04.09.1974
Neðri deild: 14. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

6. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það verður ekki hjá því komist og á kannske líka best við undir þessum dagskrárlið að vekja athygli á því, hvernig núv. meiri hl. á Alþ. hefur staðið að málatilbúnaði og vinnubrögðum í sambandi við þinghaldið, síðan sá meiri hl. skapaðist. Og það á kannske ekki síst við í sambandi við það mál, sem hér er nú verið að ræða.

Þessu máli var vísað til n. 22. ágúst s.l. Þar lá það í nær hálfan mánuð, án þess að fundur væri boðaður í þeirri n., en síðan boðað til fundar í gærdag, þá rúmlega hálftíma til klukkutíma fundar, og málið þar hespað af á þeim tíma. Síðan gerist það í gærdag, að fundum hér í þd. vegna ágreinings innan stjórnarliðsins einmitt um þetta mál er tvívegis frestað, svo að þaulreynt sé hjá stjórnarliðum að ná samkomulagi eftir allan þann tíma, sem þetta mál hefur legið til meðferðar hjá þeim. Í dag er þingfundi í þessari hv. d. frestað enn vegna ágreinings stjórnarliða um þetta mál, og er full ástæða til að vekja athygli á því, hver vinnubrögð hér eru viðhöfð af þeim meiri hl., sem nú ræður hér á hv. Alþ.

Það kom oft fyrir í tíð fyrrv. ríkisstj., að þeir hv. þm. Sjálfstfl. þá í stjórnarandstöðu, töldu sig hafa ástæðu til þess að gagnrýna vinnubrögð hjá þeim stjórnarflokkum, sem þá fóru með stjórn landsins. Ég fullyrði, að þó að kannske hafi margt mátt að þeim vinnubrögðum finna, þá komst það ekki í hálfkvisti við það, sem nú hefur gerst hjá núv. hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar. Og það er full ástæða til þess, — ég sé, að hæstv. fjmrh. kímir, og sjálfsagt veit hann, að hér er um satt mál að ræða og hér eru staðreyndirnar einar — en ég sá ástæðu til þess að vekja athygli á þessu. Ég skal ekki hafa fleiri orð um það, en snúa mér því að ræða það mál, sem nú er hér á dagskrá.

Það fer vart á milli mála, að þdm. hefur komið það nokkuð spánskt fyrir sjónir, að hv. 4. þm. Reykv., frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., skyldi á síðustu stundu, áður en málið kom fyrir hér í d., koma með og gera grein fyrir skrifl. brtt. við það nál., sem þeir voru sjálfir búnir að samþykkja á nefndarfundi fjh: og viðskn. í gærdag um að mæla með frv. óbreyttu frá því, sem það var lagt fram, að því er varðar hækkun bensínskatts, en meginatriði þess er um hækkun á bensíngjaldi um hvorki meira né minna en 7 kr. hvern lítra. Í því formi var frv. eins og það var lagt fram. Það er ástæða til að rifja það upp hér, að á s.l. vori var lagt fram frv. af þáv. ríkisstj. í sambandi við fjáröflun til Vegasjóðs. Þar var um að ræða ekki 7 kr. hækkun á lítra, heldur 4 kr. hækkun á bensínlítra. Það mál var þá stöðvað af þáv. stjórnarandstöðu, og var þar fremstur í flokki, að því er ég hygg, hv. 1. þm. Sunnl. Hefði þetta frv. náð fram að ganga, virðist liggja ljóst fyrir, að sú 4 kr. hækkun, sem það gerði ráð fyrir, hefði nægt til þess, að Vegasjóður næði saman endum á þessu ári og ekki hefði þurft að grípa til þess ráðs, eins og núv. stjórnarflokkar hyggjast gera, að hækka þetta gjald langt umfram það, sem gert var ráð fyrir. Það voru því þeir og þeir einir, sem komu í veg fyrir, að hægt væri að afgreiða þetta mál hér á Alþ. á s.l. vori. Það er því þeirra sök, og þeir eiga að bera ábyrgð á því einir, ef þeir telja nú, að það þurfi að hækka gjald á bensínlítra ekki bara um 4 kr., heldur 7 kr. Nú er að vísu þetta komið ofan í 6 kr., og má vera, að sá fjárhagsvandi vegasjóðs, sem núv. stjórnarlið taldi vera fyrir hendi í gærdag, hafi minnkað það verulega á þeim sólarhring, sem síðan er liðinn, að enn sé hægt að slá krónu af, og vildi ég leggja það á mig að vera hér einn daginn enn, ef með því móti væri hægt að koma því niður í 5 kr. á lítra.

