05.09.1974
Neðri deild: 16. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

5. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í umr., lagði ég þetta frv. fram á síðasta þingi. Það var byggt á mjög nákvæmri úttekt sérfræðinga á afkomu Rafmagnsveitna ríkisins, sem þá var mjög slæm, og lágu fyrir mjög ítarleg gögn um þá úttekt, bæði fjölrituð skýrsla frá þessum sérfræðingum og eins útdráttur, sem var í grg. með frv. Frv. var að sjálfsögðu miðað við ástandið í efnahagsmálum, eins og það var, þegar frv. var flutt.

Þær niðurstöður, sem í frv. voru, voru í sjálfu sér ekki vefengdar af neinum á síðasta þingi. Hins vegar tókst ekki að fá neina samstöðu um að afgreiða frv. frekar en önnur mál fráfarandi ríkisstj. þá. Það var, eins og menn muna, stefna stjórnarandstöðunnar að fella hvert einasta mál fyrir ríkisstj. og því lýst yfir af sumum málsvörum stjórnarandstöðunnar, að það gilti einu, þótt það væru hin bestu mál, þau skyldu samt drepin, Þess vegna var enginn áhugi á því að vinna að þessu máli.

Þegar sumarþing kom saman, taldi ég það vera skyldu mína að leggja þetta frv. fram á nýjan leik, vegna þess að þarna var um að ræða fyrirtæki, sem heyrði undir rn., sem ég bar ábyrgð á, og ég taldi mér skylt að leggja fram till. um úrbætur á fjárhagsmálum Rafmagnsveitna ríkisins. Ég gerði hins vegar grein fyrir því, þegar ég lagði frv. fram í sumar, að forsendur væru breyttar, síðan frv. var lagt fram í upphafi. Þær voru breyttar að því leyti, að gjaldstofn verðjöfnunargjaldsins hafði hækkað, vegna þess að raforkuverð hafði hækkað síðan frv. var flutt í fyrra skiptið. Þessi gjaldstofn hafði hækkað úr 2250 millj. í 2722 millj., og í samræmi við það hafði verðjöfnunargjaldið, sem af þessum gjaldstofni kæmi, hækkað úr 292 millj. í 353 millj. Ég greindi einnig frá því, að áætlanir um halla Rafmagnsveitna ríkisins á þessu ári hefðu einnig hækkað frá því, sem áætlað var í ársbyrjun. En þessar staðreyndir, annars vegar hallinn á Rafmagnsveitum ríkisins og hins vegar verðjöfnunargjaldið, eru að sjálfsögðu þær forsendur, sem menn verða að hafa til þess að geta afgreitt frv. af þessu tagi.

Nú hefur það gerst, síðan ég lagði frv. fram á sumarþinginu, að þessar forsendur hafa breyst til mjög mikilla muna. Það hefur verið framkvæmd veruleg gengislækkun, og sú gengislækkun mun hafa áhrif á afkomu Rafmagnsveitna ríkisins. Það er alkunna, að rafmagnsveiturnar skulda æðimikið fé í erlendum gjaldeyri og gengislækkunin hlýtur því að hafa áhríf á afkomu þeirra. Ég hlustaði á ræðu þá, sem hv. þm. Ingólfur Jónsson hélt hér í gær um störf n. þeirrar, sem um málið hefur fjallað, og ég heyrði þar enga grg. um þetta atriði. Það er svo að heyra, sem n. hafi ekki haft fyrir því að kanna, hvaða breytingu gengislækkunin hefði haft í för með sér fyrir afkomu rafmagnsveitnanna, og við alþm. höfum þannig ekki hugmynd um þessar forsendur.

Hin forsendan, sem ég talaði um, sjálfur gjaldstofn verðjöfnunargjaldsins, það var ekkert minnst á hann heldur. En það gefur auga leið, að gjald þetta, sem n. leggur til. á að koma til framkvæmda 1. okt., leggst á allt annan gjaldstofn en þann, sem talað var um í sumar. Gengislækkunin leiðir að sjálfsögðu til þess, að almennt heildsöluverð á raforku mun hækka verulega, ekki aðeins hjá þeim orkuöflunarfyrirtækjum, sem Rafmagnsveitur ríkisins kaupa raforku af. Það er einnig alkunna, að það mun vera ætlun ríkisstj. að leyfa mjög verulega hækkun til einstakra rafveitna. Það hefur legið fyrir um alllangt skeið umsókn frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur um verulega hækkun á raforku, og ég hygg, að sú umsókn verði endurnýjuð með mjög hækkuðum tölum einmitt eftir þessa gengislækkun. En það er svo að heyra sem n. hafi ekkert gert til þess að afla sér vitneskju um, hvernig þessi gjaldstofn muni líta út 1. okt. Um það atriði á þó að vera mjög auðvelt að gera áætlanir.

