð að greiða samkvæmt þeim frá áramótum. Loks hafa þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar þóttu til að halda efnahagslífinu í skefjum nú í sumar, þ.e.a.s. viðnámslögin, haft gífurleg útgjöld fyrir ríkissjóð í för með sér. Hefur jafnan verið á það treyst, að nú á haustmánuðunum yrðu gerðar ráðstafanir til þess að rétta nokkuð af þennan halla.

Sú hækkun, sem hér um ræðir á söluskatti, gefur ríkissjóði um það bil 140 millj. kr. tekjur á mánuði. Eindagi söluskatts er 25. dagur næsta mánaðar eftir að neytandinn er krafinn um skattinn, svo að ljóst er, að í ár mun þessi hækkun ekki öll skila sér í ríkissjóð nema fyrir tvo mánuði, fáist frv. samþykkt. Tekjur ríkissjóðs á þessu ári af hækkuninni verða því tæpar 300 millj. eða milli 260 og 300 millj. kr.

Eins og frv. nú liggur fyrir í þessari hv. deild, var á því gerð breyting í hv. Ed., þannig, að gert er ráð fyrir því, að þessi söluskattshækkun taki ekki gildi fyrr en 1. okt. n.k. eða eftir að ráðstafanir hafa verið gerðar í sambandi við efnahagsmálin, sem nú eru til meðferðar hjá hæstv. ríkisstj.

Það er ekki ætlun mín að gefa á þessu stigi máls yfirlit yfir fjármál ríkisins. En eins og ég sagði áðan, hafa þm. undir höndum ítarleg gögn um ástand fjármála. Þá er og tiltölulega stutt í framlagningu fjárlagafrv. fyrir árið 1975, og mun þá gerð ítarleg grein fyrir stefnu þeirri í opinberum fjármálum, sem lögð verður til grundvallar rekstri ríkissjóðs á næsta ári.

Ég vil svo, herra forseti, að lokinni þessari umr. leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjh.- og viðskn.