22.08.1974
Efri deild: 6. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

2. mál, viðnám gegn verðbólgu

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Eins og kemur fram í nál. fjh.- og viðskn., var ég ekki viðstaddur afgreiðslu málsins úr n. Ástæðan var sú, að ég var einfaldlega á heimili mínu í Varmahlíð norður í landi og taldi vist, að þingfundir mundu liggja niðri, þar til ljóst lægi fyrir, hverjir mundu skipa nýjan meiri hl. hér á hv. Alþ. Þar sem flestir töldu ósennilegt, að það yrði í þessari viku, var ég rólegur á heimili mínu. En í gærmorgun var ég snögglega boðaður á þingfund, og þá átti ég þess engan kost að komast á þann fund, hvorki á landi eða láði né í lofti. Ég óskaði því eftir fjarvistarleyfi í síma. En nefndarfundur mun hafa verið haldinn í beinu framhaldi af fundi Ed. í gær. Þetta er skýringin á því, að ég gat ekki verið viðstaddur þennan nefndarfund.

En boðun þessara þingfunda virðist þó ekki vera til marks um það, að endanlega sé frá gengið um nýja stjórnarmyndun. Eins og áður var talið, virðist vera útlit fyrir, að ný ríkisstj. sjái ekki dagsins ljós fyrr en undir vikulokin í fyrsta lagi. Á hinn bóginn hafa þau tíðindi gerst, að nýr meiri hl. hefur upp vaknað hér á Alþingi, áður en til ríkisstjórnarmyndunar hefur komið, og er það harla óvenjulegur atburður.

Í upphafi þessa sumarþings var viðhaft samkomulag milli 4 flokka, Framsfl., Alþfl., Alþb. og SF, um kjör forseta þingsins og annarra starfsmanna, og reyndar voru samráð höfð um nefndakjör og þá m.a. um kjör formanna nefnda, að svo miklu leyti sem formenn n. voru kjörnir í upphafi þingsins. En nú hefur það sem sagt gerst, að einn þessara flokka, Framsfl., hefur vent kvæði sínu í kross og er nú farinn að hafa samvinnu við fimmta flokkinn, sem ekki var með í þessu upphaflega samkomulagi, um kosningu formanna nefnda, og held ég, að það eigi sér ekki mörg fordæmi í þingsögunni, að sami flokkurinn hafi samstarf við tvenns konar aðila um kjör á sams konar stofnunum hér innan þingsins.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um staðfestingu brbl., sem sett voru í vor um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, og um leið og staðfestingin á sér stað, er sú breyting á gerð, að lögin eru framlengd um einn mánuð.

Ég þarf ekki að segja einum eða neinum þau tíðindi, að enginn ágreiningur er uppi um það í þinginu, að sjálfsagt sé að gefa þeim, sem fást við stjórnarmyndunartilraunir, svigrúm til frekari samningaviðræðna, eftir því sem þörf krefur, þótt það verði að sjálfsögðu að vera í nokkru hófi. En allir munu nú sammála um að veita eins mánaðar frest og framlengja því gildistíma laganna um einn mánuð, og gildir þar einu, hvaða flokkar eiga í samningaviðræðum um stjórnarmyndun.

