04.09.1974
Neðri deild: 14. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

6. mál, fjáröflun til vegagerðar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 5.. þm. Vestf., sem talaði hér áðan, sagði, að meiri hl. fjh: og viðskn. hefði verið sammála um að afgreiða þetta frv. um fjáröflun til vegagerðar óbreytt. Það væri fyrirgefanlegt, ef þessi hv. þm. vissi ekkert um störf fjh.- og viðskn., að hann segði þetta, en af því að hann á sæti í þessari n. og hefði átt að heyra, hvað fram fór í n., þá er algerlega ástæðulaust að halda slíku fram. Það var tekið fram, þegar hann og fulltrúi Alþb. í n. sögðust ekki geta staðið að afgreiðslu frv. og n. klofnaði í afstöðu sinni til málsins, að meiri hl. n. legði til, að það yrði samþ. með tilteknum breytingum. Meira að segja fóru þau orðaskipti fram í lok þessa fundar fjh.- og viðskn., að við fulltrúar Sjálfstfl. í n. tókum það fram við fulltrúa Framsfl., að áður en gengið yrði frá þeim breytingum, þyrfti að ræða þetta mál enn betur í Sjálfstfl. Þess vegna finnst mér ástæðulaust fyrir nm, að koma fram hér í þingsölum með aðra eins vitleysu og þessa.

En það voru fleiri vitleysur, sem þm. fór með í sínu máli, og bæði hefði þessi ræða og brtt., sem þm. er aðili að, gjarnan mátt heyrast og það alla leið vestur til Bolungarvíkur þráðlaust, því að hann talar nógu hátt til þess. Ég hefði ekkert kviðið því, þótt þessi ræða hefði heyrst þar sem annars staðar á Vestfjörðum og afstaða þessa hv. þm. til Vegasjóðs. Ég vil minna hann og aðra á það, að frá því að vinstri stjórnin kom til valda, hafa farið með samgöngumál ráðh. úr SF, flokki þessa hv. þm., alveg óslitið, þeir hafa á þessum þremur árum verið 3 eða 3/5 af upprunalegum þingflokki SF. Viðskilnaður við Vegasjóðinn er með þeim hætti, eins og hv. 1. þm. Sunnl. lýsti hér áðan, að það hefur orðið að skera niður vegaframkvæmdir á þessu ári um 1100 millj. kr., og sjáanlegt er, að skera verður niður vegaframkvæmdir um a.m.k. 1360 millj. kr. á árinu 1975. Svo kemur þessi hv. þm. hér fram og segir: Sjálfstfl. var á móti því að auka tekjur Vegasjóðs. — Sjálfstfl. hefur ekki verið á móti því að auka tekjur Vegasjóðs, það veit þessi hv. þm. mjög vel og allir aðrir þm. Vegáætlunina dagaði uppí. Sjálfstfl. setti fram þá kröfu á s.l. vori, að vinstri stjórnin færi frá, áður en hún tæki afstöðu til ýmissa mála. Hann veit alveg, hvernig þessi mál fóru. Hann veit líka, þessi hv. þm., að vegagerðarvísitalan hefur hækkað um 100%. frá því að síðasta breyting var gerð á bensíngjaldinu, en það var gert, að mig minnir, 1. jan. 1973. Verðbólgan hefur heldur betur étið upp fjármagn Vegasjóðs, þess vegna verður nú að draga saman. Þetta er einn árangurinn af starfi síðustu ríkisstj. og forustu SF í samgöngumálum Íslendinga á þremur síðustu árum. Það er af einhverju að státa.

