20.08.1974
Neðri deild: 6. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

2. mál, viðnám gegn verðbólgu

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Undarlegt háttalag fráfarandi ríkisstj. virðist ætla að halda áfram til síðasta dags, ef ekki alveg til síðustu stundar. Hvort sem þetta verður síðasti dagurinn, sem hún lifir, eða ekki, hvort sem hún lifir nokkra daga í viðbót eða ekki, þá hefur í öllu falli það gerst einu sinni enn, sem áður hefur gerst í hæstv. ríkisstj., þótt ekki hafi alltaf frést af því, a.m.k. ekki eins snemma og nú hefur átt sér stað, að þar eru mál afgreidd með atkvgr. Meiri hl. er með ákvörðun, minni hl. er á móti og þriðji hlutinn situr hjá.

Það vita allir, að það hefur ekki tíðkast á undanförnum áratugum í ríkisstjórnum, að mál hafi verið afgreidd með þessum hætti. Stórmál hafa verið afgreidd svona, bæði innanríkis- og utanríkismál, hjá hæstv. fráfarandi ríkisstj., og þessum vinnubrögðum virðist vera haldið áfram, eins og ég segi, til síðasta dags, til síðustu stundar.

En enn eitt merkilegt atriði hefur gerst nú alveg undir lokin, hefur gerst í morgun og er að koma í ljós hér í dag. Það er, að einn stuðningsflokkur hæstv. ríkisstj. virðist vera klofinn í málinu, hefur þó ekki nema tvo menn á þingi, en er klofinn samt. Það kemur greinilega í ljós í yfirlýsingu hæstv. menntmrh., að hann hefur ekki treyst sér til þess að beita sér gegn þessari ráðstöfun, sem Framsfl., illu heilli í samráði við Sjálfstfl. virðist hafa tekið. Það er augljóst mál, að ef hæstv. menntmrh. hefði sýnt af sér kjark og manndóm, þá hefði till. hæstv. forsrh. fallið og þá hefði sú árás, sem nú er í undirbúningi á launþegasamtökin, ekki átt sér stað. M.ö.o.: íslenskir launþegar geta þakkað helmingi Samtaka frjálslyndra og vinstri manna hér á Alþingi fyrir þá kveðju, sem við komum til með að fá 1. sept. n.k.

Það fór ekki á milli mála, að hv. 5. þm. Vestf. hafði skýlausa afstöðu í málinu. Ég tók yfirlýsingu hans þannig, að hann muni greiða atkv. gegn þeirri ráðstöfun, sem nú virðist vera fyrirhuguð. Ummæli hæstv. menntmrh. fæ ég ekki skilið öðruvísi en þannig, að hann muni greiða atkv. með þeirri árás á launþegasamtökin, sem nú er á döfinni.

Ég sagði áðan um þetta fyrsta samkomulag Framsfl. og Sjálfstfl., að um það mætti með sanni segja: Ill var hin fyrsta ganga. En um þennan klofning tveggja þingmanna Samtakanna vil ég segja: Ill var þeirra síðasta ganga.