Það liggja fyrir eða a.m.k. ég hef þær upplýsingar í höndum, að í þeim stjórnarmyndunarviðræðum, sem fram fóru milli vinstri flokkanna fyrir nokkru, var því haldið fram, og mér er ekki kunnugt um, að því hafi verið mótmælt, því var haldið fram af þáv. hæstv. fjmrh. og staðfest af þáv. hæstv. forsrh., að 5 kr. hækkun á bensínlítra mundi nægja til þess, að fjárhagsvandi Vegasjóðs væri leystur. Það kemur mér því spánskt fyrir sjónir, þegar hér er lagt fram á Alþ. frv. um að hækka um 2 kr. meira gjald á bensínlítra en þörf var talin á fyrir nokkrum dögum til þess að sjá Vegasjóði farborða.

Eins og greint var frá áðan af hv. 4. þm. Reykv. og frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., var fjh.- og viðskn. ekki sammála um þetta mál. Minni hl. telur, eins og fram kom áðan hjá mér, að 5 kr. hækkun á bensínlítra sé nú nóg, hafi hún, eins og upplýst hefur verið af fyrrv. hæstv. fjmrh., verið nóg fyrir nokkrum dögum. Í nál. á þskj. 32 er einnig víkið að því, hver sé valdur að því, ef það væri rétt, sem ég rengi, að nú þyrfti að hækka gjald á bensínlítra um 7 kr. Sú ábyrgð verður ekki tekin af þeim hv. þm. Sjálfstfl., því að þeir stóðu fyrir því að stöðva málið á Alþ. á s.l. vori. En fari svo, eins og við töldum allar líkur benda til, ef treysta mætti áliti og gerðum núv. meiri hl. hér á Alþ. frá degi til dags, að gjaldið yrði hækkað um 7 kr. á lítra, þá hefur verið dreift hér í d. brtt. þess efnis að 2 kr. af þessum 7, verði þær samþykktar, verði varið til varanlegrar gatnagerðar í þéttbýlisstöðum, þ.e. í bæjum og kauptúnum, sem skammt eru á veg komin með slíkar framkvæmdir. Við teljum, að þar sem það er upplýst og hefur ekki verið vefengt mér vitanlega enn, að nægileg hækkun á þessu gjaldi væri 5 kr. á lítra, ef meiri hl. Alþ. ætlar þrátt fyrir þessar staðreyndir að hækka þetta um meiri upphæð en hér um ræðir, þá eigi að leggja það til þeirra framkvæmda, sem hér um ræðir, það er varanlegrar gatnagerðar á þeim stöðum, sem eru skammt á veg komnir í þeim efnum.

Varðandi þá breytingu, sem nú er komin fram á síðustu stundu um að breyta úr 7 í 6, þá geri ég ráð fyrir, að við 3 þm. í þessari d., sem stöndum að brtt., höldum okkur við það, að 2 kr. af þessum 6 renni til þessa verkefnis.

Það hefur einnig verið um það talað og var að vísu í öðru frv., sem hér var lagt fram á Alþ. í vor, að jafnframt þessari breytingu ætti að afnema svo til alla aðra skatta af bifreiðum eða þau gjöld, sem bifreiðaeigendur þyrftu að greiða. Stjórnarliðið núv. hefur látið í það skína, að einnig slíkt mundi gerast við það, að þetta frv. yrði samþ. hér á Alþ. En það er nú ekki aldeilis svo. Það eina, sem kemur til með að falla niður af þeim gjöldum, sem nú eru, er þungaskattur af bensínbifreiðum. Öll önnur gjöld, sem á bifreiðaeigendum hvíla nú, munu standa áfram þrátt fyrir samþykkt þessa frv., sem hér er nú verið að ræða.

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. gat þess ekki, að n. hefði borist bréf frá bifreiðastjórafélaginu Frama, allítarlegt bréf, sem í er gerð grein fyrir sjónarmiðum þeirra leigubifreiðastjóra og aths. við lagafv. Engar líkur voru á því, þegar þetta var rætt í fjh.- og viðskn., að meiri hl. ætlaði sér að taka til greina neitt af því, sem þar var um fjallað, enda kom það berlega í ljós, þegar þess var ekki einu sinni getið af meiri hl., að slíkt erindi hefði borist n. Ég hef hér í höndum þetta bréf. Ég ætla ekki að fara að ræða það út af fyrir sig, en ég tel sjálfsagt, að það komi fram, að slíkt erindi barst n. og að þar eru ýmsar aths., sem þeir gera við þetta frv., sem ég hefði talið ástæðu til að skoða frekar.