Hann belgdi sig mikið út, þessi hv. þm., þegar hann skýrði frá þeim mikla ágreiningi, sem væri á milli stjórnarflokkanna í afstöðunni til þessa frv. Það er ósköp eðlilegt, að það sé ágreiningur um afstöðuna til frv., sem stjórnarflokkarnir hafa ekkert rætt um, vegna þess að þeir voru ekki stjórnarflokkar, þegar þetta frv. var lagt fyrir Alþ. Þetta frv. er lagt fram af hæstv. fjmrh. í fyrrv. ríkisstj. og það er síðar rætt í Sjálfstfl., og margir þm. þar voru mjög andvígir mörgu í þessu frv. Þessar till., sem nú liggja hér fyrir, eru samkomulagstillögur um 6 kr. hækkun á bensíngjaldi. Ég vil láta það koma hér fram sem mína skoðun, og ég hygg, að það sé skoðun meginþorra Sjálfstfl., að við teljum enga ástæðu til þess að leggja niður þau gjöld, sem nú eru vegna skráningar bifreiða, vegna útgáfu ökuskírteina og þess háttar. En það er bent á það, t.d. af bifreiðastjórafélaginu Frama, sem sendi erindi til fjh.- og viðskn., að það telur óeðlilegt, að þeir, sem búnir eru að borga þessi gjöld, séu að borga fyrir þá, sem eiga eftir að fá þessa þjónustu, með því að borga allt í hærra bensínverði. Þetta er auðvitað mjög eðlileg ábending. Hitt er svo eðlileg ábending einnig frá þessum samtökum, að þau séu heldur óhress yfir stórfelldri hækkun á bensínskatti. En það hlýtur þó að vera nær þeirra hug að sætta sig frekar við 6 kr. hækkun en 7 kr., eins og till. meiri hl. fjh: og viðskn. núna gera ráð fyrir. Hins vegar er það svo annað mál, hvernig farið verður með mál leigubilstjóra. Það er ekki á verksviði okkar í fjh.- og viðskn. Það eru auðvitað fyrst og fremst verðlagsmál, hvort eigi að breyta gjaldskrá vegna þessarar bensínhækkunar, sem kemur til með að eiga sér stað.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða mikið um þetta mál, hv. 1. þm. Sunnl. gerði því mjög fræðileg skil, enda er ekki ætlunin að halda hér uppi mjög löngum málflutningi. Ég held, að það sé meiri ástæða til þess að reyna að hraða afgreiðslu þessara mála. Það kemur að því síðar í haust að taka kannske upp almennar umr. um efnahagsmál, um aðrar fyrirhugaðar ráðstafanir þessarar ríkisstj., sem hefur ekki setið í valdastóli nema tæplega vikutíma.

Út af þeirri brtt., sem fyrir liggur, að aftan við 3. gr. bætist: „Þó skal verja fjárhæð, sem nemur 2 kr. af hverjum litra af gjaldi samkv. 1. gr., til þess að leggja bundið slitlag á vegi í þéttbýli samkv. nánari ákvæðum þar um, sem sett skulu í reglugerð,“ skal ég segja hv. ræðumanni hér áðan það, að ég tel þessa till. fulla af blekkingum, á sama tíma og Vegasjóður er kvalinn með fjármagn vegna verðbólgubálsins, að verja 1/3 af fyrirhugaðri hækkun til þess að leggja varanlegt slitlag á vegi í þéttbýli. Það hefur í för með sér, að draga verður stórkostlega úr því viðhaldi, sem er á vegakerfinu almennt, og draga verður úr öllum framkvæmdum við brúargerðir hvar sem er umfram það, sem þegar er búið að gera og fyrrv. ríkisstj. lagði til. Þetta er því ekkert annað en blekking, þessi till. Það eru nógu margar holur í vegunum á Íslandi, þó að við drögum ekki enn þá saman seglin í sambandi við viðhald vega, eins og þessir þm. leggja til með þessari till. Þessi till. verður því ekki nein skrautfjöður í þeirra hatti. Ef þeir hefðu lagt fram till. um að hækka bensíngjaldið enn umfram þetta til þess að verja því í þessum ákveðna tilgangi, þá var það allt annað mál. Þá var það matsatriði, hvort menn vildu ganga lengra í þessum efnum en þegar er gert. En ég hygg, að bensínverðið verði nógu hátt, þó að ekki sé lengra gengið. Hér er ekki um neitt gleðiefni að ræða að leggja á sífellt nýja skatta og skyldur, en þetta er ávöxturinn af þriggja ára samstarfi í síðustu ríkisstj.