28.07.1974
Sameinað þing: 4. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

1. mál, landgræðslu- og gróðurverndaráætlun

Forseti (Gylfi Þ. Gíslason):

Að samþykktri þessari tillögu læt ég í ljós þá ósk, að allar framkvæmdir samkvæmt henni verði landi og þjóð til blessunar, að landið verði þeirra vegna betra og fegurra, að þjóðin verði í kjölfar þeirra heilsteyptari og hamingjusamari.

Stór spor hafa verið ráðin til eflingar landgæðum og aukinnar náttúrufegurðar. Jafnframt ættu Íslendingar nú að strengja þess heit að standa eilífan vörð um frelsi sitt og allt það, sem gert hefur þá íslenska.

Þegar minnst er ellefu hundruð ára Íslandsbyggðar, ætti sú ósk að brenna heitust í brjósti sérhvers Íslendings, að þjóðin, sem hér hefur búið í ellefu aldir, bæði í reisn og niðurlægingu, notið hefur gæsku náttúrunnar og þolað hamfarir hennar, — sú þjóð, sem hefur ekki aðeins búið við tengsl auðlegðar og menningar, heldur einnig mótast af sambúð örbirgðar og skáldskapar, — að þessi þjóð megi um alla framtíð eiga þetta land og njóta þess, sjálfri sér til heilla og drottni allsherjar til dýrðar.

Til er aðeins einn öruggur vegur til farsældar manns og þjóðar. Hann er sá að trúa á landið, trúa á manninn og trúa á guð. Þjóðin hefur nú viljað sýna, að hún trúir á landið, Hún þarf einnig að sýna, að hún trúi á sjálfa sig. Megi guð vors lands, megi lands vors guð gefa, að þær vonir rætist, sem reistar eru á trú þjóðarinnar á land sitt, að hið góða og sanna, sem búið hefur í hug íslenskrar þjóðar í ellefu hundruð ár, eflist um alla framtíð. — Fundi er slitið.