20.08.1974
Neðri deild: 6. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

2. mál, viðnám gegn verðbólgu

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá frsm. fjh.- og viðskn., var ég annar þeirra, sem undirrituðu nál. fjh.- og viðskn. Það, sem veldur því, að ég vildi hafa fyrirvara á, er það, að á fundi fjh.- og viðskn. í gær var ekki, að því er virðist, hægt að fá þær upplýsingar, sem ég taldi þurfa, til þess að hægt væri að standa að nál. án fyrirvara.

Það þarf ekki að rekja það hér, að samhliða brbl. þessum, sem sett voru í vor, var einnig tekin ákvörðun af stjórnvöldum um hækkun niðgreiðslna á vöruverði. Það var því ein af þeim spurningum, sem ég vildi að svarað yrði, hvort þær niðurgreiðslur, sem þá voru ákveðnar, ættu að haldast óbreyttar þann tiltekna tíma, sem framlengingin ætti að gilda. Við þessu fengust ekki að mínu áliti viðhlítandi svör. Ég tel, að það þurfi að liggja fyrir sem eitt af grundvallaratriðum þessara brbl., hvort þær niðurgreiðslur, sem ákveðnar voru, eiga að haldast óbreyttar eða hvort þeim á að breyta.

Í öðru lagi taldi ég þurfa að fá vitneskju um það, hvort sú búvöruverðshækkun, sem ekki hefur enn komið til framkvæmda á landbúnaðarvörum, 9.5%, ef ég man rétt, en mundi að öllum líkindum verða nú 1. sept. um 12%, á að fara út í verðlag á þeim tíma, sem framlenging þessara brbl. á að eiga sér stað. Ef það gerist, eru grundvallar forsendur aðrar en gert var ráð fyrir, þegar brbl. voru sett. Við þessu fengust ekki viðhlítandi svör, að ég tel.

Í þriðja lagi tel ég, að þurfi að fá um það vitneskju, hvort fyrirhugað sé að halda áfram niðurgreiðslum á olíuverði til fiskiskipa.

Ég vil því eindregið beina þeim tilmælum til hæstv. forsrh., sem ég geri ráð fyrir að tali fyrir hönd væntanlegra valdhafa á eftir, hvort hér sé um að ræða, að það eigi að vera óbreyttur grundvöllur frá þeim tíma, sem brbl. voru sett, eða hvort búvöruverðshækkun eigi að koma, hvort eigi að breyta til lækkunar niðurgreiðslum frá því, sem er, og hvernig verði farið með olíuverð til fiskiskipa. Ég tel að þetta séu grundvallaratriði, sem verði að fá svör við, áður en hægt er að taka afstöðu til þess, hvort eigi að framlengja tiltekin brbl. um einn mánuð. Ég vænti þess, að hæstv. forsrh. gefi alveg ótvíræð svör um það, hvað á að gerast í þessum efnum.