04.09.1974
Neðri deild: 14. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

6. mál, fjáröflun til vegagerðar

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Hv. frsm. þeirrar brtt., sem hér er rædd, beindi orðum sínum sérstaklega til forustumanna sveitarfélaga úr dreifbýlinu, sem eiga hér sæti nú, en hafa að undanförnu unnið að því, að tekjustofnar fengjust til að leggja varanlegt slitlag á götur í þéttbýli. Ég hlýt að viðurkenna það, að frýjunarorð hans til okkar urðu þess valdandi, að ég kvaddi mér hér hljóðs.

Ég verð að segja, að það er að ýmsu leyti girnilegt að standa að slíkri till. og veita henni brautargengi, ef ekki kæmi ýmislegt fleira til, sem þyrfti að skoða. Ég hef verið í hópi þeirra manna, sem hafa gert till. um og bent á, að þær reglur, sem settar voru í upphafi um úthlutun svokallaðs þéttbýlisfjár, hafi ekki náð tilgangi sínu m. Ég kann ekki hér og nú að nefna það ár, sem þessar reglur gengu í gildi, en þær hafa a.m.k. verið í gildi á annan áratug, og við sjáum í dag drátt úr þeirri mynd, sem sýnir okkur aðstöðumun dreifbýlisins og hinna stærri þéttbýlisstaða. Við sjáum, að sjávarþorpin hafa þarna orðið verulega út undan. Það á sér ýmsar orsakir, eins og t.d. þá, að þessir staðir hafa orðið að standa undir dýrum hafnarframkvæmdum, — hafnarframkvæmdum, sem í raun og veru hafa þjónað landinu öllu, þjóðinni allri, en ekki endilega þeim stöðum, þar sem hver og ein hafnargerð var unnin. Og þessir staðir, sem hingað til hafa aflað meginhluta útflutningsverðmætanna, hafa ekki notið þess auðs, sem þeir öfluðu, í þeim mæli, að þeir gætu bætt umhverfi sitt og gatnakerfi. Þess vegna endurtek ég, að það væri æskilegt að geta nú aðeins rétt upp höndina og staðið að nýjum tekjustofni.

En ég vil benda á það, að í þeirri brtt., sem lögð er þarna fram, er ekki bundið, á hvern hátt þessu framlagi verði skipt á milli þéttbýlisstaðanna. Skipting þéttbýlis fjárins hefur verið gagnrýnd vegna þess, að það hefur ekki nægt til þess, að nokkur merkur áfangi hafi náðst á smærri stöðunum, og við höfum verið með till. um að breyta reglum um úthlutun á þessu þéttbýlisfé. Ég vil standa að nýjum tekjustofni, sem bindur það, að þau sveitarfélög, sem eru skammt á veg komin eða eiga öll verkefni óunnin á þessu sviði, hafi algjöran forgang. Ég mun því á þessu stigi af þremur ástæðum ekki greiða þessari brtt. atkv.

1. Það eru í mínu kjördæmi sem og fleiri aðkallandi verkefni í vegaframkvæmdum, sem ég vil ekki bregða fæti fyrir, að sé hægt að ljúka.

2. Af þeirri ástæðu, sem ég nefndi, að ég vil binda í tekjustofninum skiptingu á milli þeirra staða, sem skammt eru komnir, og hinna, sem eru lengra komnir og eiga nánast flestar götur með varanlegu slitlagi.

3. Þá greiði ég atkv. gegn henni í trausti þess, að vandamál vegna varanlegrar gatnagerðar verði tekin föstum og ákveðnum tökum og séð fyrir fjármagni af hálfu Alþingis þegar á næsta ári.