08.08.1974
Neðri deild: 3. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

2. mál, viðnám gegn verðbólgu

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir það svar, sem hann veitti við fyrirspurninni, þó að það væri ekki svar nema að hálfu leyti. Það liggur þó ljóst fyrir eftir þær upplýsingar, sem hann gaf hér og þm. hafa reyndar sennilega nokkuð margir vitað, að ríkisstj. hafði áður synjað Seðlabankanum um heimild til þeirra vaxtahækkana, sem hann fór fram á. Þetta liggur ljóst fyrir eftir svar hæstv. forsrh. En þá hlýtur að vakna sú spurning, þegar þetta er upplýst hér á hv. Alþ.: Er þá ekki aðgerð Seðlabankans hreint brot á 4. gr. laga um Seðlabanka Íslands, þar sem er alveg skýrt tekið fram, að hann hafi ekki heimild til aðgerða í efnahagsmálum nema með samþykki ríkisstj.? Hæstv. forsrh. afsakaði sig með því, að það væri til önnum grein í lögum Seðlabankans, sem heimilaði honum vaxtahækkun. Ég vil í þessu sambandi minna á það, sem skeði hér í vetur, þegar rætt var um byggingu Seðlabankans og deilt var á hæstv. bankamrh. þá fyrir afstöðuleysi hans í sambandi við þær deilur, sem um bygginguna urðu, að þá úrskurðaði hæstv. forsrh. það hér á Alþingi, að seðlabankastjórnin eða bankaráð Seðlabankans mundi hafa til þess heimild að gera þær ráðstafanir, sem þá voru gerðar, án þess að bera undir þann ráðherra, sem með bankamál fer. Ég hlýt því að endurtaka það, sem ég sagði hér áðan: Er ekki fullkomin ástæða til þess að láta fara fram endurskoðun á lögum Seðlabankans, ef það er komið svo, að ríkisstj. getur skotið sér undir einhverjar ákveðnar greinar, sem stangast á innbyrðis í lögunum, og notað lögin sér til framdráttar, en hlaupið frá ábyrgð, sem hún hlýtur að vera krafin um af þjóðinni, með tilvísun til þess, að Seðlabankinn hafi samkv. einhverri lagagrein heimild til að gera ráðstafanir eins og hér er um að ræða? Ég held, að það hljóti að vera komið að því og Alþingi eigi á því kröfu, að hreinsað sé til í þessu máli, þannig að við vitum, hvort Seðlabankinn, ríkisstj. eða Alþ. muni í framtíðinni stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar. Þetta þarf að liggja alveg ljóst fyrir. En hæstv. forsrh. upplýsir, að eftir að ríkisstj. hefur synjað þessari stofnun um tiltekna aðgerð í efnahagsmálum, þá er hún samt framkvæmd. Ég held, að það fari ekki milli mála, að allt þetta veki upp umhugsun og umræður um það, að þarna þurfi vissulega að láta fara fram athugun, þannig að alþm. viti, hvar þeir raunverulega standi í sambandi við þessi mál, og að þeir viti, hvort það er ein ákveðin stofnun í landinu, sem ætlar að taka að sér stjórn efnahagsmála, án þess að Alþingi eða ríkisstj. geti nokkuð sagt um það.

ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta. En það, sem ég var að fiska eftir, var það, hvort Seðlabankinn hefði fyrir fram aðvarað ríkisstj. um það, að hann mundi birta tilkynningu um vaxtahækkun, því að það er nokkurt atriði, að Alþ. viti, hvort þetta er til að brjóta niður vald hennar eða henni er sýnd sú kurteisi, að hún sé aðvöruð um svona aðgerðir fyrir fram. Ef ríkisstj. hefur verið um þetta aðvöruð og ef hæstv. forsrh. ekki beinlínis mótmælir, að hann hafi um það vitað fyrir fram, þá hlýt ég að líta svo á, að þessi aðgerð Seðlabankans, — hvort sem hún er rétt eða röng, ég ætla ekki að leggja dóm á það, því að mér er ljóst, að á þessu eru tvær hliðar, bæði sú, sem snýr að sparifjáreigendum, og sú, sem snýr að þeim, sem þurfa mesta vexti að greiða, — þá liggur það nú alveg ljóst fyrir, að ríkisstj. hlýtur að vera kölluð til ábyrgðar í þessu sambandi. Ég tel, að ríkisstj. eigi ekki að gera svo lítið úr sjálfri sér að vera að reyna að skjóta sér undan svona aðgerðum, nema það verði séð, að hún hafi ekki fengið um það að vita, en þá náttúrlega er það á ábyrgð Seðlabankans eins, að þetta hefur gerst. En samkv. 4. gr., eins og ég hef sagt hér áður, hafði ríkisstj. heimild til að stöðva þetta og gat stöðvað það, hefði hún fengið um það að vita.

Hæstv. forsrh. vildi afsaka sig með því líka að benda á, að það væri ekki eðlilegt, að ríkisstj., eftir að hún hefði sagt af sér og sæti sem bráðabirgðaríkisstj., þar til önnur ríkisstj. hefði verið mynduð, sem hefði þingmeirihluta á bak við sig, gæti ekki gert slíkar aðgerðir í efnahagsmálum eins og t.d. vaxtahækkunina. En það frv., sem við erum að ræða hér, það er til staðfestingar á brbl. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, sem vissulega eru að sumu leyti nokkuð harkalegar aðgerðir í sambandi við efnahagsmál, og þessi lög eru gefin út af ríkisstj., eftir að hún hafði sagt af sér. (Gripið fram í.) Lögin eru dagsett 21. maí 1974. (Gripið fram í: Ríkisstj. sagði ekki af sér fyrr en 2. júní.) Það er rétt, hún sagði ekki af sér fyrr en 2. júní, svo að sú afsökun hans kann að standa að því leyti, og vil ég að sjálfsögðu ekki vefengja það. Ég skal þá ekki deila á hæstv. ráðh. fyrir það. En a.m.k. ef það kemur ekki fram alveg skýrt hér hjá hæstv, forsrh., að Seðlabankinn hafi ekki aðvarað hæstv. ríkisstj. um þær aðgerðir, sem hún ætlaði að gera, þá þýðir ekki að skjóta sér undan ábyrgð 4. gr. laga Seðlabankans eða þeirri heimild, sem 4. gr. laga Seðlahankans veitir um að ákveða aðgerðir í efnahagsmálum eins og hér er um að ræða.