04.09.1974
Neðri deild: 14. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

6. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Þeir eru nú víst hvorugir við, þeir hv. þm., sem ég helst hefði þurft að tala við nú, og þykir mér það slæmt. En það verður að hafa það, það kemst sjálfsagt til skila til þeirra, hæstv. fjmrh. verður áreiðanlega svo vænn að koma til nafna síns því, sem þar verður sagt um, og einhvern á hv. 1. þm. Sunnl. ábyggilega svo velviljaðan sér í sínu m þingflokki, að hann komi til skila einnig til hans því, sem hér verður fjallað um hann, ef hann kemur ekki til með að heyra það. Ég skal ekki verða langorður, en ég vil aðeins gera örfáar aths. við það, sem kom fram, fyrst og fremst hjá þessum hv. þm., hv. 1. þm. Sunnl. og hæstv. sjútvrh.

Ég skal strax byrja á því að taka það fram, að mér er einnig hlýtt til margra hv. þm. Sjálfstfl. eins og Framsfl. En ég var að tala um minn hlýleika til þeirra framsóknarmanna í tilefni af því, hvað þeir hefðu í raun og veru lagst lágt í þeim stjórnarmyndunarviðræðum og því stjórnarsamstarfi, sem nú hefur komist á fót. Það var það, sem ég var að tala um, og í því sambandi.

Hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að hefði ég lesið fleiri þingræður hans, þá hefði ég komist hjá að tala eins og ég gerði. Ég vil segja þessum hv. þm., að ég tek ekki eitt einasta orð aftur af því, sem ég sagði um hann og afstöðu Sjálfstfl. til þess máls, sem ég var um að fjalla. Það gæti frekar verið, að ég bætti einhverju við.

Ég sagði hér áðan, að ég teldi, að stjórnarandstaðan á s.l. vori og þá fyrst og fremst Sjálfstfl. bæri ábyrgð á því, að ekki var gengið frá tekjuöflun til Vegasjóðs á þinginu á síðasta vori, og hæstv. sjútvrh. viðurkenndi þetta allt saman áðan. Hann sagði orðrétt: Það var krafa okkar sjálfstæðismanna, að vinstri stjórnin færi frá, áður en afstaða væri tekin til þessa máls. — Og þetta þýðir sem sagt: Stjórnarandstaða Sjálfstfl. þá neitaði að taka afstöðu til þess máls, sem hér um ræðir, þ.e. að afla tekna til Vegasjóðs. Hver annar er sá aðili, sem neitar að taka afstöðu til málsins undir þeim kringumstæðum, sem þá voru hér á Alþ., getur borið ábyrgð á því, sem gerst hefur? Það er öllum kunnugt, hver staða var hér á þinginu á þessum tíma. Fyrrv. ríkisstj. hafði ekki þingstyrk til þess að koma málinu í gegn, stjórnarandstaðan hafði stöðvunarvald í þinginu, og það er því hún og hún ein, sem ber ábyrgð á því, að þessara tekna var ekki aflað. Þar um breytir engu, hvað hv. 1. þm. Sunnl. segir, né það, sem fram kann að koma af hálfu hæstv. sjútvrh., sem í raun og veru viðurkenndi þetta í ræðu sinni áðan.

Það er raunar furðulegt að heyra það, þegar hv. 1. þm. Sunnl. var að afsaka framlagningu þess frv., sem hér um ræðir. Það var upplýst hér áðan af einum ráðh. úr fyrrv. ríkisstj., og ég hygg, að þeir geti borið það fleiri, að það frv. var ekki flutt í nafni ríkisstj. Ég dreg í efa, að fyrrv. samgrh. hafi haft vitneskju um það, að þetta frv. átti að leggja fram. Það var því ekki flutt af fyrrv. ríkisstj. Það var ekki flutt fyrr en það var búið a.m.k. að mati tveggja manna í núv. stjórnarsamstarfi, þ.e.a.s. hæstv. samgrh. og hv. þm. Ingólfs Jónssonar. Þeir tveir höfðu örugglega komið sér saman um, hvað ætti að gera. Hitt má vel vera og var raunar ljóst strax, þegar umr. hófust um þetta mál hér í d., að ýmsir þm. hv. Sjálfstfl. höfðu ekki gefið samþykki sitt til þessa. Það vantaði þar á. Það kom skýrlega fram, a.m.k. í afstöðu eins þm. Sjálfstfl. við 1. umr. um þetta mál hér í deildinni.

