03.09.1974
Neðri deild: 12. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

8. mál, söluskattur

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mjög þessar umr., en get þó ekki orða bundist og vildi mega segja við hv. 5. þm. Vestf., að þeim mun fleiri mínútum sem hann eyðir í að lesa upp ræður þm. Sjálfstfl., þeim mun betra. Hann mætti vissulega vera heima og lesa þingtíðindin, sjá, hvað þar hefur verið sagt, og allt það, sem hann las upp, gæti hann að mínum dómi haft sér til fyrirmyndar í sambandi við sinn málflutning.

Í ræðu hv. 2. landsk. þm., Benedikts Gröndals, kom fram, að núv. ríkisstj. hefði lagt á þjóðina þunga pinkla á ekki fleiri dögum en ríkisstj. hefur setið. Við erum að fjalla um þrjú frumvörp, og það er ekki úr vegi, að hv. 2. þm. Austf. skoði um leið með hvaða hætti þessi frv. hafa verið lögð fram. Hv. 2. landsk. þm., Benedikt Gröndal, vildi gjarnan láta líta svo út, að þær álögur, sem vissulega felast í þessum frv., séu fluttar af núv. ríkisstj. og vegna ákvarðana hennar.

Ég vil þá fyrst vekja athygli á því, að frv. það, sem þessi hv. d. fjallar um, þ.e.a.s. um verðjöfnunargjald á raforku, er flutt af hæstv. fyrrv. iðnrh., Magnúsi Kjartanssyni, og er að mínum dómi hans mat á stöðu Rafmagnsveitna ríkisins, hverjar svo sem orsakirnar eru til þess, að þetta frv. þarf að flytja. Það er hins vegar okkar skoðun, þingflokka ríkisstj., að þetta frv. þurfi að samþykkja, það sé staðreynd, að Rafmagnsveitur ríkisins þurfi á þessu fjármagni að halda. Tel ég mig hafa vísað þessu frv. og þeim pinklum, sem því fylgja, lagðir á þjóðina, til annarrar ríkisstj. en þeirrar, sem nú situr.

Ef við tökum frv. um bensíngjaldið, þá er það líka flutt fyrir valdatöku núv. ríkisstj. og sýnir okkur, hvernig Vegasjóður er kominn í sambandi við þær framkvæmdir, sem hafa verið fyrirhugaðar á þessu ári. Ég held, að það séu engar ýkjur, að Vegasjóður þurfi á þessu fjármagni að halda og miklu, miklu stærri upphæð, ef vegáætlunin ætti að standast, ef hægt væri að framkvæma það, sem gert var ráð fyrir í vegáætlun. Það er hins vegar ljóst mál, að það tekst ekki. Verðbólgan hefur séð fyrir því. Það aukna bensíngjald, sem það frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir, mun ekki bæta nema örlitið upp það, sem tapast hefur vegna þeirrar verðbólgu, sem hefur verið í landinu og m.a. hv. 5. þm. Vestf. hefur svo dyggilega stutt.

Þá komum við að því frv., sem hér er til umr. og hefur verið það frv., sem á míg hefur mest verið deilt fyrir. Ég flyt þetta frv. sem mitt fyrsta frv. Ég hefði gjarnan viljað vera laus við það. En sá arfur, sem við er tekið, m.a. vegna stjórnarstefnu hv. 2. þm. Austf., er með þeim hætti, að þessara tekna verður að afla til þess m.a. að mæta þeim vanda, sem ríkissjóður stendur frammi fyrir. Vel má vera, að ég hafi mismælt mig, ég held þó ekki, en ég tók skýrt fram, að vandi ríkissjóðs mundi verða langt í 3 milljarða, ekki halli ríkissjóðs, heldur vandi ríkissjóðs, ef ekkert væri að gert. Þar skilur á milli beins halla ríkissjóðs og þeirra greiðslna, sem ríkissjóður hefur orðið að taka á sig fyrir ýmsar ríkisstofnanir, sem hafa ekki getað staðið við skuldbindingar sínar, vegna þess að við höfum lifað í landi, þar sem verðbólgumet hafa verið slegin.

Verðbólgan á árinu 1974 mun sennilega verða milli 40 og 50%. Halda menn, að hægt sé að standa frammi fyrir fjárhagsáætlunum, sem gerðar eru á árinu 1973, reiknandi þá kannske með 20–30% verðbólgu, halda áfram framkvæmdum og þær komi hvergi niður? Jú, það er ríkissjóður, sem þarna verður að hlaupa undir baggann, og það er eitt af vandamálunum, sem við er að glíma og við var tekið í s.l. viku.

