05.09.1974
Efri deild: 17. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

6. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. 2. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Það gat ekki verið betur staðfest en kom fram í ræðu hæstv. samgrh. einmitt það, sem ég hélt fram, hvernig gengisbreytingin hefði neikvæð og öfug áhrif, og sá ótti landsmanna, að verðgildi peninganna sé ekki tryggt. Hann viðurkenndi, að innflutningur nú hefði verið langt frá því með eðlilegu móti. Menn segja: Ég gerði þetta fyrir gengisfellingu. Ég er að hengjast aftur, af því að ég lenti í súpunni eftir gengisfellingu. — Þjóðarbúið allt fer úr skorðum. Frjáls ákvörðunarréttur um sparnað og meðferð fjár fer ekki eftir eðlilegum leiðum. Fólk ruglast í ríminu. Það er þetta, sem við eigum að glíma við hér á Alþ., að tryggja jafnvægi í peningamálum landsmanna. Við gerum okkur vegáætlun, eins og frsm. meiri hl. benti á, og þær eiga að standast. En það stenst ekki neitt, þegar almenningur í landinn finnur, að það er tilgangslaust að hugsa með neinni rökhyggju. Það, sem skiptir máli, er að eyða, reyna að bjarga sér fyrir gengisfellingu, því að eftir gengisfellingu verður allt í volæði til að byrja með.

Við fáum aldrei jafnvægi í okkar þjóðarbúskap, ef ekki er staðið betur að hlutunum en við höfum allir meira og minna tekið þátt í á undanförnum fjöldamörgum árum. Það er grundvallaratriðið að breyta þessari hugsun, fá fram eðlilega hugsun hjá almenningi bæði um kaup á bilum og öðrum varningi, sem er stór þáttur í ráðstöfun tekna hvers heimilis í dag.

Það var aðeins þetta, sem ég vildi vekja athygli á, af því að það kom greinilega fram í orðum ráðh. og undirstrikaði þann ótta, sem ég hef út af gengisfellingunni og þeim ráðstöfunum, sem henni fylgja.