Hv. 1. þm. Sunnl. reyndi á alla vegu að bera það af sér og sínum flokksbræðrum, að það væru þeir, sem á því bæru ábyrgð, að ekki var aflað tekna í Vegasjóð. Mér er fullkunnugt um það, að sá samgrh., sem var á þessum tíma, þegar þetta mál var hér til umr, í þinginu, átti margar viðræður einmitt við hv. 1. þm. Sunnl. um að hleypa málinu í gegn, a.m.k. að einhverju verulegu leyti. En það strandaði á því, að samþykki Sjálfstfl. fengist fyrir því, að það færi í gegn. Það þýðir því ekki, hvorki fyrir þennan hv. þm. Sjálfstfl. né neinn annan úr þeim hópi, að vera með afsakanir uppi hér og nú vegna þessa máls.

Hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að það hefði aldrei reynt á það í fjh.- og viðskn., hvort málið hefði meiri hl. Meðan ekki fékkst um það vitneskja, eins og staðan var í þinginu, hvort stjórnarandstaðan ætlaði að hleypa málinu í gegn eða ekki, var vitað, að enginn meiri hl. var til í n. og þess vegna ekki um það að ræða, að n. skilaði málinu frá sér. Ég segi því hv. 1. þm. Sunnl.: Ég talaði ekki áðan, áður en ég hugsaði. Mér var löngu orðið kunnugt um, hver afstaða þessa hv. þm. og annarra þm. Sjálfstfl. var til þessa máls á s.l. vori.

Það er fróðlegt að hugleiða örfá orð úr því, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði við 1. umr. á s.l. vori hér í þinginu, þegar það mál var til meðferðar, miðað við það svo, sem þessi hv. þm. stendur nú að og ætlar að samþykkja. En þá sagði þessi hv. þm. á einum stað í ræðu sinni: „Og eins og ég minntist á í dag, er ég hræddur um, að af þessari miklu hækkun á bensíni, ef að lögum verður, leiði, að notkunin minnki frá því, sem verið hefur, og það sé mjög vafasamt, að tekjur Vegasjóðs aukist við þetta.“ Það var mjög vafasamt að mati hv. 1. þm. Sunnl. á s.l. vori, að tekjur Vegasjóðs ykjust við 4 kr. hækkun á lítra af bensíni. Hann telur sjálfsagt fullvíst nú, að þær aukist við 6–7 kr. hækkun. En þessi vafi í huga þessa hv. þm, á s.l. vori var vegna þess, að hann taldi, að svo mikið drægi úr notkuninni. Það gildir kannske ekki sama lögmál enn, þegar hækkunin er nógu mikil, að það dragi úr notkuninni?

Ég minntist á það hér áðan í minni fyrri ræðu, að ég hefði talið eðlilegt og sjálfsagt, að sú n., sem um málíð fjallaði, hefði fengið frekari vitneskju og grg. um það, hvernig þessi mál standa, hvað hefur verið gert og hvað á að gera hjá Vegagerð ríkisins í framkvæmdum. Ég sé, að á einum stað í ræðu þessa hv. þm., 1. þm. Sunnl., hefur hann einmitt vikið að þessu. Hann segir, að eftir að þetta mál sé komið til n. og þegar það komi þaðan aftur, þá hljóti hæstv. þáv. ríkisstj. að þurfa að svara mörgum spurningum og leggja öll gögn á borðið. Hvaða gögn hafa nú verið lögð á borðið fyrir hv. þm., til þess að þeir geti áttað sig á því, hvað hér er um að vera? Það hefur beinlínis verið neitað um að fá upplýsingar af hálfu Vegagerðar ríkisins um það, sem óskað hefur verið.