Ég vonast nú til þess, að hv. þm. Benedikt Gröndal geri sér grein fyrir því, að það er ekki illmennska núv. fjmrh. eða núv. ríkisstj., sem kemur fram í frv. þeim, sem hér eru til umr., hann gerir sér miklu fremur grein fyrir því, að hér er vandamál, sem við verðum að glíma við og við sjálfstæðismenn höfum tekið að okkur að reyna að leysa með því stjórnarsamstarfi, sem stofnað var til í s.l. viku. En þá spyr ég: Er þetta alveg nýtt fyrir hv. þm.? Ég fullyrði, að svo er ekki. Það mætti segja mér, að í þeim stjórnarmyndunartilraunum, sem fram fóru, áður en Sjálfstfl. og Framsfl. hófu stjórnarmyndunartilraun sína, hafi þessi mál öll verið tekin til meðferðar og þeim aðilum, sem þar tóku þátt í, gerð grein fyrir því, hvernig staða t.d. Rafmagnsveitna ríkisins væri, hvernig staða Vegasjóðs væri og hvernig staða ríkissjóðs væri, einfaldlega vegna þess, að það er öllum ljóst, að efnahagsástand íslensku þjóðarinnar er óglæsilegt og hefur verið. Það mætti líka segja mér, að allir þeir menn, sem í þessum umr. tóku þátt, hafi verið meira og minna búnir að samþykkja að standa að þessum frumvörpum, ef þeir tækju þátt í myndun ríkisstj. Þá sýnir þetta okkur enn betur þau látalæti, sem hér hafa verið höfð í frammi af fulltrúum stjórnarandstöðunnar.

Það var vikið að því hér áðan af hv. 2. þm. Austf., að það hlyti að vera auðvelt fyrir ríkisstj. fyrir sjálfstæðismennina í ríkisstj., að spara sem næmi þeim tekjum, sem ríkissjóður fær miðað við hækkaðan söluskatt. Það er rétt aths. hans, að það er sjálfsagt að spara, og hluta þess vanda, sem ríkissjóður á við að glíma, verðum við að leysa einmitt með því að draga úr framkvæmdum. Hitt er svo annað mál, að það er svo langt liðið á þetta ár, að það er mjög erfitt að koma við sparnaði á framkvæmdum, sem þegar hafa átt sér stað jafnvel og þegar er byrjað á. En það verður að sjálfsögðu eitt af því, sem núv. ríkisstj. hefur til athugunar og skoðunar til lausnar vanda ríkissjóðs, að dregið verði úr útgjöldum.

Varðandi orð hv. 2. landsk. þm., Benedikts Gröndals, um setu ráðh. í nefndum Alþ., þá verð ég að segja, að það kom mér spánskt fyrir sjónir, að slíkar aths. skyldu gerðar undir þessum kringumstæðum. Ég minnist þess ekki, að þessi hv. þm. risi hér upp á s.l. þingi, þegar ráðh. þá var kosinn í n., — ekki eins og er í dag, að þeir ráðh., sem sitja í þn., voru kosnir í þær sem þm. Ég er ekki með þessari aths. minni að hafna hugmynd hv. 2. landsk. þm., Benedikts Gröndal. En þegar menn rísa upp og hugsa sér að vekja nú athygli á því, hvernig ríkisstj. fari með Alþ., þá verða menn að vera sjálfum sér samkvæmir. Þeir verða þá alla þá tíð, sem hlutirnir hafa gerst með svipuðum hætti, að hafa staðið hér upp til að gagnrýna. Ég vek athygli á því, að á síðasta þingi var kosinn ráðh. í þn. Ég skal ekki fullyrða, að það hafi ekki áður skeð á Alþ., þegar slíkar kringumstæður hafa verið fyrir hendi sem nú, að ráðh. hafi setið í þn. til þingloka. Það er sjálfsagt að skoða þessi mál, og ef sá ágæti maður, skrifstofustjóri Alþingis, segði okkur, að venja hafi verið, að ráðh. vikju úr þn., um leið og þeir hefðu tekið sæti í ríkisstj., þá er auðvitað sjálfsagt að gera það. En ég held, að sú venja hafi verið, að þm., sem orðið hafa ráðh., sætu í n., þar til þingi því væri lokið.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta frv. Ég vonast til þess, að sú n., sem þetta frv. fær, geti fengið allar þær upplýsingar, sem óskað er eftir, og geti metið málið sem slíkt, og þeir þm., sem í n. sitja, geti byggt afstöðu sína á þeim upplýsingum, sem þeir fá með tilliti til málsins.