08.08.1974
Efri deild: 3. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

3. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Þessi sakleysislaga leiðrétting getur eflaust gefið tilefni til langrar ræðu, ræðu um verðbólgu og vegamál á Vestfjörðum og fjölmargt fleira, en ég ætla ekki að leyfa mér það. Ég vil hins vegar aðeins taka undir þakkir til hæstv. fjmrh. fyrir ágætar undirtektir hans við okkur þm. Vestf. um útvegun bráðabirgðafjármagns, til þess að halda megi áfram framkvæmdum við Djúpveg. Ég get jafnframt upplýst það, sem fram kom á fundi með vegamálastjóra fyrir fáeinum dögum, að þetta muni tryggja framkvæmdir við Djúpveg fram á haustið og ætti að geta orðið til þess, að ljúka megi þessum hluta Djúpvegar á næsta ári, eins og ráðgert hefur verið. Ég fagna því, að þannig er staðið að þessum málum og allt bendir til þess, að staðið verði við þennan áfanga eins og gert er ráð fyrir í vegáætlun.