Hæstv. sjútvrh. hneykslaðist á því, eins og hann taldi, að ég hefði gert, að segja hér, að meiri hl. fjh.- og viðskn. hefði mælt með frv. óbreyttu. Ég sagði, að á fundi í gærdag hefði a.m.k. minni hl. fjh.- og viðskn. ekki vitað annað en meiri hl. fjh.- og viðskn. hefði mælt með hækkuninni á bensíngjaldinu óbreyttri. Og ég held, að nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. beri það með sér, að ég hafi farið hér með rétt mál. Í því nál. mælir meiri hl. fjh.- og viðskn. með því að hækka bensínskattinn í 17 kr., þannig að á þessum fundi í gær mælti meiri hl. fjh.- og viðskn. með því, að þetta væri óbreytt frá því, sem frv. gerði ráð fyrir, einmitt þetta atriði, sem ég var að tala um. Mér var fullvel um það kunnugt, þó að ég að sjálfsögðu megi mín lítils í n., þar sem 4 ráðh. eiga sæti, að það var von á brtt. frá meiri hl. n. um tiltekin atriði. En þetta stóð óbreytt.

Hæstv. sjútvrh. var að tala um, að það kæmi úr hörðustu átt, að ég væri að tala um þau vandkvæði eða vandamál, sem Vegasjóður ætti nú við að glíma, vegna þess að allt frá 1971 hefði setið í ráðherrastól samgrh. frá SF. Hvað sem um þetta er, þá þori ég vel að bera saman þær framkvæmdir, sem unnar hafa verið í vegamálum á Íslandi þau 3 ár, sem fyrrv. ríkisstj. sat að völdum, miðað við hin, þegar viðreisnarstjórnin sat að völdum, sem þessi hæstv. ráðh. studdi hvað dyggilegast þau 12 ár, og framkvæmdir, sem unnar voru á því tímabili. Og mér þykir alveg furðulegt, að hver og einn einasti hv. þm. Framsfl. skuli sitja undir því lon og don, hvernig sem samstarfsflokkur hans í ríkisstj. níðir niður það framtak, sem ég fullyrði, að átti sér stað á s.l. 3 árum í alhliða uppbyggingu úti á landsbyggðinni. Mér kemur það undarlega fyrir sjónir, að þm. Framsfl. skuli vera svo illa haldnir af því að vera í þessu samstarfi við Sjálfstfl., að það er engu líkara en þeim hafi verið bannað að tala, og það er furðulegt.

Mörgum þótti hv. 4. þm. Reykv. taka sjaldan til máls á s.l. þremur árum í stjórnaraðstöðu. En engar líkur sýnast mér vera til þess, að hann ætli að taka oftar til máls í þeirri stjórnaraðstöðu, sem hann er nú kominn i. Ég man ekki betur en ég hafi lesið það í dagblaðinu Tímanum, í viðtali við fyrrv. hæstv. forsrh., að það, sem honum væri einna hugleiknast úr starfi og framkvæmdum af því, sem fyrrv. ríkisstj. hefur komið til framkvæmda, væri einmitt sú alhliða uppbygging, sem samstarfsflokkur Framsfl. í núv. ríkisstj. telur hafa verið hvað mesta hneykslið í eyðslu á s.l. þremur árum. Eigi að síður ætlar Framsóknarliðið allt í heild að þegja þunnu hljóði, hvað sem Sjálfstfl. og hans málsvarar segja um þessi mál.

Hæstv. sjútvrh. þótti furðulegt, að ég skyldi ekki hafa orðið var við orðaskipti, sem hefðu átt sér stað í lok fundar í fjh.- og viðskn. milli þeirra stjórnarsinna. Ég legg ekkert sérstakt upp úr því að heyra allt það tal, sem þeim fer á milli í lok funda, hvort sem það er í þessari n. eða annarri. Ég met fyrst og fremst það, sem fram kemur á fundum, og á þessum fundi í fjh: og viðskn. var ekkert, sem benti til þess, að meiri hl. fjh: og viðskn. ætlaði að gera annað en að mæla með þessari bensínhækkun óbreyttri, eins og frv. gerði ráð fyrir. Hvað sem þeir hafa verið að tala um í lok fundar sín á milli, það breytir engu um þetta.

