04.09.1974
Efri deild: 13. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

10. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil taka það fyrst fram, að ég tel sjálfsagt að vísa þessu frv. til allshn. og mun greiða þeirri till. atkv., þar sem ósk hefur komið fram um það.

Stjórnarflokkarnir, Sjálfstfl. og Framsfl., hafa með stefnuyfirlýsingu ríkisstj. skýrt frá því, að nú þegar yrðu gerðar hinar brýnustu ráðstafanir til þess að tryggja atvinnuöryggi í landinu, og um leið hefur verið sagt frá því, að þessar brýnu ráðstafanir fælust í eftirtöldu: 1. Gengisbreytingu. 2. Fjáröflun til ríkissjóðs með 2% söluskattshækkun. 3. Verðjöfnunargjaldi á rafmagn. 4. Hækkun á bensíngjaldi.

Ríkisstj. er mjög vel ljóst, að með þessu er ekki ráðin bót á efnahagsvandanum í heild. Ég vísa til stefnuyfirlýsingar ríkisstj., sem segir, að ríkisstj. sé sammála um að taka sér nokkurra vikna frest til þess að taka ákvörðun og gera ráðstafanir í þeim flóknari atriðum, sem úrlausnar biða. Í þeim efnum hefur sérstaklega verið talað um vandamál togaraútgerðarinnar annars vegar og hvernig bregðast skuli við hinu háa olíuverði hins vegar. Það hefur enn fremur sérstaklega verið tekið fram, að nauðsynlegt væri að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins, áður en ákveðnar væru launajöfnunarbætur eða tryggingabætur eða fyrirkomulag á áframhaldandi niðurgreiðslum, áður en ákvarðanir í þeim efnum séu teknar. Þessi samráð eru nú að hefjast, og að loknum þeim samráðum við þau hagsmunasamtök, sem hlut eiga að máli, mun ríkisstj. taka ákvarðanir í þessum mikilvægu málum. Það fer auðvitað eftir því, hvaða sjónarmið koma fram í þeim víðræðum, sem nú eru að hefjast, hver niðurstaða ríkisstj. verður. Á þessu stigi málsins er því ekki um það að ræða, að fastmótaðar séu till, um lausnir í þessum úrlausnarefnum.

Ég þakka ábendingar, sem fram hafa komið frá hv. 1. landsk. þm. varðandi rekstrarerfiðleika bátaflotans og lánamál hans, og skal gera mitt til þess, að þau mál séu könnuð.