08.08.1974
Efri deild: 3. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

3. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það til l. á þskj. 3, sem hér liggur fyrir til 1. umr., er um happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg og opna þannig hringveg um Vestfirði. Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er sú, að afgreidd voru lög frá síðasta Alþingi, nr. 48, er tóku gildi 16. maí, en í þeim lögum var gert ráð fyrir að selja happdrættisskuldabréf til vegaframkvæmda í Djúpvegi fyrir 80 millj. kr. og skyldu bréfin gefin út 15. maí, en það er daginn áður en lögin tóku gildi, Þar sem það var óframkvæmanlegt að gefa út bréfin, áður en lögin höfðu tekið gildi, og auk þess var í lögunum ekki gert ráð fyrir, að hægt væri að skipta upphæðinni, var talið óráðlegt að gefa þessi bréf út, ekki síst þar sem á sama tíma var verið að selja happdrættisskuldabréf Vegasjóðs vegna vegaframkvæmda á Skeiðarársandi.

Þá var einnig í því frv. ákveðið að binda heildarfjárhæð vinninganna við 7% vexti af þessum bréfum. Þetta þótti óaðgengilegt, og var talið af þeim aðilum, sem um fjölluðu og séð hafa um sölu á slíkum bréfum, að óframkvæmanlegt væri að koma bréfunum í verð með þessum hætti, eins og lögin gerðu ráð fyrir.

Var því farið að athuga möguleika á því að gera breytingu á þessum lögum, og strax og Alþingi kom saman að loknum kosningum, mættu þm. Vestfirðinga allir með bréf upp á vasann um að fylgja þessu máli fast eftir, sem þeir gerðu þegar á fyrsta degi. Hins vegar hefur dregist að koma málinu áfram vegna þess, hvernig fundum Alþingis hefur verið hagað.

Það kom fram í umr. við hv. þm. Vestf. að ef ekki væri ráðist í að útvega fjármagn til þess að halda áfram hringveginum við Djúp, mundu framkvæmdir stöðvast og slíkt mundi hafa þá þýðingu, að hæpið yrði, að haldið yrði áfram á þessu sumri. En talið var, að þörf væri á því að vinna fyrir 25 millj. til viðbótar þeirri fjárhæð, sem gert var ráð fyrir að unnið yrði fyrir á þessu ári.

Að athuguðu máli var ákvörðun fjmrn., þó að fjármunir séu nú ekki of miklir til á þeim bæ, að bjarga þessu máli í bili og sjá um, að vegaframkvæmdirnar á Vestfjörðum yrðu ekki stöðvaðar, ekki síst þar sem á næstu dögum er von á því, að lagt verði hér fyrir frv. til l., sem var einnig lagt fram á síðasta Alþingi, þar sem gert er ráð fyrir fjáröflun til vegagerðar í landinu yfirleitt.

Í frv. því, sem lagt var fyrir í vetur, var eitt ákvæði um það, að ríkissjóður skyldi gefa út happdrættisskuldabréf, eftir því, sem ákveðið væri á fjárlögum hvert ár, og afla þannig fjár til hringvegar um landið. Er með ákvæði þessu bent á leið til fjármögnunar framkvæmda við hringveginn um landið. Það er hugsun á bak við þetta ákvæði í því frv. að gera þessa leið að fjármögnunarleið í sambandi við vegagerð í landinu, og gat ég þess í framsöguræðu fyrir frv. í vetur, að stefnt væri að því að taka leiðina um Vestur- og Norðurland í því skyni og raunar að halda áfram að ljúka vegagerð hringinn í kringum landið með þessum hætti, og gæti því mjög komið til greina að taka þetta ákvæði um Djúpveginn inn í það mál, svo að ekki væru fleiri en eitt happdrætti í gangi samtímis, enda nokkuð dýrt að halda þeim úti.

Hins vegar vildum við halda okkur við þetta mál, ef það skyldi fara svo, að hitt málið drægist meira en góðu hófi gegndi. En eftir að frv. var flutt, var sú ákvörðun tekin, að vegurinn skyldi ekki gjalda þess á þessu sumri, þó að þetta mál hefði verið gallað í meðferðinni og tefðist hér á Alþingi. Það er því tryggt, að þessar 25 millj. kr., sem vantar til að vinna fyrir í vegagerðinni við Djúpið á Vestfjörðum, munu koma, og Vegagerðin hefur fengið fyrirmæli um að láta vinna þar áfram.

Það verður haldið áfram með þá hugmynd um fjáröflun til vegagerðar í framtíðinni, sem happdrættisskuldabréfin eru. Þess vegna verður í því frv., sem ég geri ráð fyrir, að lagt verði fyrir hv. Alþingi nú næstu daga, — það fer eftir störfum þingsins, því að frv. verður nú senn tilbúið og gæti þess vegna komið upp úr helginni, — þetta ákvæði um vegahappdrættið. Það er talið mjög áriðandi að halda þannig á þessu máli, að ekki komi til þess, að það þurfi að koma afturkippur í þessa sölu, svo að hægt sé að afla fjár með þessum hætti í okkar mjög svo fjármagnsfreka vegakerfi, sem nauðsyn ber til að fjármagna á næstunni, eins og hv. þm. er kunnugt um. Þess vegna mun ég ekki óska eftir því, sem ég hafði hugsað mér áður, og fara fram á það við hv. deild, að málinu verði sérstaklega flýtt, vegna þess að það verður séð fyrir þessum fjármunum, heldur láta það ganga eðlilegan gang og þá fylgjast að eða taka tillit til þess í sambandi við heildarmálið, þegar það kemur fram. En þm. Vestf. get ég sagt, að þeir munu fá sína peninga í Djúpveginn, og því verður treyst, að þeir kaupi svo happdrættisskuldabréfin, sem út verða gefin.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.