23.07.1974
Neðri deild: 1. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

Kosning forseta og skrifara

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það mun hafa gerst áður, að forseti hefur verið kjörinn, þó að hann væri erlendis. En nú er sumarþing, mjög stutt þing. Það, sem áður hefur gerst, er, að forseti hefur verið mættur innan tíðar og stjórnað þingfundum allan veturinn. En ég hef heyrt, að hinn nýkjörni forseti Nd. sé staddur nokkuð langt í burtu, eða í Caracas í Venezúela, og jafnframt hefur frést, að fulltrúar Íslands muni verða þar alllengi. Þar sem þetta er aukaþing og væntanlega stutt þing, þá leikur mér forvitni á að fregna það hér, áður en lengra er haldið, og beini þá fsp. minni til hv. sjútvrh., sem hlýtur gerla að vita það, hvort hinn nýkjörni forseti Nd. sé væntanlegur fyrir lok þessa aukaþings. Ef svo er ekki, finnst mér, og ég hygg, að svo muni vera um fleiri í okkar hópi, allundarlega að farið við val á forseta Nd. á þessu þingi.

Ég vænti þess, að hæstv. sjútvrh. bæði geti og vilji gefa upplýsingar um það, sem ég hef spurt um.