05.09.1974
Neðri deild: 16. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

5. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Áður en ég vík að sjálfu frv. og efni þess, þykir mér rétt að minnast aðeins á það mál, sem hv. fyrrv. iðnrh., 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, talaði hér um af nokkrum tilfinningahita, svo sem eðlilegt er, vegna þess hvað honum er það mál hjartfólgið, en það er verndun lýðræðisins á Íslandi. Tilefni þess; að talað er af svo miklum tilfinningahita um lýðræðisást sína og árás núv. ríkisstj. á lýðræðið, var, að ég hef lagt til, að í stjórn rafmagnsveitnanna verði 5 menn, en ekki 3. Það þarf töluvert hugmyndaflug til þess af svo litlu tilefni að halda svo fjálglega ræðu um lýðræðið í landinu. En svo er mál með vexti, að þegar nefndir og stjórnir eru til þess valdar að fjalla um ákveðin mál eða veita forstöðu einhverjum stofnunum, er einna algengast, að Alþ. sjálft velji slíka fulltrúa, slíkar stjórnir eða ráð með hlutfallskosningu. Þessar hlutfallskosningar eru taldar eitt af grundvallaratriðum lýðræðis og þingræðis, til þess að sem flestar skoðanir komi fram og sjónarmið einstakra stjórnmálaflokka fái að njóta sín. Ég hef ekki heyrt fyrr, að sú skipan mála, að nefndir og ráð, sem valin eru af Alþ. séu kosin með hlutfallskosningu, sé árás á lýðræðið. Ég hélt, að það væri hið gagnstæða. Þegar kosið er í slíkar nefndir, má segja, að séu tvö sjónarmið. Annars vegar er það sjónarmið að sjálfsögðu að velja hæfa menn til þessara starfa, og um leið hitt sjónarmiðið, að tekið sé tillit til stjórnmálaflokkanna, svo að sjónarmið þeirra og skoðanir komi fram. Þetta hélt ég, að væri almennt viðurkennt.

Nú er það svo um þessa litlu till. mína um, að í stjórn rafmagnsveitnanna verði 5 menn, en ekki 3, að þá er þess í fyrsta lagi að geta, að varðandi stjórnir og ráð fyrir ríkisstofnanir er það einna algengast, að þar séu 5 eða 7 menn. Má þar nefna landsvirkjunarstjórn, sem er skipuð 7 mönnum, Laxárvirkjunarstjórn, skipuð fimm mönnum, svo að ég nefni tvær stofnanir, sem eru náskyldar Rafmagnsveitum ríkisins. Ég tel, að því sé ekki óeðlilegt, þó að gert sé ráð fyrir, að 5 menn skipi stjórn þessa mikla og merka fyrirtækis, sem hefur sérstöðu að ýmsu leyti, sérstaklega vegna þess, að grundvallarsjónarmiðin, sem ráða starfsemi og uppbyggingu Rafmagnsveitna ríkisins, eru þannig, að þetta fyrirtæki getur ekki borið sig. Þetta er liður í byggðaþróuninni og byggðastefnunni, jafnvægi í byggð landsins, og þess vegna verður alltaf annað veifið að leita til Alþ. um sérstaka fjáröflun í þessu skyni. Ég tel einnig eðlilegt, að í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins, sem snerta svo mjög öll byggðarlög þessa lands, komi fram sem flest sjónarmið og m.a. sjónarmið frá stjórnmálaflokkunum. Þetta er ekki árás á lýðræðið, heldur er það í samræmi við grundvallarkröfur lýðræðisins, sem eru viðurkenndar af Alþ. og þjóðinni með því, að mikið af stjórnum og ráðum er einmitt kosið hlutfallskosningu á Alþ. Þess vegna er allt tal hv. þm. um, að þessi till. mín sé árás á lýðræðið, hugarburður einn og fleipur.