Ég hygg, að hæstv. iðnrh. hafi þegar gert upp við sig, hvaða hækkanir hann muni leggja til, að leyfðar verði til rafveitnanna. En ég hygg, að í heild muni þarna verða um að ræða mjög verulega hækkun á þessum gjaldstofni verðjöfnunargjaldsins, svo verulega hækkun, að það getur breytt gjaldinu um upphæðir, sem nema 100 –200 millj. kr. á ársgrundvelli. En um þetta atriði eru ekki heldur nein gögn, sem liggja fyrir Alþ., og ég fæ ekki séð, að Alþ. geti afgreitt mál af þessu tagi, án þess að aflað sér þessarar grundvallarvitneskju, því að það er ekki hægt að taka ákvarðanir um fyrirkomulag á þessu verðjöfnunargjaldi, án þess að þessar staðreyndir liggi fyrir. Að öðrum kosti eru menn að gera hlutina út í bláinn, og það getur Alþ. að sjálfsögðu ekki verið þekkt fyrir að gera. Mér finnst því, að það sé lágmarksskylda stjórnvalda að afla þessara gagna, áður en þetta frv. verði afgreitt.

Eitt atriði enn, sem hefur vakið alveg sérstaka furðu mína er það, að eftir að ég lagði fram þetta frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforku, kom fram frv. um breytingar á söluskatti, þar sem lagt var til, að hann yrði hækkaður um 2 vísitölustig. Þetta frv. var rökstutt með afar stuttri grg., en eitt það helsta, sem þar er talið upp, er, að það eigi að leggja þennan söluskatt á til þess að jafna halla Rafmagnsveitna ríkisins. Á það hefur verið bent hér í þinginu, að það sé í sjálfu sér dálítið einkennileg aðferð, ef nota á söluskatt til þess að draga úr halla hjá einstökum fyrirtækjum. Það er stefna út af fyrir sig, það er svo sem hægt að gera það. Verðjöfnunargjald og söluskattur leggjast á á ósköp hliðstæðan hátt. Verðjöfnunargjaldið leggst á alla þá, sem kaupa raforku, og það eru sem betur fer svo til allir þegnar landsins, og menn greiða þeim mun meira sem þeir nota meira af raforkunni, þannig að þetta er í sjálfu sér hliðstætt og söluskattur er. Þessa leið væri ósköp vel hægt að fara, þótt hún sé ákaflega andkannaleg að mínu viti. En það er ekki hægt að gera hvort tveggja í senn. Það er ekki hægt að hækka söluskatt til þess að bæta úr rekstrarerfiðleikum Rafmagnsveitna ríkisins og um leið að leggja á verðjöfnunargjald í sama skyni. Menn verða að gera það upp við sig, hvora leiðina þeir ætla að fara. Vitanlega er það til marks um þann algera glundroða, sem við höfum séð í stjórnarliðinn, að menn virðast ekki vita hver af öðrum, menn verða að leysa sama vandamálið eftir tveimur mismunandi leiðum, og svo ætlast þeir til. að báðar leiðirnar verði notaðar og tekið verði tvöfalt gjald til að leysa þennan vanda. Þetta eru svo fráleit vinnubrögð, að ég man ekki til þess að hafa heyrt neitt af þessu tagi þann tíma, sem ég hef setið hér á Alþ.

