20.08.1974
Neðri deild: 6. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

2. mál, viðnám gegn verðbólgu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég veit ekki á þessu stigi, hvort ég get talað fyrir hönd væntanlegra valdhafa, en ég geri ráð fyrir því, að hvaða stjórn sem hér tekur við muni standa við þær yfirlýsingar, sem ég hér gef.

Varðandi fyrirspurnir hv. þm. Karvels Pálmasonar vil ég segja þetta:

Fyrsta spurning hans varðandi þá hækkun, sem ákveðin var á niðurgreiðslum, um leið og þessi brbl. voru sett. Þeirri spurningu svara ég svo, að sú hækkun, sem þá var ákveðin, mun haldast óbreytt framlengingartíma brbl., nema áður hafi verið gerðar ráðstafanir til þess, að annað komi í stað niðurgreiðslnanna, sem verði talið þeirra ígildi.

Þriðja spurning hans var um það, hvort niðurgreiðslum olíuverðs til fiskiskipa yrði haldið óbreyttum. Svarið við þeirri spurningu er í raun og veru hið sama. Þeim verðum haldið óbreyttum, þangað til þá önnur skipan verður gerð á þeim málum.

Í annarri spurningu, sem varðaði búvöruverðshækkun, spurðist hann fyrir um það, hvort búvöruverðshækkun sú, sem ákveðin var af yfirnefnd á fundi hennar 18. júní s.l. kæmi til framkvæmda. Sú hækkun, sem þá var ákveðin af yfirnefnd, var eingöngu vegna hækkunar á verði rekstrarvara samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands. Þessi hækkun var þar ákveðin með atkv. oddamanns. Það kemur kannske skýrast fram, hvað hér er um að ræða, ef ég — með leyfi hæstv. forseta — les upp rökstuðning oddamannsins fyrir atkv. Hann gerði svofellda grein fyrir atkv. sínu:

„Krafa sú, sem vísað hefur verið til yfirnefndarinnar um hækkun á liðnum „rekstrarkostnaðar í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara“, er gilt hefur frá 1. mars 1974, er byggð á útreikningi Hagstofu Íslands og er ágreiningslaust, að sá útreikningur sé í samræmi við framreikningsreglur 6 manna nefndarinnar. Ég tel hækkun þá, sem farið er fram á, réttmæta og óhjákvæmilega, þar sem að öðrum kosti yrði um að ræða skerðingu á þeim hluta, sem ákveðinn er sem laun bóndans og verkafólks hans, eins og verðlagsgrundvöllurinn var ákveðinn 1. mars s.l.“

Ríkisstj. hefur haft þetta mál til meðferðar, því að vegna ákvæða í brbl. gat hækkun þessi ekki komið til framkvæmda nema með samþykki ríkisstj. Og ríkisstj. hefur á fundi sínum í morgun samþ. þessa hækkun. Ég undirstrika, að hér er eingöngu um að ræða hækkun vegna hækkunar á rekstrarvörum, en hækkun á liðnum „kaup bónda eða verkafólks hans“ kemur hér ekki til greina. Þessi búvöruverðshækkun mun því koma til framkvæmda á næstunni.

Kaupgreiðsluvísitala hefur í raun og veru þegar verið reiknuð út, og hún reiknuð samkvæmt gildandi ákvæðum í kjarasamningum og lögum ætti að vera 122.58 stig frá og með 1. sept. En kaupgreiðsluvísitalan, sem nú er í gildi og gildir áfram út september, ef þessi lög verða staðfest og þær breytingar á þeim samþykktar, sem lagt er til. verður 106.18 stig. Mismunurinn þarna á er 15.45%. En í grg. Hagstofunnar frá 2. júlí var kaupgreiðsluvísitalan áætluð 122.34 stig eða 15.22% hækkun. Í staðinn fyrir þá áætlun, sem sagt 15.22, verður reyndin 15.45, þannig að þarna munar ekki miklu. En þó að þessi lög, sem hér er um að ræða, yrðu ekki framlengd og sú hærri vísitala, sem ég nefndi hér, kæmi til framkvæmda i. sept., mundi ekki verða tekin inn í hana sú hækkun búvöruverðs, sem væntanlega kemur til á næstunni vegna þeirrar samþykktar, sem ríkisstj. hefur gert, þannig að þar er ekki um að ræða, að breytt sé þeirri stöðu, sem gilt hefði.