En jafnhliða þessu gerist það, að ákveðið er að samþykkja 9.5% hækkun á verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara og þá um leið, að þessi hækkun skuli fara út í verðlagíð án þess að á móti komi nokkrar bætur til launamanna. Hækkunin sem slík er ekki umdeild, eins og kunnugt er. Bændur eiga ótvírætt rétt á því að fá þessa hækkun. Henni hefur að vísu verið frestað alllengi, vegna þess að ekki var gert ráð fyrir þessari hækkun, þegar efnahagsráðstafanirnar voru gerðar með setningu brbl. í vor. En ljóst er, að þessari hækkun verður ekki með neinni sanngirni frestað lengur, og þá liggur að sjálfsögðu beint við, að framkvæmd á þessari hækkun verði innan ramma laganna um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu. Sú lagasetning byggðist á þeirri grundvallarforsendu, að ef horft væri fram hjá þeim hækkunum, sem orðið hafa á áfengi og á rekstrarvörum bifreiða, þá væri raunverulega ekki um kjaraskerðingu að ræða fyrir þá hópa í þjóðfélaginu, sem erfiðast eiga, barnmargar fjölskyldur, sem nota mikið af landbúnaðarvörum. Það lá ljóst fyrir, að þeir, sem gátu nýtt sér lækkun landbúnaðarvara til fulls og höfðu sem sagt raunverulega mikla þörf á því, að þeim væri hlíft, komu nokkuð sléttir út úr þeim efnahagsráðstöfunum, sem gerðar voru á s.l. vori með brbl., enda þótt þar væri um að ræða frestun á 14.5%. En með því að veita þessari landbúnaðarvöruhækkun út í verðlagið, án þess að þar komi nokkuð á móti, er verið að feta nýjar slóðir. Þá er verið að breyta út frá þeirri stefnu, sem mörkuð var í vor, og þá er verið að brjóta þann samkomulagsgrundvöll, sem þá var gerður um lausn þessara mála til bráðabirgða.

Ef löggjöfin um tímabundnar ráðstafanir á að standa enn um sinn um einn mánuð, eins og allir virðast vera sammála um að gert verði, meðan á þessu bráðabirgða- og millibilsástandi stendur, er að sjálfsögðu eðlilegt og sjálfsagt, að þessi hækkun landbúnaðarvara verði greidd úr ríkissjóði til bráðabirgða, en hún verði síðan tekin inn í heildardæmið, þegar næsta ríkisstj., hver svo sem hún verður, tekur til við að gera till. og fá samþ. um lausn á vanda efnahagslífsins.

Við Alþb: menn höfum átt í miklum viðræðum við aðra flokka um lausn efnahagsmálanna og höfum lagt fram okkar till. um, hvernig hyggilegast sé að standa að lausn vandans. Þar höfum við að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að þessi hækkun yrði tekin inn í dæmið. Eins er um aðra aðila, sem fást við stjórnarmyndunartilraunir, að þeir taka að sjálfsögðu þessa hækkun inn í dæmið, og á það að sjálfsögðu ekki síður við þá aðila, sem nú eru að fást við stjórnarmyndunartilraunir.

Ég ætla ekki að ræða hér frekar um efnahagsmálin almennt Það væri að sjálfsögðu ástæða til þess að koma inn á þau eitthvað frekar og þá sérstaklega að víkja að ýmsum barnalegum áróðursfullyrðingum, sem nú eru mjög á ferðinni og eru flestar að vísu svo aumkunarverðar og ómerkilegar, að þær eru tæpast svaraverðar, t.d. sú fullyrðing, að við Alþb: menn höfum fullyrt í vor og sumar, að enginn vandi væri á ferðinni. Þetta glymur hér í fjölmiðlum hvað eftir annað og á að vera haft eftir okkur, en er að sjálfsögðu rangt. Við höfum aldrei haldið slíku fram eða að engra aðgerða sé þörf, að ekki væri þörf á því að hafa í frammí ýmsar aðgerðir í efnahagsmálum til þess að koma þar á nauðsynlegu jafnvægi. Nú er mjög á ferðinni, að við höfum í viðræðum við samningsaðila um myndun stjórnar nánast lýst samþykki okkar við væntanlegar efnahagsaðgerðir einhverra annarra flokka. Þetta er enn ein áróðursfullyrðingin, sem mjög er á ferðinni þessa dagana og er að sjálfsögðu hin mesta bábilja.