Varðandi sjálft efni málsins er það frv. iðnrh. Magnúsar Kjartanssonar, sem hér liggur fyrir. Hann hefur haldið tvær ítarlegar framsöguræður fyrir því, í fyrra sinnið 27. mars, þegar hann lagði fram frv. á síðasta þingi, og aftur nú 14. ágúst. Um röksemdir fyrir þessu frv. má að verulegu leyti vísa til þessara tveggja framsöguræðna hv. þm. Hann gerði þar mjög glögga grein fyrir því, hvers vegna þessi fjáröflun væri nauðsynleg, að leggja 13% verðjöfnunargjald á raforkusölu í landinu til þess að rétta við hag Rafmagnsveitna ríkisins.

Nú heldur þessi höfundur og framleggjandi og formælandi frv. því fram, að forsendur séu gerbreyttar. Það er rétt, að forsendur hafa hreyst að töluverðu leyti, frá því að frv. var upphaflega samið á s.l. vetri. En þær forsendur hafa breyst í þá átt, að fjárþörfin er meiri en hún var. Það hefur t.d. komið í ljós, að halli Rafmagnsveitna ríkisins nú í ár, 1974, stefnir á um 400 millj., sem er á annað hundrað millj. kr. meira en gert var ráð fyrir áður. Það er gert ráð fyrir því einnig, að hallinn á árinu 1975 verði hvorki meira né minna en rúmar 500 millj. kr., sem er miklu meira en gert var ráð fyrir, þegar frv. var upphaflega lagt fram. Þessu til viðbótar kemur svo það atriði, sem hv. þm. nefndi, og það er gengisbreytingin síðasta, sem að sjálfsögðu eykur enn á greiðsluhalla rafmagnsveitnanna, vegna þess að útgjöld hennar og gjaldabyrði hækka að töluverðu marki af þeim sökum. Þessar staðreyndir leiddu til þess, að þeir embættismenn og sérfræðingar, sem um málið fjölluðu nú að nýju, bæði frá iðnrn. og fjmrn., töldu æskilegt og lögðu til, að verðjöfnunargjaldið yrði hækkað úr 13% í 15%, og töldu ekki af veita. Ríkisstj. taldi hins vegar ekki rétt að breyta frá því, sem er í frv. Magnúsar Kjartanssonar, og því er það óbreytt, 13%, eins og það var.

Í rauninni þarf ekki frekari orðum um þetta að fara. Það er auðvitað hægt að biðja um sundurliðaðar áætlanir á því, hvað t.d. gengisbreytingin núna og þá væntanlega allar þær gengislækkanir, sem gerðar voru á fyrri helmingi þessa árs, í ráðherratíð Magnúsar Kjartanssonar, hafa aukið útgjöld rafmagnsveitnanna mikið. En ég held, að það ráði ekki úrslitum um afgreiðslu þessa máls. Ég held, að engum blandist hugur um, að þetta 13% gjald, sem í frv. var upphaflega og lagt er til, að haldist áfram, sé nauðsynlegt til þess að bæta upp halla rafmagnsveitnanna, en muni þó ekki nægja til þess að fullu.

Það hefur verið hamrað mjög á því, bæði í ræðu hv. 3. þm. Reykv. og enn fremur Eðvarðs Sigurðssonar, 7. þm. Reykv., að leggja eigi á tvöfaldan skatt til að mæta sömu fjárþörf. Það er byggt á því, að í grg. frv. um hækkun söluskatts er minnst á greiðsluvandkvæði rafmagnsveitnanna. Nú vil ég upplýsa það í fyrsta lagi, að þetta verðjöfnunargjald, 13%, ef lögfest verður, mun skila sér að sáralitlu leyti inn á þessu ári. Það er lítið sem ekkert, sem mun greiðast af því fyrir lok þessa árs. Hins vegar kemur það náttúrlega að gagni fyrir rafmagnsveiturnar á næsta ári. Hins vegar er greiðsluhalli rafmagnsveitnanna þegar á þessu ári orðinn mjög þungur baggi á ríkissjóði, og þess vegna er ekkert óeðlilegt, þótt á hann væri minnst í grg. fyrir söluskattinum sem eitt dæmi um þann mikla fjárhagsvanda og greiðslubyrði, sem á ríkissjóði hvílir.

Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum. Mér kemur það nú nokkuð á óvart, að hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, skuli nú snúast á móti sínu eigin frv., það er kannske mannlegt, en stórmannlegt er það ekki.