05.09.1974
Efri deild: 17. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

6. mál, fjáröflun til vegagerðar

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 4. landsk. þm. verð ég að játa, að ég get því miður ekki veitt honum þessar upplýsingar, því að þær liggja ekki fyrir og mundu ekki geta legið fyrir með skjótum hætti. Hins vegar get ég upplýst það, að tekjur af bifreiðum á þessu ári munu fara langt fram úr því, sem gert var ráð fyrir. Innflutningur hefur að allra dómi verið óeðlilega mikill, og ég býst við, að það sé ekki hægt að gera ráð fyrir því, að hann sé í nokkru samræmi við það, sem verður á næstu árum. Hann er ekki í neinu samræmi við það, sem verið hefur á undanförnum árum. A.m.k. þá mánuði, sem liðnir eru og ég veit um, 7 síðustu mánuði ársins, — um ágústmánuð veit ég ekki, því að hann er ekki uppgerður, — en tekjur af bifreiðum hafa verið geysilega miklar eins og af innflutningi almennt á þessu ári. En eins og kunnugt er, hefur þetta einnig valdið geysilega miklum umframgjöldum hjá ríkissjóði, og stenst á, hvað vinnst og hvað tapast. M.a. hefur hluta af þessum tekjum verið varið til þess að halda niðri vöruverði. Óhugsandi hefði verið að fara í þá hækkun á niðurgreiðslum, sem gert var í sumar, og var gengið mjög langt í, nema af því að þá var séð, að tekjur ríkissjóðs yrðu mun meiri en reiknað var með. Í þeim umr., sem hafa farið fram um fjármál ríkissjóðs, hefur verið upplýst, að gert er ráð fyrir, að auknar niðurgreiðslur fram til 1. sept. muni nokkurn veginn greiðast af umframtekjum, en aftur til þess, sem síðar komi, er verið að afla tekna í sambandi við þær umr.. sem fara fram í hv. Nd.

Þetta vildi ég segja. Því miður get ég ekki gefið frekari upplýsingar um þetta, en ég skal hafa það í huga, þegar möguleikar eru til þess.