05.09.1974
Efri deild: 17. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

6. mál, fjáröflun til vegagerðar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Í þeim skemmtilegu umr., sem fram hafa farið í kringum þær margbreytilegu björgunarráðstafanir, sem herjað hafa á okkur þm. að undanförnu og eiga svo sannarlega eftir að herja á fleiri og herða að þeim reyndar, hefur verið býsna skemmtilegt að bera saman röksemdir hjúanna á kærleiksheimili stjórnarinnar. Þær hafa, svo að ekki sé meira sagt, farið býsna mikið á misvíxl. Hv. sjálfstæðismenn, sem allir vita af reynslu síðustu ára, að eru ákaflega andvígir öllum álögum á almenning og bera einkum fyrir brjósti þá lægst launuðu, hafa réttlætt allskarpan snúning á skattlagningarhraðbrautinni með því, að samstarfsaðilinn hafi látið óráðsíuna eina ráða og ekki sé líf fyrir höndum í notalegri sambúð án þess að draga Framsfl. upp úr eigin feni. Framsóknarmenn segjast hins vegar vera nákvæmlega á sömu braut og áður með sömu frv., aðeins þurfi að bæta duggunarlitlu ofan á hér og þar, væntanlega vegna þess að þeir vita, að sjálfstæðismenn munu vilja fé sitt og engar refjar, enda óvanir að fara með af sparsemd og ráðdeild. Í miðjum klíðum gagnkvæmra kærleikshóta af þessu tagi hefur svo gjarnan verið snúið snarlega við aftur. á braut eindrægninnar og heimilisfriðarins og málið afgreitt á þann hógværa hátt, að allt þetta, sem nú er þó verið að basla við og túlkað er sitt á hvað, heyri fortíðinni til. Og þá veit maður það. Héðan í frá skulu ástir samlyndra hjóna vera það, sem gildir, og væri þá gaman að fá að sjá nokkur sýnishorn þar um í stað stöðugra flokksfunda um hvert málið á fætur öðru. En við bíðum og sjáum, hvað setur.

Annars var ég dálítið veikur fyrir þessu frv. í heild, eftir að ég hafði heyrt hið ljóðræna niðurlag á ræðu hæstv. samgrh. hér í gær, þar sem, þótt undir rós væri talað, svo sem vera ber í þessum efnum, var fluttur sá rökstuðningur fyrir bensínhækkuninni, að um tilraun væri að ræða til að bjarga þjóðlegri ljóðlist ættjarðarástarinnar, enda svo sem von eftir hörmulega reynslu hátíðarársins okkar, þar sem eina sanna ættjarðarljóðið kom frá bónda úr Borgarfirði, sem nú hefur því miður kvatt ljóðagyðjuna og okkur öll um leið. En ekki er ég nú að vel athuguðu máli sannfærður um, að hækkun bensínverðsins verði til þess, að menn aki minna og setjist að yrkingum í þess stað. En af því að við hæstv. ráðh. erum báðir ljóðelskir, svo sem Íslendingar eru flestir, þá skulum við samt ekki gefa upp alla von.

En að þessu slepptu aðeins örfá orð um Vegasjóð, fjáröflun til hans og skiptingu þess fjár, því að það heyrir þó varla fortíðinni til eins og allar heimiliserjur kærleiksheimilisins nýja. Vegi viljum við hafa sem besta. Síst vil ég mæla í mót framlögum í því skyni. En það er ósvinna að færa svo miklar tekjur til Vegasjóðs án þess að líta á þá vegi, sem við notum gjarnan mest og snerta okkur hvað mest og nánast, vegina í kauptúnum og kaupstöðum landsins, sem allt of víða eru enn í dag lítið betri en lökustu vegarspottar þjóðveganna okkar og sums staðar jafnvel lakari. Sveitarfélögin hafa nú á síðari árum tekið það upp sem eitt helsta verkefni að leggja bundið slitlag á götur í þéttbýli, og er það vonum seinna, svo mikilsvert og þýðingarmikið sem þetta framtak er fyrir allt umhverfi íbúanna. En framkvæmdirnar kosta mikið fé, og viða er allt ógert í þessum efnum og átakið því stórt, en mjög rekið á eftir af íbúunum, þegar hreyfing er á komin á á annað borð.