Hæstv. sjútvrh. sagði, að sú brtt., sem hér var gerð grein fyrir áðan og getið er í nál. okkar í minni hl., væri full af blekkingum, það yrði að draga úr öllum framkvæmdum, það yrði að draga úr öllu viðhaldi, samdráttur í vegum og brúm. Ég held, að þetta þurfi ekki. Hér er verið að afla þeirra tekna, sem eiga að verða til þess að halda þessum framkvæmdum áfram, en ekki draga úr þeim. En þessum hæstv. ráðh. hefur greinilega ekki fundist nógu slæmt ástandið í kauptúnum og bæjarfélögum víðs vegar úti á landi að því er varðar gatnamálin þar. Hann sagði, að það væri nóg af holum í vegum víðs vegar í kringum landið, og það er auðvitað alveg rétt. En þetta merkir það í reynd, að honum finnst ekki nóg af holum í kauptúnum og sjávarþorpum víðsvegar í kringum landið. Þær holur mega vera áfram ótiltekinn tíma undir stjórn núv. valdhafa.

Viðvíkjandi því, sem hv. 4. þm. Vestf. sagði hér áðan, þá heyrði ég það á honum, að honum þykir miður, fái hann ekki til þess leyfi að greiða atkv. með þessari brtt. En það virðist orðið upplýst af hans máli, að hann er þegar bundinn af sínu m þingflokki að vera á móti henni. Það er slæmt. En það, sem hann hafði fyrst og fremst út á þetta að setja, var um þær reglur, sem hugsanlega yrðu settar varðandi þetta fjármagn. Ég skal taka það skýrt fram, að mín meining er ekki sú, að þar ráði höfðatölureglan, eins og skiptingin er núna á þéttbýlisfénu. En ég ber það traust til núv. hæstv. samgrh., sem sjálfsagt kemur til með að ganga frá þessari reglugerð, — ég ber það traust til hans, að hann sem einn af dreifbýlisþm. sjái svo um, að þetta fari á þá staði, sem það á fyrst og fremst að fara á. Þó að hv. 4. þm. Vestf., flokksbróðir hæstv. samgrh., treysti honum ekki til þess að sjá um réttilega skiptingu á framkvæmdum fyrir þetta fé, þá treysti ég honum til þess, a.m.k. þangað til annað kemur í ljós. Og það er einmitt tiltekið í nál. okkar í minni hl., að þetta eigi að fara til þeirra bæja og kauptúna, sem eru skammt á veg komin í þeim framkvæmdum. Hefði hv. 4. þm. Vestf. lesið nál. og það, sem þar er sagt, hefði hann séð þetta. Hann sagði svo, að hann vildi ekki bregða fæti fyrir það, að hægt væri að ljúka þeim vegaframkvæmdum, sem væru t.d. í Vestfjarðakjördæmi og væri byrjað á, en þyrfti að ljúka. Hver vill gera það? Er þessi till. um að bregða fæti fyrir framkvæmdir, sem byrjað er á og verið er að framkvæma? Nei, hér er verið að afla fjár til framkvæmda. Það, sem við erum að gera með brtt., er, að það verði opnuð leið fyrir bæi og kauptúnahreppa, til þess að þeir geti leyst af hendi eitt mesta vandamál, sem þessir aðilar eiga nú við að glíma, þ.e. að koma á varanlegu gatnakerfi á þessum stöðum. Þetta er eitt brýnasta verkefnið, sem sveitarfélögin eiga nú við að glíma á þessum stöðum, — verkefni, sem verður að vinna, og ef það vinnst ekki, þá þýðir það aukinn fólksflótta frá þessum stöðum. Ég á ekki von á því, að hv. 4. þm. Vestf. vilji stuðla að því, og þess vegna ætti hann að láta flokksfjötrana falla og greiða þessari till. atkv.