Ég hef ekki í neinu breytt þeirri afstöðu minni, að það þarf að gera ráðstafanir til þess að bæta afkomu Rafmagnsveitna ríkisins, og ég tel, að sú leið, sem ég lagði til í því efni, sé skynsamleg. En ef sú leið er farin, verður hæstv. ríkisstj. að draga til baka þá röksemd sína, að það eigi að leggja á söluskatt í sama tilgangi. Það er alger forsenda þess, að hægt sé að samþykkja frv. af þessu tagi, að frv. um söluskattinn verði afturkallað. Þetta er ein aðalröksemdin fyrir flutningi þess, og raunar einnig fjárhagur Vegasjóðs, sem einnig á að leysa eftir öðrum leiðum, þannig að þarna er um að ræða tvöfalda skattheimtu til þess að leysa tiltekin vandamál, sem eru fyrir utan ríkissjóðsdæmið, eins og venjulega hefur verið á það lítið. Þetta eru algerlega fráleit vinnubrögð að mínu viti.

Ég sem sagt tel, að Alþ. eigi heimtingu á að fá þær staðreyndir, sem ég gat um í upphafi, annars vegar, hver er áætlun manna um rekstrarafkomu Rafmagnsveitna ríkisins eftir gengislækkunina, og í öðru lagi, hver gjaldstofninn verði, þegar þetta gjald á að koma til framkvæmda 1. okt. Við getum ekki afgreitt þetta mál, án þess að þær staðreyndir liggi fyrir. Og í annan stað, ef við eigum að leysa vanda Rafmagnsveitna ríkisins eftir þessum leiðum, verður að breyta söluskattsfrv. Það er ekki hægt að gera þarna hvort tveggja í senn.

Um aðrar brtt., sem n. hefur gert, þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Þær eru yfirleitt tæknilegs eðlis. Það er dálítið skopleg breyting, sem gerð er við 1. gr. Í frv. upphaflega var sagt, að verðjöfnunargjaldinu skyldi varíð til að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins samkv. nánari ákvörðun stjórnar Orkusjóðs og ráðh. orkumála, en þessu er breytt, þetta verði samkv. nánari ákvörðun ráðh. orkumála að fengnum till. stjórnar Orkusjóðs. Það er greinilegt, að það er kominn iðnrh., sem kann vel að meta vald sitt og er ekki á því að deila því með einum eða neinum.

Hv. Þm. Ingólfur Jónsson spurði hér í gær um meðferð á raforku til húshitunar og beindi þeim spurningum til hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, sem ekki var viðstaddur á þeim fundi. Ég hygg, að hv. þm. Ingólfur Jónsson muni það eins vel og ég, að þegar hér var samþ. frv. um niðurgreiðslur á olíu, þá fólst einnig í því frv. ákvæði um samsvarandi niðurgreiðslur á raforkuframleiðslu til húshitunar. Þetta var gert að lögum, þetta er í lögum. Hvort búið er að ganga frá reglugerð um þetta atriði, veit ég ekki, en það er þá mjög auðvelt fyrir núv. ríkisstj. að gera það, vegna þess að þessi lagaákvæði liggja nú þegar fyrir.

En í sambandi við þetta mál að öðru leyti verð ég að segja það, að mig rak í rogastans, þegar ég sá síðustu brtt. hv.iðnn. En þar segir svo: „Umboð núv. stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins fellur niður við gildistöku þessara laga.“ Sem sé, það er lagt til, að stjórn Rafmagnsveitna ríkisins verði lögð niður. Lögum samkv. er stjórn rafmagnsveitnanna æðsti stjórnandi þessarar stofnunar, að sjálfsögðu næst ráðh., og er lagt til. að þessi æðsta stofnun verði lögð niður. Þessi stjórn rafmagnsveitnanna var sett á laggirnar af hv. þm. Ingólfi Jónssyni, meira að segja með brbl., 1969, vegna þess að hann taldi, að starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins væri það umfangsmikil og erfið, að ekki veitti af, að þarna væri sérstök stjórn yfir stofnuninni, eins og er yfir flestum meiri háttar fyrirtækjum á Íslandi. Þessi stjórn hefur starfað síðan, og ég hafði við hana samvinnu, meðan ég gegndi ráðherrastörfum. og mér gekk ágætlega að starfa með þessari stjórn. Hún vann þarna ágætt starf. Í sumar kom svo að því, að samkv. lögum átti að breyta um menn í stofnuninni eða skipa nýja stjórn, og ég gerði það samkv. lögunum, Ég skipaði tvo menn, sem ráðh. á að skipa, og einn var skipaður samkv. tilnefningu Sambands ísl. rafveitna. Þeir menn, sem ég skipaði, voru Helgi Bergs bankastjóri og Tryggvi Sigurbjarnason verkfræðingur, sem mjög lengi hefur unnið hjá Rafmagnsveitum ríkisins, en Samband ísl. rafveitna skipaði Björn Friðfinnsson, sem er framkvstj. við Kísiliðjuna og er mjög kunnugur samskiptum sveitarfélaga við rafmagnsveiturnar. Ég gat ekki betur séð, þegar ég kom hér í gær, en þessi brtt. frá meiri hl. iðnn. væri alveg fullkomið vantraust á þessa þrjá menn. Það var engin grein gerð fyrir því, hvers vegna ætti að fella þessa stjórn niður. Og ég gat ekki betur séð en þarna væri meira að segja verið að veitast alveg sérstaklega að formanni n., Helga Bergs bankastjóra, en hann er sem kunnugt er einn af helstu forustumönnum Framsfl. Mér fannst þetta vera til marks um það sérkennilega andrúmsloft, sem ríkir á milli stjórnarflokkanna og við höfum orðið varir við síðustu dagana hér á þingi í mjög ríkum mæli.

