05.09.1974
Neðri deild: 16. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

5. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. tókst heldur illa að skýra tilraunir sínar til þess fyrst að leggja niður stjórn Rafmagnsveitna ríkisins og síðan að fjölga í henni með skírskotun til lýðræðis. Hann taldi, að till. sín jafngilti því, sem mjög tíðkaðist hér, að stjórnir stofnana væru kosnar hlutfallskosningum á þingi. Það er alveg rétt, þannig er að farið með mjög margar stofnanir, og hæstv. ráðh. hefur að sjálfsögðu verið í lófa lagið að leggja það til, að stjórn Rafmagnsveitna ríkisins yrði kosin með hlutfallskosningu á Alþ. En till. hans fjallaði alls ekki um það. Hún fjallaði ekki um, að Alþ. ætti að ákveða eitt eða neitt. Hún fjallaði um það, að hæstv. iðnrh., Gunnar Thoroddsen, persónulega, tilnefndi tvo menn í stjórnina til viðbótar þeim þremur, sem þar hafa starfað um alllangt skeið. Ég sé ekki, að þetta eigi neitt skylt við lýðræði. Þetta er hins vegar einræðistilhneiging þessa hæstv. ráðh: Það er hann sjálfur, sem vill fá þessa persónulegu heimild.

Annað atriði, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh., sem ég óska eftir að fá nánari skýringar á, er sú staðhæfing hans, að áætlað sé, að 600 millj. kr. halli verði á Rafmagnsveitum ríkisins á næsta ári. Ég hef í höndunum gögn, sem saman voru tekin af Rafmagnsveitum ríkisins í maí í ár, og þar er hallinn fyrir árið 1975 áætlaður 243 millj. kr. Þessi halli hefur allt í einu tvöfaldast í meðförum þessa hæstv. ráðh., og ég óska sannarlega eftir skýringum á þessari furðulegu hækkun frá því í maí í sumar.

Það voru engir tilburðir til þess að leggja fram þau gögn, sem ég benti á, að væru forsenda fyrir ákvarðanatöku á þessu sviði. Og mér finnst satt að segja, að alþm. séu ansi lítilþægir, ef þeir óska ekki eftir því að fá í hendur staðreyndir af þessu tagi, sem eru alger forsenda fyrir ákvarðanatöku.

Hæstv. ráðh. sagði í lokin, að ég hefði snúist gegn eigin frv. og það væri kannske mannlegt, en ekki stórmannlegt. Eins og allir vita, sem hér eru inni, fer því mjög fjarri, að ég hafi snúist gegn eigin frv. Ég tel, að ég hafi bent á eðlilega og rétta aðferð til að leysa þennan vanda, og sú skoðun mín er algerlega óhögguð. En ég vil ekki ákvarða þetta frv., nema ég fái í hendurnar gögn um þær umfangsmiklu breytingar, sem orðið hafa, síðan frv. var seinast lagt fram, og í annan stað vil ég ekki sætta mig við það, að þessi vandi sé leystur eftir tveimur leiðum og þar með framkvæmd tvöföld gjaldtaka í þessu skyni, eins og gert er með þessu frv. og söluskattsfrv. Það eru þessi vinnubrögð, sem ég hef gagnrýnt, en ekki sú aðferð, sem í frv. felst.