05.09.1974
Efri deild: 20. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

5. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Iðnn. þessarar hv. d. hefur fjallað um frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforku. Á fundi n. voru allir nm, mættir. Auk þess mætti þar hæstv. iðnrh. og orkumrh. og svaraði fsp. N. náði ekki samkomulagi um frv. Meiri hl. skilar sérstöku nál. á þskj. 50 og mælir þar með samþykkt frv. óbreytts, eins og það liggur nú fyrir eftir meðferð hv. Nd.

Ég ætla ekki að flytja hér ítarlega framsögu. Ég vísa til þess, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, og til þeirrar grg., sem frv. fylgir. Ég vil aðeins leggja áherslu á, að frv. nálægt því shlj. þessu og shlj. upphaflegu frv., var lagt fram á síðasta reglulegu þingi.

Það fer ekkert á milli mála, að nauðsynlegt er að afla fjár til Rafmagnsveitna ríkisins, og mun síðasta hæstv. ríkisstj. hafa verið sammála um þessa leið. Gerðar hafa verið nokkrar breytingar frá því frv., m.a. breyting á stjórnarfyrirkomulagi Rafmagnsveitna ríkisins. Það kom nokkuð til umr. á fundi n. og þykir mér rétt, að svör hæstv. ráðh. komi hér fram.

Ég spurði m.a. að því, hvort breyting, sem fram kemur í 14. gr., fæli það í sér, að umboð núv. stjórnar félli niður. Hæstv. ráðh. upplýsti, að svo væri ekki. Jafnframt var að því spurt, hvort formaður í núv. stjórn héldi þeirri skipan, og var einnig upplýst, að svo mundi verða, þar yrði ekki á breyting. Mér þykir rétt, að þetta komi fram. Hér er því nánast um það að ræða, að hæstv. ráðh. skipar tvo menn til viðbótar í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins, og þykir mér það ekki óeðlilegt.

Ég endurtek svo, að meiri hl. iðnn. mælir með samþykkt frv., eins og fram kemur á þskj. 50.