Við höfum frá því í vetur mjög rætt um það, að nauðsynlegt væri að gera ákveðnar efnahagsráðstafanir, vegna þess að vandi væri á höndum. En við höfum hins vegar viljað mála myndina í eðlilegum hlutföllum og mótmælt þeim ýkjufrásögnum, sem stjórnarandstaðan hefur haft í frammi um þennan vanda, og við höfum á það bent, að í sjálfu sér stendur þjóðarhagur með ágætum og tekjuöflun þjóðarinnar stendur vel og atvinnulífið í grófum dráttum í miklum blóma. En vegna þess að hér hefur ekki verið á Alþingi um hálfs árs skeið meiri hl. fyrir hendi til þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að halda eðlilegu jafnvægi, hefur ýmislegt farið úrskeiðis, sem þarf að leiðrétta. Þetta hefur blasað við og þarf ekki frekari umræðu við.

Í þeim samningum um myndun nýrrar ríkisstj., sem fram hafa farið að undanförnu, höfum við lagt fram okkar till., eins og ég hef hér greint frá, enda þótt ég ætli mér ekki að fara að lýsa þeim hér í smáatriðum. En við höfum verið almennt hlynntir því, að verðlags- og vísitölumál yrðu tekin til heildarendurskoðunar núna á næstu mánuðum, en jafnframt höfum við varað við því, mjög eindregið, að reynt yrði að leysa vanda efnahagsmálanna með einni stórri gengisfellingu, eins og vissulega hafa heyrst hugmyndir um, og við höfum um leið lagt á það áherslu, að ekki yrðu lagðir nýir almennir skattar á nauðsynjavörur almennings.

Ég hjó eftir því í frásögnum að umr. í Nd., að forsrh. hafi lýst því þar yfir, að hann teldi fráleitt að samþ. brtt. ráðherranna Lúðvíks Jósepssonar og Magnúsar Kjartanssonar þess efnis, að hækkun á verði landbúnaðarvara til viðbótar þeirri hækkun, sem orðin er, skyldi greidd úr ríkissjóði. Hæstv. forsrh. mótmælti þessari till., að því er fjölmiðlar sögðu frá, á þeim forsendum, að peningar væru ekki til og tillögumönnum hefði verið nær að benda á fjáröflunarleiðir, um leið og þeir fluttu till. af þessu tagi, í stað þess að ávísa á peninga, sem ekki væru til. Ég hef haft mikil kynni af hæstv. forsrh. og þau flest góð og verð því að segja það, að fullyrðing af þessu tagi af hálfu hans kom mér býsna spánskt fyrir sjónir, svo auvirðileg var þessi röksemd og létt á metunum.

Það er upplýst, að niðurgreiðsla úr ríkissjóði til þess að halda landbúnaðarvöruverði í sama horfi og það hefur verið, þótt þessi hækkun á verðlagsgrundvellinum eigi sér stað, sú upphæð nemi um 50 millj. kr. Forsrh. lýsir því yfir, að þetta sé slík upphæð, að verði hún reidd af hendi af hálfu hæstv. fjmrh., þá megi búast við, að allt fari úr böndunum, þetta sé óleysanlegt vandamál greinilega. Þó er það upplýst og honum kunnugt jafnt sem okkur öðrum, sem höfum fengið upplýsingar um fjárhag ríkissjóðs, að tekjur ríkissjóðs aukast á þessu ári umfram áætlanir fjárlaga um tölu, sem ég heyrði seinast nefna í kringum 3 700 millj., ef ég man rétt. Ég hef ekki töluna hjá mér, en mig minnir, að það sé talan, í öllu falli er hún ekki lægri en það. En jafnframt var upplýst, að áætluð gjöld ríkissjóðs mundu frá fjárlagaáætluninni vaxa um svipaða upphæð, þ.e.a.s. um 3 700 millj. kr. Þó vita allir, að hér er um ágiskun að ræða og engin leið að spá nákvæmlega um, hvort það verður 1–2 hundruð millj. meira eða minna gjaldamegin eða tekjumegin. Með þetta í huga er að sjálfsögðu hin mesta fjarstæða að halda því fram, að útgjöld ríkissjóðs upp á 60 millj. mundu valda einhverjum vanda hjá ríkissjóði.

Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að bera upp þá fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort hann sé kannske kominn á þá skoðun, að ekki verði aflað frekari tekna í ríkissjóð umfram það, sem áætlað hefur verið, ef hans vilji fær að ráða. Ég veit, að hann getur ekki svarað fyrir hönd ríkisstj., sem ekki hefur verið mynduð, en hann getur svarað til um skoðanir sjálfs sin í þeim efnum. Ég ætla ekki að fara hér að lýsa, hvaða skoðanir hann hefur látið uppi í samningaviðræðunum við minn flokk eða aðra flokka. Það er eðlilegt, að hann greini frá því sjálfur, hverjar eru hans hugmyndir. En ég er að segja, að það kemur mér mjög spánskt fyrir sjónir, ef hann neitar þessari spurningu, sem ég hef hér lagt fyrir hann. Nei, .auðvitað blasir það við öllum, að gera verður ráðstafanir til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, og þar verður ekki um að ræða nokkra tugi millj., heldur a.m.k. nokkur hundruð millj.

Ég er ófeiminn að skýra frá því hér, að við Alþb.- menn höfum í samningaviðræðum við aðra flokka, haft uppi till. um skattlagningu til að auka tekjur ríkissjóðs, svo að hann mætti standa undir þeim útgjaldaauka, sem bersýnilega blasir við. En ég vil þá bæta því við, að þær till. gengu út á, að ekki yrði um að ræða skattlagningu á almennar nauðsynjavörur almennings, t.d. ekki hækkun söluskatts, heldur hækkun skatta á ýmiss konar eyðslu. Við vorum m.a. með þá till., að söluskattur yrði lagður á ferðagjaldeyri, sem ferðamenn fá, þegar þeir fara til annarra landa. En hægt er að upplýsa það; að söluskattur á ferðagjaldeyri á þessu ári mundi væntanlega nema milli 500 og 600 millj. kr., ef hann hefði verið lagður á á þessu ári, miðað við það, hvernig útlitið var um ferðamannagjaldeyrinn í byrjun ársins. Ég tek það fram, að það er miðað við tölur eins og þær litu út í byrjun ársins, en mér er sagt, að á þessu ári hafi orðið gífurleg aukning á ferðamannastraum til annarra landa, þannig að sjálfsagt er upphæðin miklu hærri en ég hef nú nefnt.

Þetta sýnir, að við Alþb.- menn höfum verið alveg óragir að benda á leiðir til fjáröflunar, og það er því mjög furðulegt, að till., sem gengur út á það, að landbúnaðarvöruverð sé greitt niður sem nemur 50 millj., sé hafnað á þeim forsendum, að í fyrsta lagi séu engir peningar til og í öðru lagi hafi tillögumenn ekki gert neinar viðbótartill. um fjáröflun. Sú röksemd stenst ekki, eins og ég hef hér sýnt fram á.

Nei, það, sem hér er að gerast, er ósköp einfaldlega það, að nýr meiri hl. hefur skapast í þinginu. Sjálfstæðismennirnir hafa fengið framsóknarráðherrana, hæstv. ráðh. Framsfl., til þess að láta ríkisstj. standa fyrir því að velta þessari hækkun út í verðlagið, án þess að nokkurt samkomulag sé um það með núverandi stjórnarflokkum. Það er því ljóst, m.a. af því, hvernig atkv. falla hér í þinginu, að þeir, sem bera ábyrgð á þessari hækkun, eru Sjálfstfl. og Framsfl., en ekki núv. ríkisstj., eins og sjálfstæðismenn og málgagn þeirra eru að reyna að telja fólki trú um.

Ég læt svo þessi orð nægja um þetta mál, en vil leyfa mér hér að endingu að flytja brtt. sama efnis og flutt var í Nd. við frv., þess efnis, að við 1. gr. 2. málsgr. bætist eftirfarandi setning:

„Sú hækkun á verði landbúnaðarvara, sem heimiluð verður á gildistíma laganna, skal greidd niður úr ríkissjóði.“

Þessi till. er borin fram skriflega og þarfnast að sjálfsögðu afbrigða, sem ég vil biðja forseta að óska eftir.