05.09.1974
Neðri deild: 16. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

5. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Eyjólfur Sigurðsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr. um verðjöfnunargjald til Orkusjóðs, er eins og önnur frv., sem hér hafa verið til umr, síðustu daga, mun nýjar álögur á þjóðina. Við, sem stöndum að nál. minni hl. iðnn., berum ekki á móti því, að þær upplýsingar, sem liggja fyrir um slæman fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins, séu réttar. Hins vegar hefur því verið haldið fram hér í umr., að með hækkun söluskatts um 2 stig sé m.a. verið að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins, og teljum við því ekki nauðsynlegt að samþykkja þetta frv. á þessu stigi, heldur að því verði vísað til ríkisstj.

Ég vil leggja áherslu á, að hér er verið að leggja nýjan skatt á allan almenning í landinu, og hefur þó ýmislegt verið að gerast hér undanfarna daga í samþykkt skatta. Ef að líkum lætur, verður hækkun söluskatts samþ. sem lög frá Alþ. fyrir þingslit, og verður þar um allmiklar nýjar álögur að ræða. Verðjöfnunargjaldið, er leggst á raforkuverð, kemur á allan almenning, enda eru svo til allir landsmenn rafmagnsnotendur, og kemst því enginn undan því. En eins og er með alla skatta á nauðsynjar í nútímaþjóðfélagi, koma slíkir neysluskattar þyngst á þá lægst launuðu.

Þar sem ekki hafa komið fram frá hæstv. ríkisstj. neinar till. eða upplýsingar um, hvernig þeir lægst launuðu eiga að fá bættar þær álögur, sem ríkisstjórnarflokkarnir eru þessa dagana að samþykkja hér á hv. Alþ., hlýtur að vera æði erfitt fyrir marga hv. þm. að standa að samþykkt þessa frv. og annarra, er nú liggja frammi á Alþ., enda er ekki því að leyna, að þrátt fyrir að ég hafi ekki setið nema tvo daga á Alþ., hef ég saknað hér þm. úr stjórnarliðinu, m.a. forustumanna úr verkalýðshreyfingunni, en ég átti von á því, að þegar slíkar álögur eru í uppsiglingu, þá hefðu forustumenn úr verkalýðshreyfingunni, er sæti eiga á Alþ., eitthvað um þau frv. að segja.

Þrátt fyrir að hér á Alþ. séu nokkuð skiptar skoðanir um, hvað staða ríkissjóðs sé slæm, held ég, að flestir geri sér grein fyrir því, að ekki verður annað en viðurkennt, að fjárhagur ríkissjóðs sé slæmur. Ég er þeirrar skoðunar, að miklu fyrr hefði átt að kippa í taumana og reyna að draga úr þeirri gegndarlausu eyðslu, sem þjóðin hefur stundað nú síðustu missirin, fyrst og fremst vegna þeirrar óvissu og stjórnleysis, sem ríkt hefur, og hefði þá ekki þurft að grípa til svo róttækra aðgerða sem nú er verið að gera og eiga eftir að skella á þjóðina af fullum þunga á næstu mánuðum.

Það hefur því miður æði oft verið tjaldað til einnar nætur í efnahagsmálum hjá fyrrv. ríkisstj., og nú súpum við seyðið af því. Hins vegar greinir okkur á um, hversu geyst þarf að ganga í því að breyta þessu ófremdarástandi og hvaða leiðir til lausnar skal fara. Það er mín persónulega skoðun, að verðjöfnumargjaldið hefði mátt bíða, þar til þing kemur saman aftur og séð verður, hvernig heildarlausn efnahagsmála er hugsuð af núv. ríkisstj., og þær hliðarráðstafanir, er væntanlega sjá fyrr en seinna dagsins ljós, hvernig vernda eigi þá lægst launuðu gegn þessum álögum, eru kunnar.

Það kemur fram í frv., að verðjöfnunargjaldið á aðeins að innheimta til ársloka 1975. En eins og áður hefur verið bent á í umr., virðist það oftast vera reynslan, þegar fundin sé ný leið til skattlagningar og hún komi til framkvæmda, að þá virðist erfiðara að afnema slíka skatta en koma þeim á.

Ég vil að lokum fagna því, að ríkisstj. mun nú vera í þann veginn að hefja viðræður við aðila vinnumarkaðarins, og það er von mín, að þær viðræður beri árangur, því að án samráðs við aðila vinnumarkaðarins er hæpið, ef að líkum lætur, að takist að koma á jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Að síðustu vil ég ítreka, að það er mikil nauðsyn, að ríkisstj. og forustumenn verkalýðshreyfingarinnar sjái svo um, að þeir lægst launuðu, sem svo illa fóru út úr samningum s.l. vetur, fái að fullu bættar þær álögur, sem nú eru á þá lagðar.