Aðstoð hins opinbera liggur í tvennu: þéttbýlisvegafénu, sem úthlutað er eingöngu eftir hinni fáránlegu höfðatölureglu, og svo lánsfé úr Lánasjóði sveitarfélaga. Til þess að fá hér á breytingu til batnaðar fluttum við hv. þm. Jónas Árnason till. á síðasta þingi, allítarlega till., þar sem á ýmsar leiðir var bent, m.a. tvöföldun þess hluta bensínskatts, sem rennur í þéttbýlisvegina. Fleiri leiðir voru nefndar, en snerta ekki beint þetta tiltekna mál, og skal ekki frekar út í það farið. En hvort tveggja var, að undirtektir þm. úr tveim stærstu flokkunum, núv. hæstv. stjórnarflokkum, voru afbragðsgóðar og sveitarfélögin og samtök þeirra lögðu mjög mikla áherslu á fylgi sitt við till. Því hefði mátt vænta góðrar og skjótrar afgreiðslu, ekki hvað síst af þeirri ástæðu, að hér á þingi sitja margir sjálfsagðir og sjálfskipaðir talsmenn sveitarfélaganna, sem seint gátu áfellst fyrri stjórn nógu harðlega fyrir slæma meðferð á aumingja sveitarfélögunum. Allt átti að renna í ríkissjóð, sögðu þeir. Sveitarfélögin áttu að vera afskipt.

Menn sáu það í Nd. í gær, að orðheldni manna er að vonum mikil og sterk. En till. okkar fékk þá meðferð í þinginu. að undir vor var skilað um hana nál., þar sem henni var vísað til ríkisstj. í trausti þess, að í hinni nýju vegáætlun og nýju fjáröflun til Vegasjóðs yrði tekið tillit til þeirra meginsjónarmiða, sem í till. fólust. Nú stöndum við sem sagt andspænis nýrri fjáröflun, og því er eðlilegt, að þess sé freistað að fá eitthvað í hlut sveitarfélaganna umfram venjulega prósentu, ekki síst þegar þau bera sig jafnilla með þetta verkefni og raun ber um vitni. Því er till. hv. 5. þm. Norðurl. v. í alla staði eðlileg og sjálfsögð.

Hér má við bæta þætti byggðanefndar Alþingis, en formaður hennar, hv. 2. þm. Vestf., var og er vitanlega enn sérstakur áhugamaður um að fá hér á nokkrar leiðréttingar, og því hafði byggðanefnd ákveðnar till. í huga, en heið aðeins eftir nýrri vegáætlun, nýrri fjáröflun. Nú veit ég, að þessi hv. þm. grípur eins og ég þetta tækifæri fegins hendi til að rétta hlut sveitarfélaganna úr hinum dreifðu byggðum, þó að sumir félagar okkar í byggðanefndinni hafi gleymt því í Nd. í gær. Það getur engan veginn talist óeðlilegt eða ósanngjarnt, að innan við 20% af þessari stórfelldu hækkun bensínskattsins komi í hlut sveitarfélaganna, þegar þau eru í önnum við þetta mikilvæga verkefni sitt. Það er a.m.k. vonandi, að ef svo ólíklega vildi til, að þessi till. hv. 5. þm. Norðurl. v. yrði felld hér, þá sjái þessi mikla byggðastjórn, því að það er eina afmarkaða verkefnið, sem hægt er að festa hönd á í furðuplaggi því, sem ranglega hefur verið kölluð stefnuyfirlýsing, þá sjái hún til þess a.m.k., að einhver þeirra atriða, sem í till. okkar Jónasar Árnasonar fólust, verði að veruleika, þótt viðbrögðin í Nd. hafi ekki gefið tilefni til ýkjamikillar bjartsýni. Þar var á það bent af einum hv. þm. Framsfl., að alla nánari skilgreiningu vantaði á ráðstöfun þessa sérstaka gjalds, þ.e. einnar kr. af hækkun bensínskattsins. Ég treysti hæstv. ráðh. miklu betur en þessi hv. þm. vill gera. Eftir till. átti ráðh. að setja reglugerð hér um, og því ætti að mega treysta, að þá yrði sem sanngjarnast og best að málum staðið. Í trausti þess m.a. styð ég þessa till., þótt ekki sé nánar um fjallað, því að um ráðstöfun þessa fjár, ef af yrði, hlyti að fara um margt á annan veg en núgildandi skiptingu þéttbýlisvegafjárins, sem er með öllu óhæf, kemur þeim mest til góða, sem síst skyldi. Ekki verður því heldur trúað, að þessi eina kr. í öllu því flóði, sem nú gengur yfir, geti í nokkru spillt kærleikanum endurvakta á stjórnarheimilinu, og því engin hætta á ferðum fyrir umhyggjusama sveitarfélagaunnendur að styðja heils hugar að samþykkt till.