Ég vil einnig geta þess, að á fundi fjh.- og viðskn. í gærdag taldi ég til þess ástæðu, að fengnar yrðu frekari upplýsingar eða réttara sagt fengnar yrðu upplýsingar um það, hvernig framkvæmdir Vegagerðarinnar á þessu ári standa og hvað er fyrirhugað að framkvæma. Meiri hl. fjh.- og viðskn. með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar taldi ekki ástæðu til þess, að slíkt yrði gert. Ég fyrir mitt leyti verð að segja það, að mér finnst, að hv. þm. eigi heimtingu á því, þegar verið er er ræða um svo stórkostlegar álögur eins og hér er gert ráð fyrir, að þeir fái á því skýringar, hvernig mál standa í þeim málaflokki, sem verið er að afla tekna til, og hvað á að gera. Þetta fékkst ekki, og mér finnst það með ólíkindum eftir allan þann tíma, sem liðinn er, síðan málinu var vísað til n., að það skyldi ekki vera hægt að koma á fundi, a.m.k. einum, til þess að nm. gætu fengið upplýsingar um það, hvað hér væri raunverulega á ferðinni og hvað ætti að gerast. Mér finnst, að þessi vinnubrögð boði ekki gott í framtíðinni. Ef núv. meiri hl. hér á Alþ. ætlar að halda áfram slíkum vinnubrögðum, þá þykir mér miður. En ég vona, að þetta breytist, eftir að menn eru sestir fastar í stóla og kannske búnir að átta sig frekar á því, sem um er að ræða.

Mér þykir það satt að segja undarlegt, hvernig að þessum málum hefur verið staðið af núv. meiri hl. hér á Alþ. Það er engu líkara en stjórnarflokkarnir hafi ekki að neinu leyti komið sér saman um það, sem þeir ætluðu sér að gera í sambandi við það, sem átti að afgreiða á Alþ. á þessu aukaþingi. Ég minnist þess, að í viðræðum um vinstri stjórn undir forsæti fyrrv. hæstv. forsrh. var engu líkara en allt þyrfti að negla niður alveg fast og ákvarðað í þeim viðræðum. En það er engu líkara en Framsfl. hafi í einu hljóði gengist undir það hjá Sjálfstfl., að allt væri opið og að Sjálfstfl. fengi að verulegu leyti, ef ekki öllu leyti að ráða því, sem gert yrði. Mér þykir þetta miður, af því að mér er hlýtt til margra hv. þm. Framsfl. og ekki siður margra kjósenda þess flokks, að Framsfl. eða forusta hans kannske réttara sagt, skuli á þennan hátt hafa lagst gersamlega undir feld hjá Sjálfstfl. og ætli að láta hann ráða í einu og öllu, hvað gert er í þessum efnum.

Forusta Framsfl., réttara sagt ráðh. hans í fyrrv. ríkisstj., töldu nægjanlegt að hækka þetta gjald á bensínlítra um 5 kr. Það var ekki fyrr en Sjálfstfl. var kominn í spilið með hv. 1. þm. Sunnl. í broddi fylkingar, sem stöðvaði málið hér í vor, að allt í einu var bætt 2 kr. við þetta. Það er því augljóst, hver hér ræður ferð, það er forustuflokkurinn í ríkisstj., Sjálfstfl.

Ég vil að síðustu geta þess, að afstaða okkar til þessa frv., sem hér er á ferðinni, fer að sjálfsögðu eftir því, hvernig fer um þá brtt., sem hér hefur verið drepið á, og gerð verður frekari grein fyrir á eftir. Verði sú brtt. ekki samþ., sem mér þykir þó undarlegt, ef ekki verður, með tilliti til þess, að í stjórnarliðinu sjálfu er hópur af dreifbýlisþm., sem ætla mætti, að vildu leggjast á eitt um að létta þann þunga róður, sem hin ýmsu kauptún og bæjarfélög víðs vegar úti um landið eiga nú í við að koma upp varanlegu gatnakerfi, þeir vildu leggjast á sveif til að stuðla að því, að tekjustofnar fengjust, til þess að þetta næði fram að ganga. Það verður vissulega að mínu áliti eftir því tekið, hvaða þm. stjórnarliðsins greiða atkv. gegn því, að slíkur tekjustofn fáist til þessara framkvæmda. Mér er sem ég sjái það, að þm. stjórnarliðsins, t.d. af Vestfjörðum, forustumenn þar í sveitarstjórnarmálum um langa hríð, geri það með glöðu geði að vera andvígir því að fá slíkan tekjustofn, sem þeir sjálfir hafa um langt árabil hamrað á, að einmitt þyrfti að koma til framkvæmda. Og ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á og sé það, að þessir hv. þm., sem ég hef nú verið að tala um, úr stjórnarliðinu láti binda hendur sínar svo, að þeir ætli að drepa þetta þjóðþrifamál, að hluti af þessari hækkun fari til framkvæmdar varanlegrar gatnagerðar í dreifbýlinu. En fari svo, að slíkt gerist, þá harma ég það ekki kannske fyrst og fremst þeirra vegna, heldur vegna þess fólks, sem við þarf að búa nú það ástand, sem margoft hefur verið lýst í þessum bæjarfélögum og kauptúnahreppum. Sem sagt, okkar afstaða til þessa máls fer eftir því, hver verða afdrif þeirrar brtt., sem hér hefur verið dreift og gerð verður grein fyrir á eftir.