03.09.1974
Neðri deild: 12. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

3. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég mun ekki orðlengja mjög um þetta mál. Hæstv. samgrh. hefur reifað meginatriði þess, hvers vegna þetta breytingafrv. er fram komið á þessu þingi, sem eins og hann gat um var nánast fyrir leiðinleg mistök í málatilbúnaði og afgreiðslu á síðasta hv. Alþ. Ég kveð mér hljóðs fyrst og fremst til þess í fáeinum orðum að láta í ljós ánægju mína og þakklæti fyrir það, hve þetta mál hefur átt góðum skilningi og stuðningi að mæta hjá hlutaðeigandi aðilum, ég vil segja bæði innan þings og utan, reyndar að frátalinni smátöf í Ed. Alþingis vegna afstöðu tveggja hv. þm., flokksbræðra minna raunar, sem ég hygg, að hafi stafað af ókunnugleika þeirra í málinu frá upphafi.

Ég vil þakka hæstv. fyrrv. fjmrh. og núv. samgrh. fyrir hans skjótu fyrirgreiðslu um 25 millj. kr. bráðabirgðalán þrátt fyrir fjárhagsþrengingar ríkissjóðs undanfarna mánuði til að halda áfram vinnu í Djúpvegi, sem ella hefði stöðvast í byrjun ágústmánaðar sökum fjárskorts. Réttum mánuði áður, þ.e. viku af júlí, var ég stödd inni í Hestfirði, þar sem aðalframkvæmdir við veginn hafa farið fram á þessu sumri, og sá þar að verki dugandi verkstjóra með fullan vinnuflokk og stórvirkar vinnuvélar, sem yfir vofði vinnustöðvun um mitt sumar í einmunatíð af fyrrgreindum fjárhagsástæðum. Sú vinnustöðvun hefði gert að engu ákveðnar vonir Djúpmanna og raunar allra Vestfirðinga um, að hringvegi um Vestfirði yrði lokið á þessu ári eða í síðasta lagi á næsta sumri.

Þegar undirbúið var lokaátak í hringvegi um landið með vegalagningu og brúargerð yfir Skeiðarársand sem þjóðhátíðargjöf til íslensku þjóðarinnar, var gengið út frá tengingu Djúpvegar sem hluta í þeirri glæstu mynd, hluta af hinni veglegu afmælisgjöf til þjóðarinnar. Þegar svo um miðjan júlímánuð s.l. kom að opnun Skeiðarárvegarins í hástemmdum hátíðarræðum, á sama tíma og horft var fram á stöðvun á ófullgerðum Djúpvegi, þótti mörgum Vestfirðingum sem hreinlega hefði gleymst í bili a.m.k. sá hluti Íslands, sem er norðan Bitru- og Gilsfjarðar. Það hefði óneitanlega orðið heldur léleg efnd á þjóðhátíðarheitinu um hringveg í kringum landið, ef stöðvun á þessum hluta hans, Djúpveginum, á sjálfu þjóðhátíðarsumrinu hefði leitt til þess, að hann yrði raunverulega ekki opnaður fyrr en á árinu 1976. Við Vestfirðingar teljum því, að krafa okkar um áframhaldandi framkvæmdir við Djúpveg í sumar hafi verið réttmæt og sjálfsögð. Það, hve vel og skjótt var brugðist við þeirri kröfu, ber að þakka.

Á Vestfjörðum hafa vissulega verið unnin stórvirki í vegalagningu á undanförnum áratugum, þótt margt sé enn ógert á því sviði, ekki hvað síst með tilliti til þess, að auknar og bættar samgöngur eru ein aðalforsenda þess, að viðunandi lausn fáist á því neyðarástandi í læknaþjónustu og heilbrigðismálum, sem fólk í byggðum Vestfjarða hefur átt við að búa á undanförnum áratugum og hefur vafalaust átt sinn þátt í uggvænlegri fólksfækkun í þessum landshluta fram til skamms tíma.

Tenging Djúpvegar verður merkur áfangi í framþróun þessara mála, sem og í atvinnulegu og félagslegu tilliti, um það þarf engum blöðum að fletta. Við skulum setja okkur í spor manns, sem staddur er á Ísafirði og þarf að komast á bílnum sínu m inn í Ögur eða inn í Reykjanes. Það gæti verið bóndi innan úr Djúpi, læknir í lækniserindum, vörubílstjóri með farm af byggingarvörum eða ferðamaður úr Reykjavík. Þegar Djúpvegur verður fær, þarf þessi maður að fara 104 km leið inn í Ögur og um 140 km inn í Reykjanes. Í dag verður hann að aka sem leið liggur löngu leiðina, sem við köllum, suður um þrjá hæstu fjallvegi Vestfjarða, Breiðadalsheiði, Hrafnseyrarheiði, Dynjandisheiði, í Vatnsfjörð á Barðaströnd og þaðan inn með Breiðafirðinum kringum ótal firði og nes á mjög svo misjöfnum vegum, að ekki sé meira sagt, í Þorskafjörð, yfir Þorskafjarðarheiði og út með Djúpinu að sunnanverðu í Reykjanes og Ögur. Þessi leið er um 370 km og tekur um 8 tíma akstur. Jafnvel þótt þessi leið, sem ég talaði um, sé í senn tilkomumikil og fögur og hafi þannig sitt gildi fyrir forvitinn ferðamann og náttúruskoðanda, þá er óhagræðið augljóst frá almenningssjónarmiði og meira en tími til kominn, að úr sé bætt. Má í því sambandi benda á, að þessi vegur, Djúpvegurinn, hefur nú verið á döfinni í 28 ár eða frá því að leiðin yfir Þorskafjarðarheiði var opnuð árið 1946. Næstu ár þar á eftir var lögð áhersla á að tengja verstöðvarnar utanvert við Djúpið Ísafjarðarkaupstað, en Óshlíðarvegur til Bolungarvíkur var opnaður 1949 og vegurinn inn í Súðavík árið eftir. Síðan var haldið út með Djúpinu norðanverðu, út Langadalsströnd. Nú síðasta áratuginn hefur vegurinn mjakast hægt og sígandi út með Djúpinu að sunnan, og nú mun vart ógerður lengri en 10–15 km langur spotti, þ. á m. raunar tvær brýr yfir ár í botni Hestfjarðar og Seyðisfjarðar, til þess að endarnir nái — saman utan og innan frá. Þessi síðasti kafli vegarins liggur um mjög strjálbýlar sveitir. Í Inn-Djúpinu eru aðeins 4 fámennir sveitahreppar, svo að sjálfsagt verður arðsemi Djúpvegarins minni en sumir mundu vilja telja eðlilegt eða æskilegt. En ég bið guð að hjálpa okkar byggðastefnu í reynd, ef við ætlum endalaust að miða við höfðatölu íbúa við framkvæmd hennar og fjármögnun.

Herra forseti. Ég hef þessi orð ekki fleiri, en ég vænti þess, að þetta góða mál, þótt það láti ekki mikið yfir sér, þurfi ekki að hrekjast á milli fleiri þinga, en fái fullnaðarafgreiðslu á því aukaþingi, sem nú situr, þannig að unnt verði að hefja sem fyrst sölu þeirra happdrættisskuldabréfa að upphæð 80 millj. kr., sem frv. gerir ráð fyrir. Ég er sannfærð um, að Vestfirðingar munu ekki liggja á liði sínu við að veita þessu máli framgang.