04.09.1974
Neðri deild: 14. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

6. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. meiri hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft þetta mál til athugunar og ekki náðst samkomulag um það í n., þannig að n. skilar tveimur nál., meiri og minni hl. Nál. meiri hl. er á þskj. 34, en til viðbótar því mun meiri hl. einnig flytja skrifl. brtt., sem ég mun lýsa hér á eftir.

Í þskj., sem merkt er 34, er að finna nokkrar brtt. frá meiri hl. n. Sú fyrsta er við 11. gr. og lýtur að 2. málsl. gr., þar sem segir: „Skráning, umskráning og skráning eigendaskipta bifreiðar skal ekki fara fram“ o.s.frv. Þarna er lagt til, að orðin „og skráning eigendaskipta“ séu felld niður, og er það gert í samræmi við álit fulltrúa dómsmrn., sem telja, að þetta eigi ekki þarna heima.

Þá er 2. brtt., sem er við 14. gr. Lagt er til, að hún orðist á þessa leið:

„Með lögum þessum eru úr gildi felld ákvæði XIV. kafla l. nr. 80/1973.“

Hér er um að ræða XIV. kafla í vegal. frá 1973, en hann fjallar um fjáröflun til vega- og gatnagerðar, eins og það frv., sem hér liggur fyrir, og er í raun og veru alveg shlj, að öðru leyti en því, að í kaflanum er ein gr., sem ekki er í frv. Það er 96. gr. í vegal., sem hljóðar á þessa leið:

„Tekjum samkv. l. þessum skal varið til vega- og gatnagerðar, að frádregnum hálfum hundraðshluta, er varið skal til rannsókna og tilrauna við vega- og gatnagerð undir stjórn vegamálastjóra.“

Það þykir ófært að taka þessa gr. upp í frv., sökum þess að það þykir rétt, að þessi fjárhæð, sem á að fara til rannsókna og tilrauna, sé ákveðin í vegáætlun hverju sinni. Þykir eðlilegt, fyrst sett eru sérstök lög um fjáröflun til vegagerðar, að þá falli tilsvarandi kafli niður úr vegal. Hér er raunverulega um formsbreytingu að ræða, eins og ég gat um áðan, að undanskildu því, sem ég gerði grein fyrir í sambandi við 96. gr.

Þá er loks lagt til, að í staðinn fyrir, að í frv. segir: „Lög þessi öðlast þegar gildi“ — komi: Lög þessi öðlast gildi 9. sept. 1974. — Það er gert vegna framkvæmdaástæðna.

Þetta eru þær brtt., sem meiri hl. n. ber fram á þskj. 34. En auk þess hefur orðið samkomulag um það hjá meiri hl. að bera fram frekari till. um breyt. á frv., en vegna þess, hve seint náðist samkomulag um það, verðum við að leggja þær fram skriflega. Þær till., sem meiri hl. leggur til, að verði gerðar til viðbótar þeim, sem eru á þskj. 34, eru þessar:

Við 1. gr., þar sem lagt er til, að sérstakt innflutningsgjald, bensíngjald, nemi 17 kr. af hverjum lítra, komi 16 kr. af hverjum lítra. Í samræmi við þetta er lagt til, að breyting verði á 5. gr., þannig að þar sem í a-lið hennar stendur, að fyrir bifreið allt að 2000 kg. að eigin þunga eða léttari greiðast 45 000 kr., komi 42 000 kr. og tilsvarandi lækkun verði á b-lið, fyrri bifreiðar 2000 kg. og þyngri greiðast 42 000 kr., og auk þess 1500 kr. fyrir hver full 100 kg umfram 2000 kg. — Þetta eru skrifl. brtt. — Svo er lagt til í þriðja lagi, að 8. gr. frv. falli niður, þar sem gert er ráð fyrir, að ráðh. skuli heimilt að hækka bensíngjald og þungaskatt í samræmi við vísitölu byggingarkostnaðar.

Með þessum breytingum, sem ég hef nú gert grein fyrir, leggur meiri hl. til, að frv. verði samþ.