05.09.1974
Efri deild: 17. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

6. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. 1. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á s.l. vori var allmikið rætt um fjármál Vegasjóðs hér í þinginu og þá flutt frv. af hálfu fyrrv. ríkisstj., sem fól það í sér, að bensínlítri væri hækkaður um 4 kr. því miður reyndist þáv. stjórnarandstaða svo ábyrgðarlaus í afstöðu sinni, að hún kom í veg fyrir, að þetta frv. næði fram að ganga. Er því ekki að neita, að síðan hefur fjárhagur Vegasjóðs versnað, og við Alþb.- menn viðurkennum það fúslega, að af þessum sökum dugir ekki, að gjaldið sé 4 kr., eins og þá var ætlað, heldur munu 5 kr. vera óhjákvæmilegar til þess. Þetta kom m.a. skýrt fram í þeim stjórnarmyndunarviðræðum, sem við áttum með Alþfl., SF og Framsfl., og þá samþykktum við Alþb.-menn till. um, að hugsanleg ríkisstj., sem upp úr þeim viðræðum yrði mynduð, hækkaði bensíngjaldið um 5 kr. En þegar hin nýja stjórn Framsfl. og Sjálfstfl. er mynduð, er borið fram frv. um hækkun bensíngjaldsins um 7 kr. Þetta höfum við ekki getað fallist á. Við teljum, að þarna sé gengið of langt í skattheimtu og lengra en þörf krefur.

Nú hefur að vísu verið sú breyting gerð í Nd., að gjaldið hefur verið lækkað um eina kr., úr 7 kr. í 6 kr., og á móti kemur þá það, að ekki er ætlunin að fella niður margumrædd 38 gjöld, sem hvíla á umferðinni og fyrirhugað var, að sameinuð yrðu í einu gjaldi. Ég hef lýst skoðunum okkar Alþb.-manna í hv. fjh.- og viðskn. og þar borið fram till. um. að bensíngjaldið hækki ekki nema um 5 kr., en jafnframt, þar sem svo virðist vera, að sá þingmeirihl., sem nú hefur myndast, sé staðráðinn í því að hækka bensíngjaldið í 6 kr., þá hef ég lagt fram till. um það, að þó skuli varið fjárhæð, sem nemur einni kr. af hverjum lítra, til þess að leggja bundið slitlag á vegi í þéttbýli samkv. nánari ákvæðum þar um, sem sett skulu í reglugerð. Þessi brtt. er á þskj. 43 og þarfnast ekki skýringa. Eins og öllum hv. alþm. mun kunnugt, er það eitt stærsta og erfiðasta vandamálið varðandi vegagerð í dag, hversu stór munur er orðinn á ástandi vega annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar í þéttbýlisstöðum víðs vegar úti um landið. Kröfur um umbætur á þessu sviði eru orðnar býsna háværar og það að vonum, og þótt ekki dragi þessi einnar kr. skattlagning langt, mundi þar vera um nokkra úrbót að ræða. Sem sagt, eins og fram kemur í nál, mínu, er það till. mín, að frv. verði samþ. með þessari breytingu.