05.09.1974
Efri deild: 17. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

6. mál, fjáröflun til vegagerðar

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Mér láðist áðan að gera grein fyrir afstöðu minni til brtt. á þskj. 43 og svara hv. þm. Helga F. Seljan, sem ávarpaði mig sérstaklega.

Ég get ekki stutt þessa brtt. Til þess liggja eftirgreindar ástæður:

Ég er því eindregið fylgjandi, að sá hlutur, sem úr Vegasjóði rennur til varanlegrar gatnagerðar í þéttbýli, verði aukinn. Ég er einnig því mjög ákveðið fylgjandi, að sú regla, sem um það gildir nú og greint er frá í vegal., verði önnur, henni verði breytt. Ég stóð að því á síðasta þingi ásamt hv. þm. Helga F. Seljan, sem situr einnig í byggðanefnd, að till. voru fluttar í n., þar sem fjallað var um frv. til l. um breyt. á vegal., sérstaklega um breyt. á þessu ákvæði. Var þar leitað eftir því að auka þann hlut, sem rennur til varanlegrar gatnagerðar í þéttbýli og ekki yrði háður höfðatölureglunni svonefndu. Raunar er sá hlutur að segja má enginn í dag, því að 90% af þeim 121/2% af tekjum Vegasjóðs, sem renna til varanlegrar gatnagerðar, er ráðstafað samkv. ákvörðun vegamálastjóra og samgrh. Hefur nánast því allt, að því að ég best veit, runnið til framkvæmda við gjána í Kópavogi, svo að það getur ekki talist hafa runnið til dreifbýlisins. Því er ég mjög fylgjandi, að þessu öllu sé breytt. Ég óttast hins vegar, ef við förum að samþykkja hér eitthvað eins og það, sem þessi till. gerir ráð fyrir, að klípa af þeirri aukningu, sem nú kemur í Vegasjóð, að þá verði þyngri róðurinn að fá fram nauðsynlega breytingu á þessari reglu í vegal. Ég vil því leita eftir stuðningi flm. þessarar till. og fylgismanna þessarar till. við átak á reglulegu þingi í haust til þess að fá fram verulegar breytingar á ákvæðum vegal. hvað þessu viðvíkur. Ég mun því ekki styðja þessa till. Ég óttast, að samþykkt hennar muni spilla fyrir því, að slíkt átak nái fram að ganga.