Hitt er þó það alvarlega, að ráðh. skuli ætla að leyfa sér, — mér er kunnugt um, að það var samkv. tilmælum hæstv. iðnrh., sem meiri hl. n. flutti þessa till., — að leggja niður stofnun af þessu tagi án þess að gera nokkra grein fyrir því hvers vegna og án þess að því fylgi nokkur almenn kerfisbreyting. Ég er hræddur um, að það kæmi hér upp ákaflega einkennilegt ástand á Íslandi, ef á að taka upp þann sið, þegar ný ríkisstj. tekur við, að þá beiti einstakir ráðh. sér fyrir því, að breytt sé stjórnum og stofnunum, sem undir þá heyra, fyrr en þá kemur til þess, að það eigi að breyta þeim lögum samkv. Ég starfaði með ákaflega mörgum stjórnum þann tíma, sem ég var ráðh. Voru ýmsar þeirra þannig skipaðar, að ég hefði kosið, að þær hefðu verið öðruvísi skipaðar, en mér datt það ekki í hug að flytja nokkurn tíma nokkra till. um það, að ákvarðanir fyrirrennara míns um það efni stæðu ekki. Ef við gerðum það, þá værum við komnir inn á ákaflega hættulegar brautir. Þá værum við farnir að taka upp þá starfshætti, sem tíðkast í Bandaríkjunum, þar sem um alla slíka embættismenn er skipt með hverri nýrri ríkisstj., og ég held, að þau vinnubrögð séu ekki til fyrirmyndar. Ég held, að okkur ríði á að hafa frekar samhengi í hlutunum og breyta þá málum, þegar lög heimila, að það sé gert, en vera ekki að reyna að sparka einstökum stjórnum bara að geðþótta einstakra ráðh. Ég tel, að þetta sé í sjálfu sér stórmál og beri að vara mjög alvarlega við stefnu af þessu tagi.

Hv. formaður iðnn. tjáði mér, að þessi till. væri borin fram samkv. ósk ríkisstj., það hefði orðið samkomulag um það í ríkisstj. að flytja þetta mál hér. Ég fór svo að kanna það, og þá kom það í ljós, að svo var alls ekki. Um þetta hafði ekki verið gert neitt samkomulag í ríkisstj. Það var aðeins hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, sem hafði beygt sig fyrir því, sem hæstv. iðnrh. hafði sagt við hann, og það stóð ekkert á þessum hv. þm. að fara á þennan sérkennilega hátt með flokksbróður sinn, Helga Bergs.

