05.09.1974
Neðri deild: 16. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

10. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Það er nú ljóst, að það er ætlun hæstv. ríkisstj. að senda okkur alþm. heim í dag og fresta auk þess samkomulagi reglulegs Alþingis um þrjár vikur. Þetta sumarþing var haldið samkv. sérstakri ósk og kröfu Sjálfstfl. Það var vitað, að Alþ. þyrfti að koma saman í tilefni af þjóðhátíð, en Sjálfstfl. lagði á það mjög þunga áherslu, að þar yrði um raunverulegt starfsþing að ræða. Flokkurinn sagði, að það væru svo mörg og alvarleg og stórtæk vandamál, sem yrði að takast á við, að það væri ekki sæmandi annað en Alþ. yrði haft með í ráðum um afgreiðslu þeirra. Það er ekki langt liðið síðan ný ríkisstj. var mynduð undir forsæti Sjálfstfl,, og þá eru þessi viðhorf allt í einu gerbreytt. Nú þarf að senda Alþ. heim með hraði. Þær röksemdir, sem voru hafðar uppi fyrr á þessu ári og ég gæti vitnað til, ef ekki hefði verið gert æðimikið að því undanfarna daga að vitna í gamlar ræður forustumanna Sjálfstfl., báru allar með sér, að Sjálfstfl. teldi, að Alþ. yrði að vera með í ráðum um lausn þessara alvarlegu vandamála.

Menn kunna kannske að skilja það, þeir, sem fylgst hafa með störfum Alþ. þessa fáu daga, eftir að ríkisstj. var mynduð, að forustumönnum stjórnarflokkanna finnst þægilegra að losna við Alþ., svo að ekki auglýsist hér á hverjum einasta degi frammi fyrir okkur þm. og raunar frammi fyrir þjóðinni allri, hversu heiftarlegur ágreiningur er uppi milli stjórnarflokkanna og hvað andrúmsloftið á milli þeirra er óeðlilegt. Það hefur komið fram í hverju einasta máli, sem hér hefur legið fyrir, að um þau hefur verið stórfelldur ágreiningur, það hefur orðið að taka frest á frest ofan til að jafna þennan ágreining, ekki aðeins á milli flokkanna, heldur innan þeirra hvors um sig.

Ég segi fyrir mig, að ég tel þetta engan ljóð á ráði núv. ríkisstj. eða hennar flokka, sem styðja hana. Ég er þeirrar skoðunar, að stjórnmálaumr. hér á Íslandi megi gjarnan vera opnari en hún hefur verið. Ég hef látið þá skoðun í ljós áður, og hún er algerlega óbreytt. Ég tel það ekkert óeðlilegt, að það komi fram opinberlega, ef ágreiningur er uppi innan stjórnarflokkanna eða innan stjórnmálaflokkanna, og að menn geri grein fyrir þeim mismunandi skoðunum, þannig að þjóðin geti fylgst með því. Slíkt tel ég vera eðlilegt lýðræði. En ráðamenn núv. stjórnarflokka vilja auðsjáanlega losna við þetta ástand, sem þeim finnst ákaflega hvimleitt, og þess vegna vilja þeir losna við þingið núna. Og það er mál út af fyrir sig.

En hitt atriðið, að fresta samkomudegi Alþ. um 3 vikur, tel ég vera algerlega fráleitt. Það er alkunna, að það verður fjallað um mörg ákaflega veigamikil vandamál á næstu vikum. Hæstv. ríkisstj. hefur skýrt frá því, að hún ætli að hafa samráð við svokallaða aðila vinnumarkaðarins um ákaflega mörg atriði, einnig atriði, sem snerta löggjöf, og hún muni svo haga sínum ákvörðunum á grundvelli þess. Ég tel það algerlega fráleitt, að gerðar séu ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að Alþ. geti á eðlilegan hátt ekki aðeins fylgst með, heldur tekið þátt í þessum verkum.

Hæstv. forsrh. mæltist til þess í fyrstu ræðu, sem hann hélt, eftir að hann hafði tekið við forustu ríkisstj., að hann gæti haft sem best samstarf við alla þingflokka og alla þm., og þannig tel ég, að við eigum að starfa hér á þingi. En þá verður einnig að gefa þm. tækifæri til þess. Ég er mjög á þeirri skoðun, sem hv. þm. Eysteinn Jónsson hefur oft gert grein fyrir hér á þingi, að staða okkar þm. sé orðin gerbreytt, eftir að okkur er greitt kaup allt árið, — kaup, sem á að nægja okkur til framfæris. Eftir það er hægt að gera miklu meiri kröfur um vinnu til hv. þm. Það er ætlast til þess, að þeir gegni störfum verulegan hluta ársins, og ég tel, að það eigi þeir að gera. Ég sé engin haldbær rök fyrir því að fresta reglulegum samkomudegi Alþ., ég tel þvert á móti, að ástandið, eins og það er í efnahagsmálum og stjórnmálum, geri ákaflega brýnt, að Alþ. komi saman á þeim degi, sem lög mæla fyrir um, þannig að Alþ. geti tekið þátt í ákvarðanatöku með umr. og till. Þess vegna er Alþb. algerlega andvígt þessu frv. og mun greiða atkv. á móti því.