Þegar ég hafði vakið athygli ráðh. Framsóknar á þessu, létu þeir málið til sín taka, og það leiddi til þess, að það kom fram brtt. frá hæstv. iðnrh., og nú á ekki að leggja stjórnina niður, nú á að fjölga í henni, nú eiga að vera þar 5 menn, en ekki 3. Það hefði kannske verið hægt að rökstyðja fyrri till. með sparnaðarhugmyndum, en varla þó þegar á að fjölga í henni upp í 5. Hæstv. iðnrh. sagði mér, að þetta stafaði af því, að það væri enginn fulltrúi Sjálfstfl. í stjórninni. Það eru ekki fulltrúar neinna flokka í þessari stjórn. Í þessa stjórn eiga ráðh. að velja menn eftir því, sem þeir treysta þekkingu þeirra, reynslu og hæfileikum. Það eiga engir flokkar fulltrúa í þessari stjórn. Það eru, eins og ég sagði áðan, margar stjórnir, sem ég starfaði með, þar sem Alþb. átti engan fulltrúa, og mér kom aldrei í hug að flytja lagabreytingu á þingi til þess að reyna að troða inn einhverjum fulltrúa Alþb. í slíka stjórn. Ég held, að ef menn hafi þennan hátt á, þá séu þeir líka komnir út á ákaflega hættulega braut, þar sem þröng og einstrengingsleg flokkssjónarmið eru sett ofar almennum hagsmunum, þannig að mér finnst þessi till. frá hæstv. iðnrh. einnig ganga mjög á svig við eðlilegar hugmyndir okkar um lýðræði og þingræði og beri þann keim, að þessi hæstv. ráðh. meti flokksræðið miklu meira.

En sem sé, þetta er ásamt öðru til marks um það, að það er heldur einkennilegt andrúmsloft innan þessarar hæstv. ríkisstj. og þar muni hvor flokkurinn um sig reyna að ota sínum tota, eins og hægt er, sparka út mönnum hvor fyrir öðrum eða troða sínu m mönnum inn, ef það tekst ekki, þótt það sé búið að reyna það. Vinnubrögðum af þessu tagi vil ég mótmæla mjög eindregið. Ég tel, að þau séu algert nýmæli hér á þingi í ákaflega langan tíma. Og ef þetta yrði tekið upp, þá gæti eftirleikurinn orðið helst til hvimleiður.

Ég gat áðan um, að það lægi ekki fyrir sú vitneskja um afkomu Rafmagnsveitna ríkisins annars vegar og um gjaldstofn verðjöfnunargjaldsins, sem Alþ. þyrfti á að halda til þess að geta tekið ákvarðanir um þetta mál. Við það bætist svo það, sem hv. þm. Eðvarð Sigurðsson gerði grein fyrir hér í gær, að það er einnig mikil breyting á ytri aðstæðum. frá því að þetta frv. var flutt. Nú er verið að steypa yfir þjóðina feiknalegum nýjum verðhækkunum á öllum sviðum. Það er búið að hækka landbúnaðarvöruverðið um 20%, það er búið að ákveða gengislækkun, sem hefur í för með sér almenna verðlagshækkun upp á 6–7%, og feiknalegar verðbreytingar aðrar eru fram undan. Ég minntist áðan á almenna raforkuhækkun, sem vitað er, að fram undan er, og ég las það í Morgunblaðinu í frásögn af ræðu, sem hæstv. forsrh. hélt á Varðarfundi, að það stæði til að hækka hitaveitugjöldin um 56% o.s.frv. Hæstv. ráðh. lét þess getið, að það mætti búast við, að kaupgjald þyrfti að hækka um 35% 1. des., ef kaupsamningar, sem gerðir voru í vor, ættu að standast. Ef þessar kaupbætur koma ekki til framkvæmda, jafngildir það 26% skerðingu á kjörum manna, meira en fjórðungsskerðingu á kaupmætti launa. Og ég er hræddur um, að þá færi að verða ansi þröngt fyrir dyrum ýmissa þeirra, sem lægst laun hafa í þjóðfélaginu. Ég skil því ákaflega vel það viðhorf, sem kemur fram í áliti minni hl. iðnn., frá hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni og Eyjólfi Sigurðssyni, að það verði að taka einnig þetta mál inn í það allsherjardæmi, sem við erum nú að fást við. Og raunar fæ ég ekki betur séð en að fyrst menn fengust ekki til þess að afgreiða þetta mál, þegar það var borið fram á eðlilegum forsendum á fyrra þingi, þá reki engin nauður eftir að afgreiða það núna í skyndingu og án þess að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir. Það er algerlega ljóst, að Rafmagnsveitur ríkisins munu engar tekjur geta fengið af þessu verðjöfnunargjaldi á þessu ári, og því er nægilegt ráðrúm til þess að leysa fjárhagsvanda þeirra í haust og þá eftir að ljósara er orðið, hvernig ætlunin er að halda á hinni almennu fjármálastefnu í landinu og hver sú kjaraskerðing verður í raun á lágtekjufólki, sem hæstv. forsrh. hefur boðað með ákaflega hrikalegum tölum.